Elliskrekkur, Kubrick og Kieslowski

(27.11.2001: Egill Helgason hafði eitthvað verið að tjá sig um hnignun kvikmynda, Kubrick og Kieslowski á vef sínum. Af einhverjum ástæðum fann ég þörf til að leggja orð í belg.)

Kæri Egill,

Það er alltaf gaman að lesa ástríðufulla penna eins og þig og alveg sérstaklega þegar umræðuefnið eru kvikmyndir. Þó að þú finnir þeim flest til foráttu þessa dagana og kallir fyrirbrigðið dautt listform, dettur mér ekki í hug að taka þig bókstaflega. Í versta falli var þetta einhverskonar elli-skrekkur. Það er nefnilega frekar gamaldags heimsendafnykur af þessum skrifum, þú syrgir ástand sem er liðið og kemur ekki aftur. Það þýðir ekki að komið sé að endalokunum. Líkþráin (nostalgían) hefur farið illa með margan góðan manninn, en sú afstaða leiðir okkur aðeins inn í blindgötu brostinna vona. Kvikmyndirnar hafa alltaf verið skammaðar af strangtrúarfólki og siðavöndum menningarpostulum vegna þess að þær eru áhrifamikið listform sem jafnframt selur sig í ræsinu. Svona hefur það verið og svona mun það vera áfram. Hinsvegar ætla ég ekki að dvelja við þetta, sá enda að Haukur Már Helgason hafði sent þér orð í eyra. Hinsvegar tók ég líka eftir því að þú hafðir dregið upp eldri skrif þín um Kubrick og Kieslowski og birt á vefnum, væntanlega í tilefni nýafstaðinnar kvikmyndahátíðar. Fannst ég verða að bregðast við enda alls ósammála þér varðandi þann fyrrnefnda (megnið af þessum texta birtist í fylgiriti DV vegna Kvikmyndahátíðar 1999).

Kubrick var umdeildur kvikmyndahöfundur, sumir töldu hann tilgerðarlegan, smásmugulegan og kaldlyndan meðan aðrir dásömuðu hina sterku myndrænu sýn hans, einbeitni og miskunnarlausa krufningu á vondri veröld. Allt má þetta til sanns vegar færa. Það er auðvelt að láta suma kaflana í 2001 fara í taugarnar á sér ef maður horfir á myndina óvímaður, líkt og merkingarleysið æpi á mann. Hinsvegar birtast þar á köflum svo íðilfögur myndskeið og annarsheims að maður ölvast og sér fram á að þurfa að skilja bílinn eftir einhversstaðar. Og viðbjóðurinn sem hann heldur að okkur í A Clockwork Orange er jafn andstyggilegur og hann er einkennilega aðlaðandi; í lokin stendur maður sjálfan sig að því að samfagna óþokkanum Alex þegar í ljós kemur að kerfiskörlunum hefur ekki tekist að murrka úr honum ónáttúruna. Svo veit maður vart hvort skal hlæja eða gráta þegar samsafn einstakra en samt alltof kunnuglegra vitleysinga, allt frá afdönkuðum forsetum, veruleikafirrtum hershöfðingjum og brjáluðum vísindamönnum niður í þvermóðskufulla dáta og húrrandi kúreka með kjarnorkusprengjur og flugmannspróf, sprengir hnöttinn aftur á steinöld með röð hnitmiðaðra mistaka í Dr. Strangelove. Myndir hans vekja ávallt sterk viðbrögð, knýja á um afstöðu sem segir manni ýmislegt um eigin innviði sem maður kærði sig jafnvel ekkert um að vita. Þegar best lætur spegla myndir hans skuggahliðar okkar, lýsa upp þessa afkima í sálarkirnunni sem þola ekki ljós og tekst þannig að gera okkur órótt. Þetta er oft erfitt að meðtaka því hann reynir aldrei að strá sætuefni yfir með því að veita okkur einhverskonar huggun eða von.

