Uppgjör ársins 1999

(Skrifað 30.12.1999 fyrir áramótauppgjör DV.)

Kvikmyndaárið 1999 var nokkuð yfir meðallagi, með tveimur góðum kvikmyndahátíðum, landnámi dogma-stefnunnar og ýmiskonar uppákomum frá Hollywood verksmiðjunni sem bæði byggðu upp eftirvæntingu og komu (í sumum tilvikum) skemmtilega á óvart.

Tvær kvikmyndahátíðir
Fyrri kvikmyndahátíðin sem haldin var í janúar (og tilheyrði í raun árinu 1998) færði okkur meðal annars fyrstu dogma myndirnar. Líkt og annarsstaðar urðu þær tilefni mikilla vangaveltna og skoðanaskipta, ekki aðeins innan þröngs hóps kvikmyndaáhugamanna og kvikmyndagerðarmanna heldur tókst þeim að fanga athygli almennings sem skildi konseptið og tók því fagnandi.

Sú seinni, haldin um mánaðamótin ágúst-september, sýndi áþreifanlega fram á að til er markaður fyrir annarskonar myndir en þær sem Hollywood býður okkur uppá, enda var hún sú mest sótta frá upphafi með um 25.000 selda miða. Nú er lag fyrir aðila í kvikmyndahúsarekstri að útbúa kvikmyndahús sem hefur það að markmiði sínu að bjóða Íslendingum uppá annan valkost, með sýningum á annarra þjóða myndum sem og valdri klassík.

Biðin eftir meisturunum
Annars einkenndist árið nokkuð af eftirvæntingu, því auk dogma-myndanna sem margir voru forvitnir um, sýndu þrír gamlir hundar nýjar myndir sínar eftir langt hlé. Terrence Malick var fyrstur á vormánuðum með The Thin Red Line, sína fyrstu mynd í um tuttugu ár. Þessi J.D. Salinger kvikmyndanna sýndi okkur að hann hefur engu gleymt þó óneitanlega læðist að manni sú hugsun að þessi mynd tilheyri öðrum tíma og öðrum stað.

Fjórða Stjörnustríðsmynd George Lucas, en sú fyrsta í heildarröðinni, kom til Íslands í ágúst með misjafnar viðtökur í farteskinu. Myndin var vissulega nokkuð daufleg hvað varðaði atburðarás en myndheimurinn var heillandi og blæbrigðaríkur. Hér verður spurt að leikslokum. Í september kom lokaverk Stanley Kubricks, Eyes Wide Shut, fyrir augu bíógesta. Þetta var draumleikur með mögnuðu andrúmslofti en einkennilega gamaldags hugsun, hér var meistarinn nokkuð frá sínu besta en margar senurnar standa enn ljóslifandi í minningunni.

Nýjir straumar og gamlir
Það er athyglisvert og kannski tímanna tákn að fjölmiðlar gerðu sér sérstakt far um að rífa niður þá mysteríu sem vissulega fylgdi komu þessara mynda, bæði með gífurlegum lúðrablæstri fyrir sýningu þeirra og oft óvæginni krítik eftir frumsýningu. Vissulega veltir maður vöngum yfir þessu offramboði á upplýsingum, skoðunum og slúðri sem svo alltof oft rænir bíógesti um þá ánægju að uppgötva kvikmyndir á eigin forsendum í stað þess að fara í bíó troðfullur af þvargi úr fjölmiðlum. Kvikmyndahátíðirnar eru reyndar góður vettvangur til slíkrar iðju, þar leynast oft ýmsar perlur sem ná stundum að brjótast út til breiðari fjölda í gegnum gott orðspor. Gott dæmi um þetta er hrollvekjan The Blair Witch Project sem sýnd var á Sundance hátíðinni í janúar síðastliðnum. Lítið og “óháð” kompaní, Artisan, keypti dreifingarréttinn að myndinni og tókst með hugvitssamlegri markaðssetningu að gera hana að einni stærstu mynd ársins. Ótrúlegt afrek, sé tekið tillit til þess að myndin kostaði sama og ekki neitt og býður uppá sáralítið annað en ráðvillt ungmenni hlaupandi um í skógi og óljósa ógn sem vofir yfir. Að auki er þessi mynd, auk fyrstu dogma myndanna og ýmissa annarra, fyrirheit um breytta tíma í kvikmyndagerð. Koma þar helst til hin stafræna tækni sem er að gera alla tæknilega vinnslu mun auðveldari og ódýrari, sem og tilkoma netsins en líklegt verður að teljast að það fyrirbæri muni hafa mikil áhrif á dreifingu myndefnis í framtíðinni. Vonandi leiðir það til þess að aðgangur að “öðruvísi” kvikmyndum verður auðveldari en hinsvegar skulum við ekki vera of fljót að afskrifa veldi hinna amerísku kvikmyndarisa.

