Horft framan í heiminn

(Skrifað 9.5.2000 fyrir ráðstefnu um barnamenningu sem haldin var í Gerðubergi)

– Hverskonar myndir eiga börnin okkar að horfa á?

Í örsögubók sinni Vor í dal, lýsir Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri sjálfum sér sem drengnum sem kunni ekki að hræðast. Segir hann svo frá:

“Tolli bróðir minn hafði verið á Höfða í mörg sumur áður en ég fór þangað fyrst til dvalar. Það sem honum þótti mest til um í sveitarvistinni voru þær sögur sem Toni, gamli maðurinn í sveitinni, var vanur að segja honum fyrir svefninn. Þegar ég fór fyrst að Höfða hafði ég því afar háar hugmyndir um frásagnir þessar sem hermt var að sendu nístandi hroll niður bak áheyrandans. Strax fyrsta kvöldið hóf Toni að segja mér sögur. Þær voru í þjóðsagnastíl og þótti mér þær helst til bragðdaufar. Ég benti honum á að sögur þessar kæmust ekki í hálfkvisti við það sem ég hafði séð fyrir sunnan í kanasjónvarpinu. Herti þá Toni róðurinn í frásögnunum. Urðu þær sífellt svæsnari og hrikalegri eftir því sem á dvöl mína leið. Gengu þær svo langt að tröllkonurnar sem náðu smaladrengjunum tóku að búa til úr þeim slátur og var matreiðslunni og átinu lýst nákvæmlega. En allt kom fyrir ekki. Ævinlega gat ég bent á viðbjóðslegri atriði af skjánum. Svo fór að lokum að Toni missti þolinmæðina, danglaði í mig með stafnum og hætti að segja mér sögur”.

Mörgum árum síðar vann Friðrik Þór úr þessari bernskuminningu og öðrum í kvikmyndinni Bíódögum, sem í kjarnann fjallar um sköpun nútíma sagnaþuls, kvikmyndaleikstjórans. Þessi saga Friðriks Þórs leggur út af því sem kalla má “kynslóðaskipti” sagnahefðarinnar, að börn nútímans upplifi sögur sínar og ævintýri í gegnum miðil myndarinnar umfram miðil orðanna. Hún veltir jafnframt upp þeirri spurningu hvort myndupplifunin hafi sterkari áhrif á ómótaðar sálir en bóklestur eða það sem mælt er af munni fram. Þó hæpið sé að halda slíku til streitu er engu að síður ljóst að frásögn í myndum felur oft í sér mun afdráttarlausari áreiti til viðtakandans. Um þetta reyna góðir kvikmyndagerðarmenn að vera sér meðvitaðir með því að gefa í skyn frekar en að sýna beint, því oftar en ekki er heillavænlegra að leyfa þeim sem meðtekur sögu í myndum, eða raunar hvaða formi sem er, að nota ímyndunaraflið, túlka áreitin á eigin forsendum og finna merkinguna með sjálfum sér. Í þeim samhljómi við sálu þess sem sér, hlustar eða les hlýtur að vera fólginn kjarni góðrar sagnalistar.

Saga Friðriks Þórs vísar jafnframt til þeirrar gömlu hugmyndar að börn eigi að meðtaka sögur af öllu tagi. Sögurnar sem haldið var að Tona gamla – og hann telur sér skylt að koma áfram til yngri kynslóða – voru krassandi og æsilegar, í þeim var ekki vikist undan því að taka á óhugnanlegum viðfangsefnum sem geta lagst þungt á ungar sálir. Þar koma fyrir rammir draugar, tröll, forynjur, huldufólk og allskyns önnur varasöm kvikindi. Og ekki verður það huggulegra þegar kemur að hetjum Íslendingasagnanna, þar sem svívirðileg morð, limlestingar, svik og prettir spretta af síðunum. Í Gamla testamenti biblíunnar morar sömuleiðis allt í gegndarlausum óskapnaði en ekki minnist ég þess að sá gamli reyfari hafi verið bannaður innan sextán. Allt þótti þetta prýðilegt lesefni handa börnum og unglingum áður fyrr og þykir vonandi enn að einhverju leyti.

Á undanförnum áratugum hafa þessi viðhorf þó verið á undanhaldi, í samræmi við sífellt aukna hólfaskiptingu samfélagsins. Nú á dögum eru sérstakar sögur fyrir börn og unglinga umfangsmikil starfsemi, hvort sem um ræðir bækur, kvikmyndir eða sjónvarpsefni og útgangspunkturinn sá að nálgun slíkra sagna þurfi að vera með viðeigandi hætti. Barnabókafræðingurinn Barbara Wall orðar það svona í bókinni Raddir barnabókanna:

“Það er ekki hvað sagt er heldur hvernig það er sagt og við hvern sem ákvarðar hvort bók er barnabók eða ekki”.

