Smellið til að stækka
Smellið til að stækka

Ég hætti um áramótin sem ritstjóri Lands & sona, en sagði ekki frá því á vefnum fyrr en í dag. Hafði þá séð að Mogginn var að velta fyrir sér hvað liði tíðindaleysinu á síðunni. Það er ekki slæmt að hætta eftir svona ummæli. En kveðjubréfið er svona (og má líka sjá hér).

Ef til vill eru sumir lesendur vefsins að furða sig á hversvegna enn er verið að óska gleðilegra jóla, árs og friðar á forsíðunni. Ég sé að Morgunblaðið veltir því fyrir sér í klausu í fyrradag hvort þetta sé til marks um að kvikmyndaárið 2009 verði tíðindaminna en nýliðið ár. Sem betur fer eru litlar sem engar líkur á því, allt er á fullu í bransanum og fjölmörg verkefni í startholunum. Kannski ekki síst vegna þess að fyrir kvikmyndagerðarmenn er kreppuástand engin sérstök tíðindi. Hinsvegar er það svo að s.l. sumar óskaði ég eftir því við stjórn ÍKSA að láta af störfum um áramótin. Því miður hefur ráðning nýs ritstjóra tafist nokkuð og því verður örlítið gat í fréttaflutningi vefsins, en stjórn ÍKSA tjáir mér að væntanlega verði gengið frá ráðningunni í næstu viku.

Í framhaldinu langar mig að stikla á stóru í 14 ára sögu L&S:

Land & synir (L&S) hóf göngu sína í nóvember 1995. Ég var þá tiltölulega nýkomin heim frá námi í kvikmyndaleikstjórn og hitti að máli Böðvar Bjarka Pétursson, þáverandi formann Félags kvikmyndagerðarmanna. Við töldum báðir brýnt að efla umræðu- og fréttavettvang bransans og úr varð að við ýttum úr vör litlu blaði, sem ætlað var að koma út annan hvern mánuð.

Hugmynd okkar var að hafa þetta einfalt og viðráðanlegt. Betra væri að gefa út lítið blað sem kæmi reglulega út, heldur en að ráðast í viðameiri útgáfu sem ekki gæti staðið undir sér til lengdar. Báðir höfðum við gefið út vegleg kvikmyndatímarit áður og komist að þessum sannleik.

Segja má að þessi stefna hafi blessast, því blaðið hefur, ólíkt ýmsum öðrum íslenskum kvikmyndaritum, haldist í útgáfu þrátt fyrir þröngan stakk. Á móti kemur að svo ótalmargt var ókleift að gera vegna hins þrönga stakks – nokkuð sem auðvelt er að yfirfæra á bransann í heild sinni.

Félag kvikmyndagerðarmanna kostaði útgáfuna fyrstu árin en frá og með janúar 1997 tók Kvikmyndasjóður þátt í kostnaði blaðsins.

1998 lét undirritaður af störfum ritstjóra og við tók Sigurjón Baldur Hafsteinsson, sem stýrði blaðinu fram á haust 1999, en þá tók Björn Brynjúlfur Björnsson við keflinu. Frá og með september 2000 koma SÍK og SKL einnig að blaðinu sem fjárhagslegir bakhjarlar.

Vorið 2001 tekur undirritaður aftur við ritstjórn blaðsins og í desember 2003 fór vefurinn, www.logs.is, í loftið. Um leið var útgáfutíðni blaðsins minnkuð, fyrst í tvö blöð á ári og síðan í eitt, sem kemur út í kringum Edduverðlaunin og er nokkurskonar árbók bransans. Á sama tíma tók Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían, sameiginlegur vettvangur allra hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna, við útgáfunni.

Vefnum var frá upphafi vel tekið. Samkvæmt Google Analytics frá 15. janúar 2008 til og með 14. janúar 2009, sóttu alls 13.179 gestir vefinn heim, alls 41.980 sinnum. 70% af gestum vefsins eru reglulegir lesendur. Vikulegar heimsóknir eru á bilinu 800 til 1000.

Þegar haft er í huga að bransinn allur, að meðtöldum starfsmönnum sjónvarpsstöðvanna, telur um 6-700 manns, er ljóst að vefurinn nær langt út fyrir raðir bransans.