Hollywood sýndi til dæmis áþreifanlega frammá að hin gamla og góða frásagnaraðferð lifir enn góðu lífi með mynd sem kom flestum í opna skjöldu; The Sixth Sense með Bruce Willis. Þetta var unaðsleg og göldrótt mynd, gerð af ungum sagnameistara sem kann þá kúnst að gefa í skyn frekar en að sýna of mikið.

Bandaríski “independent” geirinn var líka frísklegur þetta árið með mörgum afbragðs myndum. Ber þar kannski hæst hinn efnilega Todd Solondz sem átti tvær sérlega vel heppnaðar myndir í hérlendum bíóum á árinu, Welcome to the Dollhouse og Happiness, en sú síðarnefnda hlýtur að teljast með bestu myndum áratugarins. Rushmore, Election, Eve’s Bayou, Pleasantville og Arlington Road eru einnig verðugir fulltrúar þessa geira sem eiginlega er varla hægt að kenna við jaðar lengur, heldur gegnir hann því hlutverki að vera vettvangur fyrir þá sem vilja feta ögn fáfarnari slóðir. Kvikmyndaverin framleiddu svona myndir á árum áður en einbeita sér nú meira að stórum fallbyssum þar sem púðrið er alltof oft blautt.

Annarra þjóða myndir
Dogmastefnan, þessi sérkennilega blanda hreintrúarstefnu og póstmódernískrar gamansemi, fer nú eins og logi um heimsbyggðina. Ef marka má þær viðtökur sem nýjustu myndirnar eru að fá virðist sem hún sé nokkuð að útvatnast. Þó skildi maður ætla að “skírlífisheitið” þeirra Dogma bræðra nái að síast inní kvikmyndir sem ekki eru endilega gerðar undir þessum formerkjum.

Bretar halda merki sínu uppi, mikið er framleitt af myndum en alltof margar sjást aldrei í bíó. Uppgötvun ársins þar í landi er tvímælalaust Lynne Ramsay og mynd hennar Ratcatcher sem sýnd var á seinni kvikmyndahátíðinni, ljóðræn, skítug og sár. Smellur ársins er hinn sprellfjöruga Lock, Stock and Two Smoking Barrels eftir Guy Ritchie þar sem hann valsar um kvikmyndasöguna og fær margt lánað en tekst engu að síður að skapa ljómandi skemmtilegt og ósvífið verk. Búningamyndirnar, sá þreytti bálkur, gekk í nokkra endurnýjun lífdaga með hinni laufléttu og smellnu Shakespeare in Love og hinni hörkulegu og ábúðarmiklu Elisabeth. Einnig kom hressilegt sprellidrama frá N-Írlandi, Divorcing Jack með David Thewlis, sem birti okkur afar háðslega sýn á tragedíuna þar um slóðir.

Almodovar kom sá og sigraði á árinu með hinu dásamlega melódrama Allt um móður mína, sem einhvernveginn var allt sem evrópskar myndir eiga að vera. Í Frakklandi gerði íslensk/franski leikstjórinn Sólveig Anspach krabbameinsdramað Hertu upp hugann, vel gerða og næmlega unna mynd sem gengið hefur vel þar í landi, hún var einnig til sýnis á seinni kvikmyndahátíðinni en hversvegna sýningum var ekki haldið áfram skil ég ekki. Hinn brasilíski Walter Salles átti og sérlega sterka nýraunsæismynd, Aðalstöðina, sem einnig var sýnd á sömu hátíð. Óvægið raunsæið réði einnig ríkjum í mynd Svíans Lukas Moodyson, Fucking Åmål, sem kom til dyranna eins og unglingar eru klæddir.