Ekki skal ég mótmæla hinum pedagógísku fræðum að öðru leyti en því að vara við ofurtrúnni á hið jákvæða uppeldishlutverk. Það er ekki endilega hlutverk rithöfunda, kvikmyndahöfunda eða annarra sagnamanna að vera meðvitaðir uppalendur og boða góða siði.

Hinn kunni barnasálfræðingur Bruno Bettelheim fjallar um hið ómetanlega gildi ævintýra fyrir tilfinningaheim barna í bók sinni “The Uses of Enchantment”. Þar segir á einum stað (í lauslegri þýðingu):

“Hin ríkjandi menning kýs að láta sem skuggahliðar mannsins séu ekki fyrir hendi, sérstaklega þegar kemur að börnum…”

“Sú skoðun er útbreidd meðal foreldra að beina þurfi börnum frá því sem leitar mest á þau: hinum formlausa og óræða kvíða og hinum ráðvilltu ímyndunum þeirra sem oft einkennast af reiði og jafnvel ofbeldi. Margir foreldrar telja að börn eigi aðeins að hafa aðgang að hinum meðvitaða veruleika eða bjartri og fallegri sýn á tilveruna. En slík einhliða upplifun nærir aðeins hugann á einhliða máta – og raunveruleikinn er ekki bara bjartur og fagur.”

Þau viðhorf sem Bettelheim talar um lýsa vantrú foreldra á getu barna sinna til að vinna úr þeim áhrifum sem sögur hafa á hugarheim þeirra. Vantrúin byggist á þeim ótta að þau nái ekki að skilja á milli veruleika og ímyndunar, auk þess sem hin djúpstæða þörf okkar fyrir að vernda afkvæmin frá vonsku heimsins spilar inní. Það segir svo sína sögu að ef foreldrarnir myndu rifja upp eigin æsku kæmi í ljós að barnið forðum taldi sig yfirleitt fært í flestan sjó og kallaði ekki allt ömmu sína.

Silja Aðalsteinsdóttir heldur því fram í grein sinni “Bækur og bíó fyrir börn” sem birtist í bókinni “Heimur kvikmyndanna” að

“sögur handa börnum geta sagt frá grimmilegum hlutum, óréttlæti og ósanngirni foreldra, jafnvel ofbeldi og dauða, ef sambandið milli sögumanns og þess sem hann talar við í textanum er náið og einlægt”.

Hún spyr einnig hvort hið sama gildi ekki um bíómyndir fyrir börn.

Ég er ekki viss. Í sjálfu sér er ekkert rangt við að nálgast hlutina svona en á málinu eru fleiri hliðar. Sú nálgun sem Silja talar um verður auðvitað að koma að innan – vera sannfæring þess sem segir söguna. Hinsvegar er ekki hægt að tala um þetta sem einhverskonar sjálfkrafa skyldu. Við þurfum líka að gefa börnum kost á að synda yfir djúpu laugina án sundkútsins, glíma sjálf við bæði innri og ytri vanda án þess að horfa stöðugt yfir öxlina á þeim. Þarna þarf auðvitað að þræða meðalveginn vandrataða en ábyrgð foreldra getur ekki falist í því að vernda börn sín frá öllu illu, heldur frekar að búa þau sem best undir að takast á við tilveruna eins og hún kemur fyrir.

Líkt og gömlu ævintýrin er kvikmyndin fyrst og fremst staðgengill fyrir heim langana okkar og væntinga. Þessar langanir og væntingar eru ekki endilega alltaf göfugar. Kvikmyndinni er skylt að sýna okkur hið innra landslag manneskjunnar, hvernig henni líður og hvað hún gerir til að komast af í tilverunni. Kvikmyndir eiga fyrst og fremst erindi við það sem býr í hjartanu, drauma okkar en einnig martraðir, vonir okkar og ekki síður ótta.

