Bréf frá Bretlandi

(Þessi pistill er skrifaður 17.1.1993 og birtist upphaflega stuttu síðar í kvikmyndablaðinu Kvikmyndir sem Böðvar Bjarki Pétursson gaf út. Þarna var ég við nám í Bretlandi.)

Samtal milli mín og skólabróður míns, Tony Fisher. Hann var að fara að gera mynd.

Ég: Hvar ætlarðu að filma?
Tony: Á vettvangi.
Ég: Afhverju ekki í myndveri?
Tony: Nú, það væri blekking.

Þarna kemur fram djúpur skilningur.

Það er auðvitað gaman að vera í skóla, geta spáð og spekúlerað, lesið bækur, skoðað myndir, rifið kjaft, hlusta á gáfulega kvikmyndagerðarmenn og ógáfulega, rifið meiri kjaft og síðast en ekki síst – gert kvikmyndir, en það þykir afskaplega mikilvægt í National Film and Television School.

Það sama verður því miður ekki sagt um landið í heild, þeir eru fáir sem eru impóneraðir fyrir bíói í Bretlandi. Sjónvarpið tröllríður öllu, enda er sjónvarpsiðnaður þeirra einn sá stærsti í veröldinni og oftar en ekki tekur heimurinn þeim afurðum fagnandi. Nokkrar bíómyndir eru að vísu gerðar í Bretlandi á ári hverju, en fáir koma að sjá þær og fæstar þeirra eru gerðar fyrir bresk pund eingöngu. Og ef svo er þá má bóka að bakvið fyrirtækið stendur einhver sjónvarpsstöðin.

Breska ríkisstjórnin, með fröken Thatcher í fylkingarbrjósti, fannst nefnilega breskir kvikmyndaframleiðendur ekki vera nógu miklir kapítalistar á sínum tíma og ákvað að hætta að dæla í þá fé. Hún vildi að þeir færu að dæmi Hollywood og hæfu framleiðslu kvikmynda með aðferðum hins frjálsa framtaks. En tregt var (og er) í taumi. Hógværð er meðalBretanum eiginlegri en glamúr og sjálfbirgingsháttur. Hin breska þjóðarsál er lítillát og unir við sitt… nema þegar hún nennir því ekki og þá er hún gagnrýnin á umhverfi sitt og hlutskipti. Uppáhalds umræðuefni hennar, veðurfarið, breytist þá í almenna bölsýni um að nú sé komið að hruni himnanna, syndafalli, Nóaflóði og guðmávitahvað. Þetta er náttúrulega ekki alveg "such stuff as dreams are made on" ef ég má sletta aðeins á erlendri tungu og vitna í hugmyndafræði Hollywoodborgar. Því er illa komið fyrir bíómyndum í Bretlandi. Stöðugt koma upp nýjir leikstjórar þar í landi og ef þeir verða uppvísir að því að geta eitthvað þá líður ekki á löngu þar til þá gefur að líta sólbakaða í Hollywood hæðum. Nokkrir eru þeir þó sem þráast við og reyna að kljást við ástandið heimafyrir.

Vandamálið er bara að Bretland er land án goðsagna og fantasíu. Það er enginn skortur á greindarlegum og vel ígrunduðum sjónvarpsmyndum, tækniþekking er á afar háu stigi, leikarar þessarar þjóðar eru fremstir meðal jafningja og svo framvegis. En eins og einhver sagði: "breskar kvikmyndir fá mann til að hugsa, en ekki finna til". Einhvernveginn er það svo að fáir kunna að láta sig dreyma. Undantekningar má þó finna.

Terence Davies er einn þeirra sem dreymir. Hann hefur aðeins gert tvær bíómyndir síðan hann lauk námi frá NFTS árið 1978, en þær eru báðar einn langur draumur, um fjölskyldu hans og uppvaxtarár í Liverpool eftirstríðsáranna. Fyrri myndin "Distant Voices, Still Lives" var sýnd hér á Kvikmyndahátíð 1988 og hlaut m.a. verðlaun gagnrýnenda í Cannes. Hin, "The Long Day Closes" er óbeint framhald þeirrar fyrri og var hún frumsýnd í vor. Þessar tvær myndir, sem raunar ber að líta á sem þríleik því fyrri myndin er í raun tveir hlutar, eru gersamlega á skjön við flest annað sem landar hans eru að fást við og skipa honum í hóp athyglisverðari kvikmyndahöfunda heimsins.