Kubrick var oft kallaður bölsýnismaður og sakaður um að hafa litla trú á mannskepnunni. Slíkt er of þægileg einföldun. Hann er afsprengi guðlausra tíma sem í ákveðnum skilningi einkennast af kaldri tæknihyggju og ofurtrú á vísindi; semsagt hann er sendiboði válegra tíðinda. Og slíkum mönnum er oft erfitt að fyrirgefa. Í grein þinni ferð þú háðulegum orðum um Kubrick og kallar hann meðal annars "æðstaprest sálarlausrar tæknidýrkunar". Þetta er misskilningur. Í þeim felst að Kubrick hafi stundað trúboð, jafnvel verið móralisti. Slíkt er fjarri öllu lagi. Hvergi í myndum hans er að finna upphafningu á tækni, t.d. gengur lykilverk hans, 2001, útá algert frelsi frá öllu hlutbundnu. Nálgun hans var hinsvegar afar smámunasöm og byggðist mjög á hátæknilegum úrlausnum, enda áttu kröfur hans um tæknilega fullkomnun til dæmis mikinn þátt í þróun betri linsa og filma á áttunda áratuginum. Og varðandi meinta harðstjórn Kubricks; þú vitnar í þau ummæli Truffauts að engin fylgni sé milli fyrirhafnar við gerð kvikmynda og útkomu, á sama hátt er engin fylgni milli framkomu og útkomu. Þú ruglar hér saman vinnsluaðferðum Kubricks við þann heim sem hann birtir okkur á tjaldinu og segir fyrir um ómennsku og tilfinningalega uppgjöf. En þó hann geri myndir með þessum viðfangsefnum er ekki þar með sagt að hann berjist fyrir framgangi þeirra. Ég ætla ekki að ganga svo langt að kalla hann sérstakan húmanista en maður sem fylgir sannfæringu sinni af slíkum krafti verður ekki sakaður um sálarleysi.

Nær væri að líkja Kubrick við véfrétt. Véfréttin hefur sem slík ekki afstöðu heldur lætur aðeins uppi það sem hún veit. Síðan er það viðtakandans að túlka vitneskjuna og bregðast við. Maður getur reynt að afneita henni en hún sækir að þér aftur og aftur eins og friðlaus vespa. Þegar hún svo loksins nær að stinga þig er það kannski ekkert sérstaklega ánægjuleg reynsla, en þú ættir allavega að vera glaðvakandi og með augun hjá þér.

Hvað Kieslowski varðar þá er ég þér um flest sammála. Í leiðarhnoðu hans um öngstræti sálarinnar vokir dauðinn yfir en af ásjónu hans stafar skínandi geislum. Kieslowski verður ekki kallaður trúaður í hefðbundnum skilningi, en myndir hans gefa okkur engu að síður möguleikann á tilvist æðri máttarvalda, sjötta skilningarvitsins og hugmyndarinnar um samtvinnuð líf. Hann var það sjaldgæfa fyrirbrigði, vonglaður bölsýnismaður sem var jafn hugfanginn af fegurðinni og stórum tilvistarspurningum. Flókin siðferðisspursmál eru í myndum hans dregin upp blátt áfram, líkt og heiti myndanna vísa til: Stutt mynd um morð og Stutt mynd um ást (1988), Opinn endir (1984), Tvöfalt líf Veroniku (1991), Tilviljun (1981) og þríleikurinn Blár, Hvítur og Rauður – Frelsi, Jafnrétti og Bræðralag (1993-94). Franski gagnrýnandinn og kenningasmiðurinn André Bazin hefði eins getað verið að skrifa um myndir Kieslowskis þegar hann sagði um miðja öldina að kvikmyndin væri staðgengill fyrir heim langana okkar og væntinga. Kvikmyndir Kieslowskis eru sprottnar úr hinum húmaníska jarðvegi evrópskrar kvikmyndahefðar, sannar sögur úr sálarlífinu en lausar við einfeldni og mærðarlegar undankomuleiðir. Þær eru dæmi um kvikmyndagerð þar sem afl ímyndunarinnar beinist að því að skilja hvernig við erum – þar sem þögnin fær sama vægi og ræðan og þar sem auganu er beint að því samhengi sem við kjósum oft að leiða hjá okkur. Í þeim birtist djúp lotning fyrir leyndardómum tilverunnar, oft í formi kaldhæðinnar forvitni, en ekki síður í sérkennilegum unaði. Enginn kvikmyndahöfundur, ef til vill að Dreyer undanskildum, hefur sýnt okkur konur í álíka ljóma. Í þríleiknum til dæmis myndaði hann ekki aðeins fíngerða beinabyggingu Juliette Binoche, Julie Delpy og Irene Jacob, heldur einnig bjarmann af sálu þeirra.

Kieslowski hafði lýst því yfir á kvikmyndahátíðinni í Berlín 1994 að hann væri hættur að gera kvikmyndir. Engu að síður vann hann að nýjum þríleik þegar hann féll frá. Fyrir kaldhæðni örlaganna, næstum eins og úr mynd eftir hann sjálfan, var viðfangsefni hans Himinn, Helvíti og Hreinsunareldurinn. Sjálfsagt leitar hann núna hentugra tökustaða og við verðum að vona að sá sem valdið hefur líti með velþóknun á.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s