Til hvers er RÚV?

(Skrifað 7. maí 2004, sem erindi á fundi sjálfstæðismanna í Hafnarfirði þar sem málefni RÚV voru til umræðu.)

Til hvers eigum við að reka Ríkisútvarp? Þessari spurningu er gott að halda á lofti og helst ættum við að reyna að svara henni á hverjum degi. Slíkur rekstur er ekki sjálfgefinn þegar einkaaðilar hafa fyrir löngu sýnt og sannað getu til að standa að rekstri útvarps- og sjónvarpsstöðva.

Fyrir mitt leyti vil ég svara spurningunni svona: Við eigum að reka Ríkisútvarp til að tryggja fjölbreytni í framboði útvarps- og sjónvarpsefnis. Til að gefa almenningi kost á aðgengi að annarskonar efni en því sem einkaaðilar bjóða uppá. Til að eiga skýran valkost.

Afhverju þurfum við fjölbreytni? Jú vegna þess að í henni felst sá styrkur sem þjóðfélagið getur ekki verið án. Í fjölbreytninni er farvegur ólíkra hugmynda sem stöðugt takast á og skapa þannig dýnamískt samfélag.

En hverskonar stofnun á Ríkisútvarpið þá að vera? Þunglamalegt bákn sem leggur rækt við arfinn og/eða einhverskonar upplýsingaveita annarra stofnana ríkisins? Hugmyndir í þá átt birtust nýlega í leiðara Morgunblaðsins, þar sem talað var um að RÚV ætti að leggja áherslu á að sýna frá fundum alþingis og sveitastjórna, auk þess að bjóða uppá “hágæða menningarefni” eins og það var orðað.

Ég er hjartanlega ósammála svo þröngri og forneskjulegri sýn.

Ríkisútvarpið á að vera framherji íslenskrar menningar, öflugur vettvangur umræðu, upplýsinga, skemmtunar og fræðslu um lífið í landinu. Það er, valkostur þeirra sem vilja íslenskt efni. Þar á þjóðin að geta fundið spegil tilveru sinnar á hverjum tíma og þegar best lætur, séð sjálfa sig í nýju ljósi. Menningarhugtakið nær í mínum huga yfir samtíð og sögu, drauma og veruleika, vonir og þrár, alla hugsanlega fiska undir öllum hugsanlegum steinum.

Með öðrum orðum: Ríkisútvarp er eitt öflugasta tækið sem við höfum til að skoða samfélagið á hverjum tíma; eitt helsta flaggskip hugmyndarinnar um þjónustu við almenning og þar með við lýðræðið í landinu.

Ríkisútvarpið er því merkilegt fyrirbrigði og afar mikilvægt að standa um það vörð, efla það og styrkja. Skoðanakannanir hafa margsýnt að um þetta er meirihluti þjóðarinnar sammála.

Hitt er þó einnig jafn mikilvægt að stærð RÚV verði ekki til að íþyngja einkaframtaki á sviði ljósvakafjölmiðlunar. Lykilatriði í þeim efnum er hvernig stofnunin er fjármögnuð. Jafnframt þarf að skilgreina hlutverk stofnunarinnar með skýrari hætti, með sérstökum samningi við ríkisvaldið t.d. til tíu ára í senn líkt og Breska ríkisútvarpið – BBC – gerir. Í slíkum samningi yrði meðal annars kveðið á um skyldur stofnunarinnar gagnvart framboði hverskyns innlends sjónvarpsefnis, leiknu sem öðru. Á móti yrði RÚV tryggðar ákveðnar tekjur á þessu tímabili með eðilegum hækkunum á fyrirfram skilgreindan máta, þannig að stofnunin gæti mætt skyldum sínum með sannfærandi hætti.

Í mínum huga lítur þetta svona út:

Í fyrsta lagi: taka á RÚV af auglýsingamarkaði. RÚV hefur um 850 milljónir á ári í tekjur af auglýsingum og kostun. Þennan bita af kökunni eiga einkastöðvar að keppa um. Það gengur ekki að RÚV hafi bæði lögbundin afnotagjöld og keppi jafnframt við einkastöðvarnar um auglýsingatekjur, enda stendur þetta einkaaðilum mjög fyrir þrifum. Í staðinn á að gera ákveðnar kröfur til einkaaðila um hlutfall innlendrar dagskrár og frekari skiptingu þess í efnisflokka á borð við fréttir og fréttatengt efni, leikið efni og heimildarmyndir.