Talandi um slík fyrirbrigði. Á okkar afstöðulausu tímum, þegar allt og ekkert er í tísku, kemur í ljós að kvikmyndakúltúr heimsins er að verða stöðugt fátækari af risum. Bergman er hættur, Antonioni er horfinn, Fellini fer sjálfsagt að hætta, Kurosawa er enn að (ég mæli með nýjustu myndinni hans "Rapsódíu í Ágúst") en hversu lengi, Bunuel er fallinn í valinn, Truffaut sömuleiðis, Godard virðist ekki nenna þessu lengur, Bertolucci er orðinn blóðlaus, Coppola má muna sinn fífil fegurri þó enn sé von. Það er svosem enginn skortur á fólki sem er að gera athyglisverða hluti, Almodovar, Jarmusch, Beinex, Carax, Lynch, Kaurismaki, Van Sant, Coen bræður, Cronenberg, Kieslowski o.fl. o.fl., en einhvernveginn held ég að enginn sé reiðubúinn til að fylgja þeim yfir Esjuna, kringum hnöttinn og til tunglsins svona hérumbil, eins og Bertolucci sem sagðist hafa verið til viðræðu um að skjóta mann og annan fyrir Godard og nýbylgjuna hér um árið, ef þörf krefði. Þannig heimsfrelsunarandrúmsloft hefur auðvitað sínar góðu og slæmu hliðar. Plúsinn felst í hinum óhömdu ástríðum sem blásið hafa mönnum í brjóst mörg af ódauðlegum verkum kvikmyndasögunnar. Mínusinn er kannski sá að sjóndeildarhringurinn er þrengri, menn telja sig hafa fundið sannleikann og allt annað eru villukenningar. Krafan um afstöðu og krafan um umburðarlyndi og heilbrigðan efa vega salt. Án þess fyrrnefnda stendur maður í miðjumoði engum til gagns eða gamans, án hins síðarnefnda getur maður anað úti einhverja bölvaða vitleysu sem ekki á erindi við neinn.

Þetta líf!

Hvað á að gera við evrópskar kvikmyndir? Eru þær dæmdar til að vera í einhverjum menningarlegum skammarkrók þar sem enginn lætur sig þær varða? Eru til einhver svör gegn sjónvarpssíbyljunni og einokun Hollywood á kvikmyndahúsum álfunnar? Er verjanlegt að stórum upphæðum af almannafé sé eytt til að búa til bíómyndir sem fáir koma að sjá? Getur evrópsk kvikmyndagerð einhverntíma orðið raunverulegt mótvægi gegn Hollywood? Á að setja kvóta á innflutning bandarískra bíómynda?

Þetta eru spurningar sem kvikmyndafólk um álfuna alla veltir fyrir sér. Að búa til bíó er dýrt sport en stundum líka óþarflega dýrt. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa sannað að hægt er að búa til bíó fyrir peninga sem annarsstaðar dygðu varla fyrir kaffi og meððí, en lítur samt út fyrir að kosta margfalt meira í mörgum tilvikum. Þetta er ágætis stefna og sennilega ein af þeim fáu leiðum sem bjóðast. "Low budget" kvikmyndir þurfa síður en svo að vera minna aðlaðandi en dýrari myndir. Hugtakið er auk þess afar afstætt, "low budget" mynd í Bretlandi þætti stórmynd á íslenskan mælikvarða, "low budget" amerísk mynd eru miklir peningar hjá Bretum. Annars er allur gangur á þessu. Spurningin er líka með hvaða hugarfari myndirnar eru gerðar. Við getum ekki miðað okkur algerlega við Hollywood þar sem krafan er hámarksgróði. Við getum heldur ekki ætlast til þess að stjórnvöld sjái okkur algerlega fyrir fjármagni og engin fjárhagsleg ábyrgð sé á okkar hendi. Meðalvegurinn, bland beggja, er þó vandfarinn líka. Æskilegast væri að kvikmyndagerðarmenn byggðu mest á fjármagni úr einkageiranum. Stjórnvöld geta hjálpað til að gera slíkt fé aðgengilegt með því að ívilna fjárfestum á ýmsan hátt. Þessi leið er þó vörðuð ýmsum gildrum og því gætu beinar fjárveitingar frá hinu opinbera virkað sem nauðsynlegt mótvægi. Allt er þetta spurning um menningarstefnu og framtíðarhugsun, hugtök sem því miður eru sjaldan ofarlega í hugum stjórnmálamanna.

Við getum ekki leyft því að viðgangast að Hollywood einoki kvikmyndahús álfunnar. Hugmyndir um kvóta á amerískar bíómyndir koma upp í sumum löndum af og til, sérstaklega í Frakklandi. Jafnharðan reka ameríkanar upp ramakvein og tala um haftastefnu og brot á frjálsri verslun. En stundum er frelsi eins, helsi annars. Síðastliðið haust lauk Hanif Kureishi, breskur handritshöfundur sem m.a. skrifaði "My Beautiful Laundrette" og "Sammie and Rosie Get Laid", við sína fyrstu bíómynd sem leikstjóri. "London Kills Me" kallast hún og fjallar um dópsala og mannlíf í Notting Hill hverfinu í London. Þegar hann sýndi hana kvikmyndahúsaeigendum kom upp japl, jaml og fuður. "Við höfum ekki áhuga á þessari mynd" sögðu þeir, "hún er bara leiðinleg" sögðu þeir líka "og svo er allt uppbókað" bættu þeir við. Að lokum sættist eitt bóið á að sýna hana vikuna fyrir jólin, þegar ekki nokkur maður kemur í bíó. Þar við sat. Nú hef ég ekki séð þessa mynd en hún fékk enga sérstaka dóma. Hitt er verra, þetta með bókanirnar. Mér er tjáð að bandarísku dreififyrirtækin semji þannig við sína kúnna, kvikmyndahúsin, að þú færð Schwartzenegger eða Harrison Ford ef þú tekur líka slatta af öðrum myndum, sem kannski hala ekki inn sömu risafjárhæðirnar en gera það gott samt. Afleiðingin er sú að bíóið er komið með prógramm langt fram í tímann og ekkert pláss er fyrir neitt annað.