Allar fregnir af andláti kvikmyndarinnar undir aldarlok eru stórlega ýktar. Miðillinn er enn í fullu fjöri með sínum átökum, togstreitu, tilraunum og hefðbundinni fabrikkuframleiðslu í öllum heimshornum. Sú bandaríska er hvað öflugust og mun áfram hafa kverkatak á dreifingu kvikmynda, en evrópski iðnaðurinn er langt í frá dauður úr öllum æðum. Látið því ekki miðaldra bölsýnismenn draga úr ykkur móðinn, þeir eru fyrst og fremst að gráta meistara síns tíma sem flestir eru fallnir frá og um leið að barma sér yfir glataðri æsku. Hin nýja öld mun færa ýmsar spennandi nýjungar á sviði myndmiðla uppá yfirborðið, hluti eins og gagnvirkar myndir, sjálfstæða uppröðun dagskrár í sjónvarpi, dreifingu smárra og ódýrra mynda um netið og fleira. Eftir sem áður stendur kvikmyndin, hin afmarkaða frásögn með upphafi, miðju og endi – en eins og Godard sagði einhverntímann – ekki endilega í þessari röð.

ÁNÆGJULEGUSTU MYNDIR ÁRSINS:
(í stafrófsröð)

Allt um móður mína
Almodovar hefur alltaf verið skemmtilegur furðufugl og myndirnar hans fullar af ærslum, fjölskrúðugu persónugalleríi og æpandi litum. Allt þetta er hér en þó þykist maður kenna þess að hann sé að setja alvöruþrungnari botn í gamanleikinn. Það virðist ganga upp því að þetta er afbragðs skemmtun og þakklát mynd fyrir okkur sem lifum á alltof einhæfu bíófæði.

Central Station
Sérlega nosturslega unnin mynd í neorealískum anda um gamla og bitra konu sem verður að fylgja ungum dreng yfir hálfa Brasilíu til að finna fjölskyldu hans. Þrátt fyrir að pyttir sykursætrar væmni sætu um ferðalag þeirra tókst leikstjóranum með stillingu og nákvæmni að forðast þá alla en skila okkur engu að síður mögnuðum tilfinningum biturleika, fyrirgefningar, þrautseigju og endurlausnar.

Elisabeth
Í stað þess að fara þá hefbundnu leið að láta breska úrvalsleikara úr leikhúsunum stíga niður af himnum til okkar lágstéttanna svo við fáum kropið í bljúgri þökk, gerir leikstjórinn Kapur úr þessu expressioníska kvikmynd þar sem skuggarnir eru langir, salirnir bergmála og andi launráða svífur yfir.

Eve's Bayou
Ofin af einstöku innsæi og öryggi höfundar sem kann þá list að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín sem og eiginleikum miðilsins. Þetta er mynd þar sem fortíð, nútíð og framtíð renna saman í unaðslega heild, kynngimagnaður seiður sem á eftir að sitja í þér og leita á þig.

Festen
Brakandi snilld, geislar af orku og einhverskonar guðlegri forsjón. Við erum á staðnum og tökum þátt, meira er vart hægt að fara fram á gagnvart nokkru listaverki. Sagan sjálf er kannski ekki nein nýjung, þetta er tiltölulega hefðbundið fjölskylduuppgjör með melódramatísku yfirbragði. Galdurinn liggur hinsvegar í sviðsetningunni, einbeittum leik, notkun tökuvélarinnar og klippingunni. Útkoman er vítamínssprauta fyrir sálartetrið.

The General
Boorman er einn af sönnum rómantíkerum hvíta tjaldsins og eftir alllanga eyðimerkurgöngu dúkkar hann upp á ný með ferska og spræka mynd af hinum sjarmerandi bófaforingja Martin Cahill sem ríkti yfir Dublin níunda áratugarins.
Yfirbragð hennar er gamansamt en harðsoðið og maður er kannski ekki viss um siðferðislega afstöðu Boormans til Cahills, en hitt er ljóst að hjarta Boormans slær 24 ramma á sekúndu.

Happiness
Leikstjórinn Solondz hefur komið sér fyrir á einhverskonar skuggalendum mitt á milli harmleiks og kaldhæðni. Þaðan sendir hann frá sér skýrslur um hið mannlega ástand, sögur um alltof venjulegt fólk með ofur kunnuglegar vonir og þrár um gagnkvæma ástúð og umhyggju sem því miður fást líklega aldrei uppfylltar. Þetta kann að hljóma sérlega óaðlaðandi en upplifunin er engu að síður sterk vegna hinnar tilfinningalegu hreinskilni.