Í öðru lagi: Afnotagjöld eiga að standa – og hækka – líklega um helming. Þetta er pólitísk ákvörðun sem stjórnvöld þurfa að hafa hugrekki til að taka. Það er einfaldlega staðreynd að við þurfum að borga fyrir smæð okkar. Þjóðin mun kaupa það ef – og aðeins ef – hún finnur að hún er að fá eitthvað fyrir peningana, þ.e. stóraukið framboð á vönduðu innlendu efni af hverskyns toga. Innlendu efni sem beint er að margskonar ólíkum hópum og áhugasviðum. Bæði efni sem ætlað er að höfða til hins breiða fjölda og efni sem beint er að smærri hópum.

Stefna RÚV, eins og hún birtist í lögum um ríkisútvarpið, er rétt. Þar er m.a. talað um að Ríkisútvarpið skuli leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, gæta fyllstu óhlutdrægni, veita almenna fréttaþjónustu, vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir, flytja fjölbreytt skemmtiefni og efni við hæfi barna, flytja efni á sviði lista og veita almenna fræðslu. Og einnig segir í lögunum: “Útvarpsefni skal miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs.”

Hér þarf að engu að breyta. Hinsvegar eru áherslurnar í framkvæmdinni ekki réttar að mínu mati og þá sérstaklega hvað Sjónvarpið varðar. Hlutfall innlends efnis í Sjónvarpinu er alltof lágt. Með því að taka með fréttir, íþróttir, barnaefni og ýmsa aðra þætti sem innihalda mikið af erlendu efni má telja “innlent” efni Sjónvarpsins tæpan helming þess sem sýnt er. Látum vera þó að rúmt sé reiknað. Hlutfallið er ennþá alltof lágt. Að mínu mati nemur ásættanlegt hlutfall fyrir ríkisstöð með skylduáskrift þremur/fjórðu að lágmarki. Semsagt, minnst 75% skal vera raunverulegt innlent efni.

Hvað myndi þetta kosta og hvaðan eiga peningarnir að koma? Varlega áætlað, þ.e. út frá þeim forsendum sem RÚV gefur sér varðandi innlent efni, erum við að tala um 50% aukningu á innlendri dagskrá. Gróft reiknað út frá kostnaðartölum RÚV myndi ég giska á að afnotagjaldið þyrfti að tvöfaldast, þar sem auglýsingatekjur dyttu út. Ýmsir aðrir liðir gætu haft áhrif á, t.d. að RÚV hætti þátttöku í rekstri Sinfóníunnar og tækist að leysa lífeyrisskuldbindingar sínar með öðrum hætti. Báðir þessir liðir hafa komið til umræðu hjá stjórnvöldum, en hér er um hundruði milljóna króna á ári að ræða, sennilega um 10% af árlegum rekstrarkostnaði RÚV. Þá myndi efling Sjónvarpsmyndasjóðs einnig spila nokkuð inní þetta mál, enda myndi sá sjóður að öllu jöfnu taka verulegan þátt í kostnaði leikins efnis í Sjónvarpinu. Jafnframt myndi kostnaður við erlend innkaup lækka mikið. Einn liður er ótalinn, sem eru hugsanlegar tekjur af því mikla magni efnis sem Sjónvarpið á í fórum sínum. Um þessar mundir og á næstunni eru að opnast margskonar möguleikar til að koma slíku efni á framfæri, hvort sem er á mynddiskum, gegnum internetið eða með stafrænni dreifingu sjónvarpsefnis. Ekki er að efa að, ef vel verður á haldið, leynist þarna drjúgur tekjustofn.