Auðvitað eru innflutningshöft gamaldags og úrelt fyrirbrigði, forsjárhyggja á hæsta stigi. Svarið liggur ekki í boðum og bönnum. Þetta er aftur á móti heilagt stríð. Evrópskir kvikmyndagerðarmenn verða að fá áhorfendur til að koma og sjá myndir sínar. Annars verður evrópsk kvikmyndagerð hægt og hægt að fyrirbrigði sem engan varðar. Hver og ein þarf ekki að vera metsölumynd en fólk þarf að koma og það þarf að vera spennt fyrir því sem kvikmyndagerðarmenn eru að gera. Ég get aðeins nefnt tvö lönd í Evrópu þar sem tekist hefur, á síðustu árum og áratugum, að skapa almenna, en þó tímabundna, spennu fyrir innlendum kvikmyndum. Þessi lönd eru Frakkland – og Ísland. Með nokkrum undantekningum eru t.d. almennar aðsóknartölur á innlendar myndir á Norðurlöndum svipað háar og á Íslandi, og þá er ég ekki að miða við neinar höfðatölur. Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við evrópskri kvikmyndagerð og það hlýtur að vera kvikmyndagerðarmannanna sjálfra að leita orsakanna.

Nokkuð furðuleg umræða hefur átt sér stað uppá Íslandi nú í sumar í kjölfar velgengni kvikmyndarinnar "Veggfóður". Sumir hafa látið að því liggja að hér sé kominn útgangspunktur íslenskrar kvikmyndagerðar, ódýrar, hressilegar myndir um unglingamenningu nútímans. Jafnframt er þjóðin sögð orðin leið á sveitamyndum og myndum byggðum á bókum. Allt er þetta tal náttúrulega þvættingur með endemum og felur aðeins dauðann í sér. Það má líkja þessu við þankaganginn í fiskeldinu og loðdýraræktinni á sínum tíma, þarna lá lausnin og menn frelsuðust unnvörpum beina leið í glötunarmylluna. Myndir um ungt fólk eru náttúrulega hið besta mál sem og viðfangsefni úr borgarlífinu. En kvikmyndirnar eru spegill, þær gefa okkur sýn á hver við erum og um leið og farið er að útiloka einhverja þætti þjóðlífsins hljóta þær að missa slagkraft. Íslenskt þjóðlíf á þessari öld hefur einkennst af togstreitu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Fáar þjóðir hafa gengið í gegnum jafn miklar breytingar á búsetu og öðrum þjóðfélagsháttum á jafn skömmum tíma og við. Afstaðan til þessarar þróunar er enn í dag í brennipunkti og það væri að hopa af hólmi, bregðast skyldu, ef íslenskar kvikmyndir létu sem þeim kæmi þetta ekki við. Hitt er svo annað mál að þungamiðjan hefur óumdeilanlega færst til Reykjavíkur og engin ástæða til þess að borgarbúar þurfi að biðjast afsökunar á að vera til, vera í vörn, eins og kannski var uppá teningnum á fyrri hluta aldarinnar.

Þessi umræða um að ekki sé hægt að búa til kvikmyndir úr bókum, er einnig útí hött. Margar af heimsins bestu kvikmyndum hafa verið byggðar á bókum. Hitt væri nær að beina umræðunni inná hvernig ætti að gera kvikmyndir sem sækja efnivið sinn í aðra miðla. Alltof oft gleymist að búa til kvikmynd úr efniviðnum, því menn telja sig vera að sýna upphafsmiðlinum (gjarnan bók eða leikriti) virðingu með því að taka efnið hrátt upp og láta möguleika myndmiðilsins liggja milli hluta. Friðrik Þór sendi svona aðferðafræði eitraða pillu um árið með mynd sinni "Brennu-Njáls saga" þar sem hann filmaði bókina síðu fyrir síðu og kveikti svo í henni þegar kom að brennunni á Bergþórshvoli. Þessi "flettibókarhugsun" er síður en svo séríslenskt fyrirbrigði, þó vissulega mættum við stundum hugsa okkar gang, í landi þar sem orðsins list hefur ávallt verið sett skör hærra en önnur list. "Að lifa er að velja" segir í auglýsingunni. Til að geta valið þarf þekkingu, til að öðlast þekkingu þarf leit.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s