Stór hópur úrvalsfólks hefur komið að Landi & sonum í gegnum tíðina. Þegar horft er yfir listann lætur nærri að kalla þetta nokkurskonar „who’s who“:

Eftirtaldir sátu með mér í fyrstu ritnefndinni auk Böðvars Bjarka Péturssonar, fyrrverandi forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands og núverandi eiganda Kvikmyndaskóla Íslands: Erlendur Sveinsson heimildamyndasmiður, Hildur Loftsdóttir blaðamaður, Sigurður Hr. Sigurðarson hljóðmeistari og Þorsteinn Jónsson leikstjóri, framleiðandi, handritshöfundur og fyrrum forstöðumaður Kvikmyndasjóðs.

Auk þeirra hafa eftirtaldir setið í ritnefnd á mismunandi tímum: Hákon Már Oddsson heimildamyndasmiður og dagskrárgerðarmaður, Einar Már Guðmundsson rithöfundur og handritshöfundur, Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri og framleiðandi, Anna Th. Rögnvaldsdóttir leikstjóri og framleiðandi, Ólafur H. Torfason gagnrýnandi, Ari Kristinsson leikstjóri, framleiðandi og formaður SÍK; Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri, handritshöfundur, framleiðandi og fyrrum dagskrárstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins; Gunnar Þorsteinsson dagskrárritstjóri Sjónvarpsins; Ingvar Þórisson heimildamyndasmiður; Heimir Jónasson fyrrum dagskrárstjóri Stöðvar 2; Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands; Ari Alexander heimildamyndasmiður, Elísabet Ronaldsdóttir klippari og fyrrum formaður ÍKSA; Haukur Hauksson dagskrárgerðarmaður; Haukur Már Helgason rithöfundur og heimspekingur; Jón Atli Jónasson handritshöfundur og leikskáld; Kristín Atladóttir framleiðandi; Páll Baldvin Baldvinsson fyrrum dagskrárstjóri Stöðvar 2; Ragnar Bragason leikstjóri og handritshöfundur; Sigurjón Baldur Hafsteinsson mannfræðingur og fyrrum forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands; Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur; Þorkell Ágúst Óttarsson guðfræðingur og kvikmyndaunnandi; Þorfinnur Ómarsson fyrrum forstöðumaður Kvikmyndasjóðs; Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur og myndlistarmaður og Þorsteinn J. Vilhjálmsson dagskrárgerðarmaður.

Um tíma réð blaðið þá Skarphéðinn Guðmundsson blaðamann og núverandi dagskrárstjóra Stöðvar 2 og Ottó Geir Borg handritshöfund til að sinna fréttaskrifum í hlutastarfi. Eru þá ótaldir allir þeir fjölmörgu til viðbótar sem skrifað hafa á blað og vef á þessum tíma.

Þess má og geta að allar sjónvarpsstöðvarnar, langflest kvikmyndafyrirtækin og öll helstu þjónustufyrirtæki bransans hafa stutt vef og blað með auglýsingum og fyrir þann ómetanlega stuðning skal sérstaklega þakkað.

L&S er öflugasta uppspretta frétta, umræðna og pistlaskrifa um málefni íslenskra kvikmynda og sjónvarps. Allir helstu fjölmiðlar landsins hafa margoft flutt fréttir af bransanum sem fengnar eru af vefnum. Þessu er svona lýst í klausu Morgunblaðsins:

„Málgagn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hefur um nokkra hríð verið með virkari upplýsinga- og fréttasíðum listiðnaðarins og aðrar stéttir listamanna gætu ábyggilega margt lært af síðunni. Oftar en ekki hefur ritstjóri málgagnsins, Ásgrímur Sverrisson, „skúbbað“ fréttum af íslenskum kvikmyndagerðarmönnum og það hafa fjölmiðlar á borð við Morgunblaðið nýtt sér til að koma fréttunum til sinna lesenda“.

Og í lokin:

„…öruggt má telja að án síðunnar myndu færri fréttir um kvikmyndaiðnaðinn rata í fjölmiðla.“

Ég vil þakka Morgunblaðinu hlý orð í garð vefsins og mín. Það er ekki ónýtt að láta af störfum við þessi ummæli. Nú þegar ég sný mér að öðrum verkefnum vil ég þakka lesendum samfylgdina og óska væntanlegum ritstjóra alls hins besta í starfi sínu. Ég mun halda áfram að skrifa á vefinn og hvet fleiri til að leggja orð í belg á þessum mikilvæga vettvangi íslenskra kvikmyndagerðarmanna.

Með bestu kveðju,

Ásgrímur Sverrisson.