Í kjölfar fjölmiðlafrumvarpsins svokallaða hafa kviknað umræður um framtíð RÚV. Meðal annars hafa verið nefndar hugmyndir um að leggja niður afnotagjaldið og taka upp nefskatt eða setja stofnunina á fjárlög. Þetta tel ég ekki heppilegar leiðir, enda mun hvor þeirra sem farin verður, vega að 2. málsgrein laga um Ríkisútvarpið, þar sem segir:

“Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins”.

Í lögunum er ekki tekið nánar fram hvað þetta þýði en hægt er að skoða hvernig þetta er orðað gagnvart BBC, algerlega sambærilegri stofnun, í Bretlandi: Þar segir í stofnskrá BBC (BBC Charter): “Stofnunin skal vera sjálfstæð í öllu er varðar innihald dagskrár og útsendingu hennar, sem og í stjórnun sinna mála.” (The Corporation shall be independent in all matters concerning the content of its programmes and the times at which they are broadcast or transmitted and in the management of its affairs.)

Verði RÚV sett á fjárlög eða fjármagnað með nefskatti hefur stofnunin ekki lengur formlegt fjárhagslegt sjálfstæði. Án þess er ekki um raunverulegt sjálfstæði að ræða. Slíkt fyrirkomulag mun einfaldlega þýða að stofnunin verður enn frekar en nú er upp á náð stjórnmálamanna komin – með mikilli hættu á tilheyrandi skakkaföllum vegna aðstæðna hverju sinni og möguleika á allskyns pólitískum fléttum.

Ég stend satt að segja í þeirri trú að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar undanfarin þrettán ár hafi markvisst unnið að því að minnka vald stjórnmálamanna. Ég vil því ekki trúa því að óreyndu að þessar hugmyndir nái fram að ganga.

Afnotagjaldið er handhægur skotspónn og mörgum reynist auðvelt að láta það fara í taugarnar á sér. Ég tel þó að þegar menn skoða málið betur viðurkenna flestir að RÚV veiti nauðsynlega samfélagslega þjónustu og fyrir hana þarf að sjálfsögðu að greiða.

Fyrir almenning skiptir minnstu hvort hann greiði fyrir RÚV í formi skatta eða afnotagjalda. Fyrir sjálfstæði RÚV skiptir hins vegar höfuðmáli að stofnunin geti aflað fjár til síns rekstrar með beinum hætti. Vonandi fórnum við ekki þessum dýrmætu hagsmunum stofnunar í eigu okkar allra með vanhugsaðri aðgerð – dúsu uppí háværan en smáan minnihlutahóp. Í þessu sambandi má t.d. spyrja sig hversvegna Bretar hafa valið þann kost að halda afnotagjaldinu í hvert það skipti sem stofnskrá BBC hefur verið endurskoðuð á undanförnum áratugum, nú síðast 1996 þegar stjórn John Major fór með völd og þar áður undir stjórn Thatcher. Ekkert virðist heldur benda til að breyting verði á þegar stofnskráin verður endurskoðuð eftir tvö ár.

Punkturinn um sjálfstæði RÚV leiðir okkur beint að þriðja liðnum: breyta þarf yfirstjórn RÚV með það að markmiði að undirstrika og auka sjálfstæði þess enn frekar. Leggja á niður útvarpsráð sem skipað er fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Í staðinn kæmi nýtt útvarpsráð (sem mætti gjarnan heita eitthvað annað til að forðast hina neikvæðu tengingu) skipað aðilum víðsvegar að úr þjóðlífinu sem ætlað væri að sjá til þess að RÚV sé rekið með hagsmuni áhorfenda og hlustenda í huga. Slíkt ráð myndi ennfremur ráða útvarpsstjóra og aðra helstu stjórnendur RÚV í samráði við útvarpsstjóra en kæmi að öðru leyti ekki nálægt mannaráðningum. Hið nýja útvarpsráð myndi heldur ekki skipta sér af einstökum dagskrárliðum. Hlutverk þess fælist í því að varðveita sjálfstæði stofnunarinnar, setja henni markmið í anda laga og fylgjast með framkvæmd og árangri. Þetta væru verðir almannahagsmuna.

