Man of Aran

(14.03.2003 – upphaflega skrifað fyrir vef Deus Ex Cinema).

Þessi víðfræga og íkoníska heimildarmynd Bandaríkjamannsins Robert J. Flaherty er tekin upp á eyjunni Inishmore, sem er hluti af Aran-eyjum undan vesturströnd Írlands. Myndin lýsir harðri lífsbaráttu eyjaskeggja sem á hverjum degi slást við náttúruöfl lands og láðs til að komast af á þessari harðbýlu eyju.

Flaherty sagði einhverntíma að kvikmyndagerð væri útilokun hins ónauðsynlega. Þessi ummæli er vert að hafa í huga þegar verk hans eru vegin og metin. Hann hefur verið kallaður faðir heimildarmyndarinnar og vissulega var hann einna fyrstur til að byggja myndir sínar á raunverulegu fólki. En upphafsmaður heimildarmyndarinnar í nútímaskilningi er Skotinn John Grierson sem lagði mesta áherslu á hið félagslega og menntunarlega hlutverk slíkra mynda. Myndir Flahertys snúast hinsvegar um manninn í sköpunarverkinu og eru oftast einhverskonar hylling á viðfangsefninu. Áherslur Flahertys eru ekki á samtíðinni heldur miklu frekar eilífðinni. Fyrir þetta hefur hann auðvitað verið óspart skammaður.

Man of Aran er sviðsett mynd að öllu leyti, fólk á eyjunni var ráðið í sín hlutverk og myndin var í raun unnin samkvæmt forskrift leikinna mynda. Þungamiðja myndarinnar, veiðar á risavöxnum hákarli, hafði t.d. verið aflagður siður á eyjunni í tæpa öld. Í gamla daga þurfti fólkið á Aran eyjum á lýsinu úr hákörlum að halda sem ljósmeti, en rafmagn var löngu komið til eyjanna þegar Flaherty gerði myndina. Hann lét hinsvegar “leikarana” læra sérstaklega hin gömlu vinnubrögð. Þessi rómantíska sýn hans á líf fólksins á eyjunni var síðan kynnt sem svipmynd af nútímalífi eyjaskeggja þegar myndin fór í kvikmyndahúsin. Það hleypti illu blóði í marga Íra, sem nýverið höfðu losnað frá aldalangri nýlendukúgun og því afar viðkvæmir fyrir hverskonar afbökun á brothættri sjálfsmynd í mótun.

Áherslur Flahertys snerust um hina hetjulegu baráttu mannsins við náttúruöflin. Áhugi hans á hinum félagslegu aðstæðum fólksins var afar takmarkaður. Fyrir þetta hlaut myndin einnig gagnrýni þeirra sem söknuðu umfjöllunar um ástæður fátæktar eyjabúa. Myndin hlaut góða aðsókn þrátt fyrir harða gagnrýni og vann til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 1935.

Flaherty svaraði gagnrýninni með því að segjast hafa “myndað það sem myndavélin vildi sjá”. Eftir því sem frá líður öðlast staðreyndirnar um lífið á Aran-eyjum á fjórða áratugnum sífellt minna vægi en kjarni myndarinnar stendur ávallt fyrir sínu. Myndin er trú bæði fólkinu og staðnum. Með því að sýna styrk og þrautseigju eyjaskeggja undirstrikar hún hin lífseigu gildi sem þeir hefðu aldrei komist af án. Vitneskjan um hvunndagslegar staðreyndir lífs á Aran eyjum ná engan veginn að koma í veg fyrir að sýnir þessarar myndar lifi í huganum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s