Annað atriði er það sem oft virðist þvælast fyrir mörgum og það er að gera samasem merki milli þess sem maður sér og þess sem er. Okkur hættir jú öllum til að trúa því sem við sjáum. Sérstaklega eru börn talin ofur móttækileg fyrir þessu og því er afar áberandi krafan um að þeim sé sagt satt og rétt frá, bæði í siðferðilegum efnum, en ekki síður þegar kemur að efni sem byggir á sögulegum heimildum. “Kvikmyndin er sannleikur 24 ramma á sekúndu” sagði Godard einhverntímann en þessi ögrandi staðhæfing er ekki öll þar sem hún er séð. Hún er fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis enda hitta lifandir myndir okkur yfirleitt þar fyrir. Þessvegna er krafan um sannsögli í kvikmyndum svolítið annkanaleg. Fyrir þremur árum varpaði forseti Íslands fram þeirri hugmynd að gera kvikmynd um Vínlandsfund íslenskra víkinga í stíl við Disneymyndina Pocahontas. Varð þetta til þess að draga fram þann alltof algenga misskilning inní opinbera umræðu að kvikmyndir og veruleikinn hafi eitthvað með hvort annað að gera. Þannig fundu menn að þeirri hugmynd forsetans að láta Snorra Þorfinnsson gegna hlutverki aðalsöguhetjunnar því hann hafi ekki verið nema nokkurra vetra þegar víkingarnir sneru heim á leið og pössuðu sig á segja engum hvað þeir fundu. Illugi Jökulsson, pistlahöfundur á Rás 2 Útvarpsins, blandaði sér í umræðuna á þessum tíma og benti á að samjöfnuður við Disneymyndina Pocahontas væri vægast sagt óheppilegur því sú mæta kona hafi verið lítil, sköllótt og ófríð en ekki sú fegurðardís sem birtist í samnefndri mynd. Ennfremur hafi John Smith verið hinn versti fantur og illmenni í raunveruleikanum en alls ekki eðalmenni bíómyndarinnar. Mátti skilja á pistlahöfundinum að þessar grófu afbakanir afhjúpuðu blekkingarvef Hollywood og að forða bæri íslenskri menningararfleifð frá vanhelgun í höndum slíkra trúleysingja.

Nú er kvikmyndin Pocahontas ekkert sérstaklega vel heppnuð en ástæðan er ekki skeytingarleysi um "sannleikann", heldur einfaldlega sú að hún er frekar daufleg. Hún er gerð í anda hins pólitíska rétttrúnaðar sem nú er áberandi í hugmyndaheimi Vesturlanda og verður stundum til að gera lítið úr þeim málstað sem barist er fyrir, með kjánalegri upphafningu. Pocahontas er engu að síður ágæt heimild – kannski ekki um landnám Ameríku heldur frekar um ákveðna hugmyndastrauma í okkar samtíma. Fyrir höfundum myndarinnar vakti ekki að segja kórrétt frá atburðum löngu liðinna tíma heldur að skemmta áhorfendum með því að höfða til tilfinninga þeirra. Á nákvæmlega sömu forsendum ber að skoða hina ágætu hugmynd forsetans. Auðveldlega er hægt að sjá fyrir sér gott kvikmyndarefni í leiðangri íslenskra víkinga til Vínlands. En ef mynd þessi ætti að vekja áhuga nokkurs manns yrði hún að sjálfsögðu að lúta dramatískum lögmálum en ekki sagnfræðilegum "staðreyndum". Gildir þá ekki lögmál Ara fróða um að hafa skyldi það sem sannara reynist, heldur frekar hitt – að láta "staðreyndirnar" ekki þvælast fyrir góðri sögu. Megintilgangurinn með gerð svona myndar getur aldrei falist í "landkynningu" eða "sögufræðslu" eins og ýmsir héldu fram í umræðunum sem fram fóru um þessa hugmynd, heldur aðeins í skemmtilegri og spennandi frásögn sem á erindi við fólk vegna þeirra eiginleika sinna.

Þetta með muninn á hinum rituðu heimildum og Hollywoodmyndinni er sjálfsagt hárrétt hjá Illuga Jökulssyni, en samanburður hans var einfaldlega útí hött og kom málinu alls ekkert við. Í orðum hans felst nefnilega sú þreytulega forsjárhyggja að kvikmyndir eigi að gegna einhverskonar sagnfræðilegu og mórölsku uppeldishlutverki gagnvart börnum og fákunnandi. Þetta er því miður landlæg plága hér sem víðar. Af sama meiði er hið lífseiga nöldur um tengsl milli ofbeldis í kvikmyndum og aukinnar ofbeldistíðni hjá börnum og unglingum. Afturhaldssinnaðir stjórnmálamenn og svipað þenkjandi álitsgjafar hafa spilað þá slitnu plötu lengi, gjarnan til að forðast að tala um það sem máli skiptir, þ.e. ábyrgð þeirra sjálfra og uppalenda. Kvikmyndir eru þeim stundum hentugur blóraböggull, nokkurskonar tálbeita til að draga athygli almennings frá hinum raunverulegu orsökum.