Ég sé fyrir mér sex til átta manna ráð skipað af menntamálaráðherra til t.d fjögurra ára í senn að fengnum tilnefningum frá ýmsum hagsmunaaðilum, nokkurskonar þverskurð af þjóðfélaginu. Þarna væri t.d. hægt að hafa fólk úr atvinnulífinu, listamenn, aðila úr íþróttahreyfingunni, háskólafólk, bændur, umhverfisverndarsinna og fulltrúa nýbúa og neytenda svo dæmi séu tekin.

Útvarpsráð skipað fulltrúum stjórnmálaflokka er einkenni stjórnarfars forræðishyggju. Þetta ágæta fólk kemur þarna inn sjálfsagt með góðan vilja en jafnframt sem fulltrúar síns flokks. Hverra hagsmuna er það að gæta? Jú, fyrst og fremst stjórnmálaflokkanna. Hvers vegna þarf að gæta hagsmuna þeirra sérstaklega? Hvar er áherslan á að gæta hagsmuna áhorfenda og hlustenda? Starfsemi Ríkisútvarpsins spannar miklu víðtækara svið en stjórnmál. Og er ekki sérstaklega kveðið á um skyldur RÚV gagnvart lýðræðislegri umræðu og óhlutdrægni í fréttaflutningi í lögum? Þurfa flokkarnir virkilega að hafa menn þarna inni til að passa uppá að þessu tiltekna atriði í lögunum sé framfylgt? Hvað með traust til þeirra sem ráðnir eru til starfa? Er einhver sérstök ástæða til að ætla að stjórnendur og starfsmenn muni bregðast því trausti og fara að brjóta lög ef fulltrúar stjórnmálaflokkanna eru ekki á svæðinu til að vakta mannskapinn? Hverskonar hugmynd er þetta? Einhverskonar afbrigði af vænisýki?

Og hvað höfum við svo með núverandi fyrirkomulagi? Reglulegan skotgrafahernað þar sem menn reyna að slá pólitískar keilur. Reglubundnar ásakanir um annarleg sjónarmið varðandi mannaráðningar og dagskrá. Almenna paranoju. “Sjónvarp Bláskjár” – “Vinstrivilla” í útvarpinu. Hvaða endileysa er þetta? Hefur engum dottið í hug að ef til vill vilja starfsmenn stofnunarinnar bara fá að vinna sín verk í friði og í anda þeirra laga sem RÚV er gert að starfa eftir? Alltjent kemur skýrt í ljós hvað eftir annað í könnunum að þjóðin á í engum vandræðum með að treysta fréttaflutningi RÚV. Hún satt að segja treystir engum öðrum fjölmiðli betur. Hvað segir það okkur?

Mig grunar reyndar að það segi sumum stjórnmálamönnum að þetta kerfi svínvirki! En það er mikill misskilningur. Starfsmenn RÚV vinna sín störf vel og njóta trausts þrátt fyrir útvarpsráð en ekki vegna þess. Lýsing mín hér á undan á hinu nýja útvarpsráði er reyndar byggð á starfi sambærilegs ráðs BBC – The Board of Governors. Við erum að tala um stofnun sem ekki aðeins nýtur trausts og virðingar á heimavelli heldur um gervallan heim.

Við erum náttúrulega fullkomnari er það ekki – en hvernig þá aftur?

Og meira um afskipti stjórnmálamanna af ríkisútvarpi. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þróun mála hjá BBC í kjölfar Hutton-skýrslunnar svokölluðu fyrr í vetur, þar sem stofnunin var sökuð um óvandaðan fréttaflutning varðandi þátt bresku ríkisstjórnarinnar í undirbúningi innrásarinnar í Írak. Í kjölfar skýrslunnar sagði Gavyn Davies formaður ráðsins af sér ásamt útvarpsstjóra BBC, Greg Dyke. Afsagnir þeirra eru út af fyrir sig athyglisverðar gjörðir í samanburði við hefðbundna meðferð sambærilegra mála hér á landi. Þeir töldu semsagt efni til að segja af sér þrátt fyrir að vera heiftarlega ósammála niðurstöðum skýrslunnar og telja hana afar ósanngjarna gagnvart BBC. Eins vekur athygli að þrátt fyrir harða gagnrýni stjórnvalda á BBC var afsagnar þeirra ekki krafist.