Rushmore
Rushmore fellur í flokk ágætra mynda, maður er ágætari á eftir því þetta er mynd sem býr klisjunum ferskan búning og gætir þess jafnan að feta aðra stígu en þá sem flestar aðrar troða. Yfir myndinni er frísklegur blær og velkominn þegar svo margar myndir frá Ameríku sem fjalla um unglingsárin gera lítið annað en að nema lyginnar land undir yfirskini skemmtunar.

The Sixth Sense
Sjaldgæf tegund Hollywood kvikmyndar; greindarleg, blæbrigðarík og full af göldrum, en fellur um leið inní hefðir hins yfirnáttúrlega þrillers. Þetta er saga þar sem samlíðan og leit að endurlausn er teflt gegn ótta og eftirsjá svo úr verður tregablandin ástar- og þroskasaga. Allt er þetta sett fram í búningi ógnþrunginnar spennu og úr verður firnasterk blanda sem heldur manni á sætisbríkinni allt til enda.

A Simple Plan
Sagnagaldur sem hittir beint í mark á áreynslulausan og einfaldan hátt. Það er auðvelt að setja sig í spor persóna þessarar myndar og ganga þannig inní þær mórölsku spurningar sem þær glíma við. Styrkur myndarinnar felst ekki hvað síst í því að hún hvikar ekki hársbreidd frá því að sýna okkur afleiðingarnar af gjörðum þeirra og hvernig hver sem er, óháð gildismati og innræti, getur fengið sig til að vinna voðaverk sé til þess stund og staður.

LEIÐINLEGUSTU MYNDIR ÁRSINS:
(í stafrófsröð)

8mm
Þegar upp er staðið eins og sauður í úlfsgæru, jafn kjánalega og það hljómar; mynd sem á endanum reynist ansi miklu meinleysislegri en hún vill í upphafi vera láta. Í myndum af þessu tagi er einfaldlega ekki nóg að vera bara spenntur, maður vill vera hræddur, alveg skíthræddur. Þeirri tilfinningu fann maður aldrei fyrir.

Forces of Nature
Fellibylurinn sem kemur lítillega við sögu í lok þessarar myndar virðist áður hafa átt leið um hugi allra aðstandenda hennar því satt að segja stendur ekki steinn yfir steini. Þetta er ein af þessum innilegu óþörfu myndum sem Hollywood sendir stundum frá sér, eins og til að fylla uppí einhvern kvóta eða skaffa stjörnunum eitthvað að gera. Hversvegna einhverju viti bornu fólki dettur í hug að bjóða áhorfendum uppá þetta rusl er ofar mínum skilningi.

Outside Providence
Svo illa gerð og kjánaleg er þessi mynd að maður spyr sjálfan sig í forundran hversvegna í ósköpunum tókst henni að verða til yfirleitt? Svarið hlýtur að liggja hjá framleiðendunum og handritshöfundunum; Farrelly bræðrum, sem notið hafa mikillar velgengni með óforskömmuðum försum sínum, Dumb and Dumber og There’s Something About Mary. Þetta hefur hinsvegar allt verið gert svo alltof oft áður og stundum miklu betur, svo alvarlegt dómgreindarleysi hlýtur að hafa hrjáð hina skondnu bræður.

Universal Soldier – The Return
Jean-Claude Van Damme er einhver misheppnaði hasarleikari kvikmyndasögunnar, en á örsjaldan smáspretti, t.d. var fyrri myndin alveg slarkfær ef ég man rétt og Timecop var ágætur hasar enda viðurkenni ég veikleika minn fyrir tímaferðalagsmyndum. En það var engin þörf á þessari endurkomu. Mig minnir að bíóið auglýsti að biðin væri á enda en spurningin er; var einhver að bíða?

Wild Wild West
Hér hefði betur verið heima setið en af stað farið. Þetta er ein af þessum algerlega sjarmalausu stórmyndum sem við sjáum stundum frá Hollywood þar sem svo miklum peningum er eytt í tæknibrellur og stjörnulaun að menn segja við sjálfa sig að þetta hljóti að verða algjör snilld, svo framarlega sem handritið sé sett saman eftir einhverju grafi undir stjórn markaðsfræðinga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s