Truffaut og Ameríska nóttin

Úr Amerísku nóttinni: Truffaut sem leikstjórinn Ferrand í leðurjakkanum.
Úr Amerísku nóttinni: Truffaut sem leikstjórinn Ferrand í leðurjakkanum.

(Upphaflega flutt sem erindi á ráðstefnu um Francois Truffaut 7.4.2002, sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu í tengslum við litla yfirlitssýningu á verkum hans.)

Franski kenningasmiðurinn Andre Bazin, sem var lærimeistari og velgjörðarmaður Truffauts í upphafi ferils hans, sagði eitt sinn að “kvikmyndin [væri] staðgengill fyrir heim langana okkar og væntinga”. Þessi staðhæfing er undirstrikuð með mjög athyglisverðum hætti í Amerísku nóttinni, La Nuit Americaine, lofgjörð Truffauts til kvikmyndarinnar.

Myndin fjallar um leikstjórann Ferrand, leikinn af Truffaut sjálfum, og samstarfsfólk hans við tökur myndarinnar “Hér kemur Pamela”. Upptökur fara fram í hinu sögufræga Victorine myndveri í Nice, þar sem MGM lét m.a. filma margar þöglar myndir í þriðja áratugnum. Þetta virðist dæmigert lítilsiglt melódrama og fjallar um Alphonse, ungan mann sem kynnir enska brúði sína fyrir foreldrum sínum. Hin glæsilega brúður fellur umsvifalaust fyrir tengdaföður sínum en ástarævintýrið endar með ósköpum eins og hefð þessarar tegundar mynda býður. Söguþráðurinn hljómar grunsamlega líkur mynd Lois Malle, Damage, sem gerð var mörgum árum síðar – og ef ég man rétt hefði hann alveg mátt sleppa því að gera hana.

Dagur fyrir nótt
Dagur fyrir nótt

En þessi mynd sem þarna er verið að gera virðist semsagt ekki ýkja merkileg. Allt er það þó með ráðum gert. Fyrir kvikmyndagerðarfólkinu er útkoman ekki aðalatriðið heldur vinnan sjálf –að vera niðursokkin í þennan heim og vita ekki af veröldinni þarna úti. “Er kvikmyndin mikilvægari en lífið sjálft?” spurði Truffaut eitt sinn. Í Amerísku nóttinni leitar hann svara við þeirri spurningu. Að því leyti má ef til vill telja Amerísku nóttina ákveðinn lykil að höfundarverki Truffauts. Hún ber ekki aðeins öll helstu einkenni verka hans, áreynslulausa frásögn með húmanískri sýn í bland við sætbeiska örvæntingu, heldur beinir hann hér sjónum að því sem var honum kærast; kvikmyndagerðarmanninum við iðju sína.

Heiti myndarinnar, sem á ensku er kölluð Day for Night, vísar í þá tæknilegu aðferð að filma næturtökur að degi til með filterum sem setja sérstakan bláma á myndina. Í Amerísku nóttinni fylgjumst við með ástarævintýrum byrja og enda, fólki loka sig af inní herbergjum og ketti neita að lepja mjólk eftir skipun svo eitthvað sé nefnt. Við fáum líka að sjá atvinnuleyndarmál eins og hvernig snjór er búinn til að sumarlagi og hvernig svalir á þriðju hæð þurfa ekki byggingu fyrir neðan til að haldast uppi. Með öðrum orðum, hér snýst allt um vísvitandi blekkingu og hér er mynd sem hreykir sér af því að sýna okkur hvernig blekkingin fer fram þó að samkenndin sé öll með hópnum sem gerir myndina. Persóna Truffauts segir á einum stað í myndinni að fólk í kvikmyndabransanum geti aðeins verið ánægt með lífið þegar það er við störf. Þessvegna sé það haldið slíkri þráhyggju gagnvart sköpunarferlinu, jafn fánýtt og það geti stundum virkað og þessvegna endar það með að sofa hvert hjá öðru án þess að gera of mikið mál úr því, í stað þess að leita tengsla utan þessa þrönga hrings. Og síðar í myndinni, þegar í ljós kemur að skriftan hefur hlaupist á brott með áhættuleikaranum í miðjum tökum, bætir aðstoðarkona leikstjórans við: “Ég hef hætt með strák vegna myndar, en ég myndi aldrei hætta við mynd vegna stráks”. Þetta fólk kann vissulega að gera greinarmun á ímyndun og raunveruleika en þau kjósa ávallt heim kvikmyndagerðarinnar í stað veruleikans utan hans, ekki síst vegna þess að fyrrnefndi heimurinn gerir þau hamingjusamari.

Ameríska nóttin
Ameríska nóttin

Í auga óreiðunnar situr Truffaut sjálfur í hlutverki Ferrand og leiðir okkur í gegnum söguna í “voice-overi”, vandmeðfarinni aðferð sem oft misheppnast, en fáir hafa beitt betur en einmitt Truffaut sjálfur. Á einum stað segir hann: “Að skjóta kvikmynd er eins og að ferðast í hestvagni. Í fyrstu vonast maður eftir þægilegri ferð. Síðar vonast maður aðeins eftir því að ná á leiðarenda”. Engu að síður hoppaði hann uppí hestvagninn aftur og aftur. 22 myndir á 24 árum tala sínu máli. Hversvegna? Ég held vegna þess að hann kunni hvergi betur við sig en á tökustað. Þeirri tilfinningu kemur hann meistaralega til skila í Amerísku nóttinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s