Við gerum auðvitað ekki svoleiðis hér – en bíðum við, út af því að…?

Nýlega tilkynnti breska ríkisstjórnin um ráðningu nýs formanns útvarpsráðs BBC. Sá heitir Michael Grade, kunnur sjónvarpsmaður sem komið hefur víða við sögu bresks sjónvarps. Maðurinn nýtur trausts og ráðning hans nýtur almennrar hylli, hvort sem litið er til hægri eða vinstri.

Sérlega athyglisvert er að skoða hvernig ráðningu hans ber að. Ráðning Michael Grade var staðfest af Tessu Jowell, menningarmálaráðherra Breta og var staðfesting hennar borin undir forsætisráðherrann áður en drottningunni, sem formlega skipar í embættið, var tilkynnt um val ráðherra. En ráðningarferlið er hannað með það fyrir augum að tryggja sem sanngjarnasta meðferð málsins – og til að hamla gegn því að ríkisstjórnin bendi bara á þann sem að þeim þykir bestur.

Sérstök fjögurra manna nefnd undir stjórn umsjónarmanns opinberra embættisráðninga (the Commissioner for Public Appointments) hefur yfirumsjón með leitinni að hinum rétta aðila. Þetta er gert til auka traust almennings á því að ráðningarferillinn sé óháður pólitískum þrýstingi. Þessi nefnd auglýsir starfið laust til umsóknar.

Önnur nefnd, skipuð óháðum aðilum úr ólíkum áttum, fer síðan yfir umsóknir og sigtar þá út sem henni líst best á. Þeir eru síðan kallaðir fyrir nefndina til viðtals og að lokum leggur nefndin tillögur sínar fyrir menningarmálaráðherrann.

Þrátt fyrir þetta ferli heyrðust þær raddir að stjórnmálamenn væru enn í þeirri stöðu að geta haft of mikil áhrif á ráðninguna. Meðal annars var bent á að eina leiðin til að fullvissa almenning um að slíkt væri ekki tilfellið, væri að láta fyrrnefndan umsjónarmann opinberra embættisráðninga taka lokaákvörðunina, en ekki ráðherra.

Jowell menningarmálaráðherra svaraði því m.a. til í viðtali við BBC að þetta ferli byggði á skýrum reglum sem tryggðu óháð vinnubrögð og gegnsæi. Hún benti á að viðtöl við umsækjendur hefðu verið tekin af aðilum sem nytu almenns trausts og væru óháðir ráðherrum. Hún klykkti út með því að segja: “Ekki verður reynt að hafa áhrif á valið”.

Menn verða að gera það upp við sig hvort þeir trúi almennt orðum pólitíkusa en leikar fóru þó svo að hún valdi þann sem nefndin hafði mælt með, líkt og hefð var fyrir. Ráðning Michael Grade þykir einnig sýna að bresku ríkisstjórninni sé alvara með að styðja sjálfstæði BBC. Grade er ekki merktur neinni pólitískri stefnu og ferill hans hefur verið afar farsæll.

Mælir eitthvað sérstaklega gegn því að við tökum þessi vinnubrögð til fyrirmyndar?

Með því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd – taka RÚV af auglýsingamarkaði, fjármagna stóreflingu innlendrar dagskrár og undirstrika sjálfstæði RÚV – skapast ekki aðeins aukið svigrúm fyrir einkaaðila á sviði ljósvakafjölmiðlunar til að efla fyrirtæki sín og keppa sín á milli án þess að búa við ójafna stöðu gagnvart ríkisfyrirtæki. Við fáum einnig Ríkisútvarp sem hefur almannahagsmuni að leiðarljósi og ræktar hinar alhliða menningarlegu skyldur sínar við þjóðina, eigendur sína, með sannfærandi hætti. Ríkisútvarp sem væri sannkölluð þjóðargersemi. Ríkisútvarp sem væri sannarlega þess virði að berjast fyrir á hverjum degi.

One thought on “Til hvers er RÚV?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s