Þessi viðhorf, um tengsl ofbeldis og ofbeldismynda, krauma stöðugt undir niðri og blossa upp með reglulegu millibili. Nú síðast fyrir um ári síðan, í kjölfar voðaverkanna í smábænum Littleton í Colorado þar sem tveir piltar myrtu fjölda skólasystkina sinna. Beindu þá margir fjölmiðlar, stjórnmálamenn og aðrir álitsgjafar ásökunarfingri að ofbeldiskvikmyndum og gáfu í skyn að þær hafi verið undirrótin að hinum hrottalega verknaði. Jafnvel Clinton Bandaríkjaforseti slóst í þennan hóp vandlætara þegar hann hélt því fram að auk þess að merkja þyrfti hverja myndbandsspólu við hæfi að utanverðu, skipti innihald myndbandsins miklu máli sem og þau áhrif sem það hefur á innviði barna okkar. Forsetinn var vissulega að vísa til þeirrar ábyrgðar sem kvikmyndagerðarmenn bera gagnvart samfélagi sínu, en um leið virtist hann velta upp þeim möguleika að beint samhengi gæti verið milli áhorfs og hegðunar, að óþroskuð börn og ungmenni túlki ofbeldisverk á tjaldi og skjá sem hvatningu til að gera slíkt hið sama.

Kvikmyndin “Basketball Diaries” með Leonardo Di Caprio frá árinu 1995 dróst inní þessa umræðu vegna atriðis sem í henni er að finna, þar sem Di Caprio slátrar skólafélögum sínum í draumi. Aðstandendur myndarinnar eiga einnig í málaferlum við fjölskyldur þriggja ungmenna sem myrt voru af 14 ára pilti í Kentucky árið 1997. Fjölskyldurnar halda því fram að myndin hafi orðið piltinum innblástur til morðanna.

Þegar hinn tæplega þriggja ára gamli James Bulger var myrtur af tveimur strákum í Bretlandi árið 1993 var mikið gert úr því að strákarnir hefðu sótt sitt andlega fóður í hryllingsmyndir á borð við Child’s Play seríuna þar sem sála raðmorðingja flyst yfir í saklausa drengjabrúðu og tekur uppá óskunda. Fljótlega hurfu þessar myndir úr hillum myndbandaleiga og í Bretlandi verða þær um langan aldur tengdar órjúfanlega við hið hryllilega morð.

Þegar harmleikir á borð við fyrrnefnda eiga sér stað spyr fólk sig fyrst af öllu; hversvegna? Og fjölmiðlar telja það auðvitað hlutverk sitt að veita einhver svör, helst skjótt og örugglega. Ofbeldiskvikmyndir eru auðveldur skotspónn. Oft virðast fréttaskýrendur og álitsgjafar leyfa sér að halda að þær verði til í tómarúmi; einhverskonar uppfinning óvandaðra manna til að innprenta æskulýðnum vonda siði og græða á öllu saman. Þó að eitthvað sannleikskorn megi í því finna á köflum og vissulega geti kvikmyndagerðarmenn ekki skorast undan sinni ábyrgð, eru hlutirnir því miður ekki svona einfaldir. Þessar myndir eru skilgetið afsprengi þeirrar menningar sem getur þær af sér. Það verður nefnilega ekki undan því vikist að horfast í augu við þá staðreynd að þær svala þörfum fjöldans sem fer að sjá þær, það er eitthvað í þeim sem á samhljóm djúpt í sálum svo margra okkar.

Sé þetta tekið með í reikninginn neyðist fólk til að horfast í augu við eigið upplegg, sem er auðvitað frekar óþægilegt. Það er svo miklu þægilegra að finna blóraböggul. Flest viljum við forðast að horfast í augu við eigið djúp því þá um leið horfist djúpið í augu við þig. En þegar betur er að gáð er þá ekki þar í rauninni ýmislegt að finna sem illa samræmist almennum boðorðum um guðsótta og góða siði?

Við verðum að kannast við þessa þætti í fari okkar allra, líka barnanna okkar, líkt og Bruno Bettelheim bendir á. Í kvikmyndunum, sem í öðrum frásagnarformum, finnum við farveg fyrir hinar margvíslegu og mótsagnakenndu tilfinningar okkar. Eða snýst ekki tilveran um leit og val? Því hljótum við að vilja rækta með börnum okkar þann hæfileika að kunna að leita, velja og hafna – og sem mest á eigin forsendum.

En kannski, ég segi bara kannski, hafa siðapostularnir rétt fyrir sér. Vegna hinnar afdráttarlausu náttúru miðilsins hættir okkur svo oft til að taka hann “bókstaflega”. Fyrir nokkrum árum var ég einmitt viðstaddur sýningu á fyrrnefnri kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, Bíódagar, í kvikmyndahúsi hér í bæ. Um myndina miðja er atriði þar sem ungir bíógestir horfa á Roy Rogers á bíótjaldinu. Upptökur þessa atriðis fóru fram í Gamla bíói. Þetta fór fyrir brjóstið á miðaldra bíógesti sem sat fyrir aftan mig og fussaði: Iss, Roy Rogers var aldrei sýndur í Gamla bíói, hann var alltaf í Austurbæjarbíói!

Hvað á maður að gera við svona fólk?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s