Sáttmáli um RÚV og eflingu innlendrar dagskrár

(Birtist upphaflega í Morgunblaðinu 5. mars 2004) 

Mánudagskvöldið 1. mars var haldinn athyglisverður fundur á vegum Félags kvikmyndagerðarmanna (FK) þar sem skipst var á skoðunum um innlenda dagskrárgerð Sjónvarpsins við tvo fulltrúa þess, Bjarna Guðmundsson framkvæmdastjóra og Rúnar Gunnarsson dagskrárstjóra innlendrar dagskrárdeildar. Samkoman var merkileg ekki síst fyrir það að þetta var í fyrsta skipti í mjög langan tíma (ef undan er skilinn ágætur FK fundur sem Rúnar sótti á s.l. ári) þar sem opin og hreinskiptin umræða fór fram milli kvikmyndagerðarmanna og fulltrúa Sjónvarpsins um innlenda dagskrárgerð; markmið Sjónvarpsins og leiðir til að efla hana.

Of lengi hafa aðilar dvalist í skotgröfunum og sent hvor öðrum tóninn þegar þessi mál ber á góma. Á öðrum kantinum hafa kvikmyndagerðarmenn gagnrýnt ráðstöfun fjár til innlendrar dagskrárgerðar og viljað auka það, ekki síst með vísan til menningarhlutverks Ríkisútvarpsins. Á hinum kantinum hefur forsvarsmönnum RÚV oft fundist ómaklega vegið að störfum sínum og að skilning skorti á þeim margháttuðu skyldum sem RÚV þarf að uppfylla.

Hagsmunir fara saman
Fundurinn á mánudagskvöldið, sem haldinn var á veitingahúsinu Jóni forseta við Aðalstræti, var einnig sögulegur í þeim skilningi að í ljós kom með skýrum hætti að markmið Sjónvarpsins og kvikmyndagerðarmanna fara saman þegar kemur að málefnum innlendrar dagskrárgerðar.

Báðir aðilar telja að Sjónvarpið eigi að standa að fjölbreyttri innlendri dagskrá. Í stuttu máli: málsaðilar eru samherjar, ekki mótherjar.

Enn gleðilegra er svo að allt fer þetta saman við vilja og hagsmuni íslenskra sjónvarpsáhorfenda.

Skógurinn og trén
Ágreiningur virðist hinsvegar nokkur um leiðir að markmiðinu. Það er vissulega skiljanlegt en þarf ekki að leiða til þess að upp komi vík milli vina. Byggja verður frekar á því uppbyggilega samtali sem hafið er.

Ljóst er að stjórnendur Sjónvarpsins þurfa að taka tillit til margra þátta varðandi starfsemina og spila að auki innan afar þröngs fjárhagsramma þegar miðað er við þær skyldur sem lagðar eru á stofnunina í útvarpslögum. Slíkt er ekki auðvelt hlutskipti og aldrei verður hægt að gera öllum til hæfis – líklegra er að menn finni sig oftar í þeirri stöðu að hafa alla óánægða, bara mismikið. Kvikmyndagerðarmenn einbeita sér hinsvegar eðli málsins samkvæmt að einum þætti starfseminnar – þeim allra mikilvægasta fyrir íslenskt sjónvarp, þ.e. innlendri dagskrá. Það er hinsvegar til marks um hversu flókið og fjölþætt batterí ríkissjónvarp er, að þessi tiltekni þáttur skiptist svo í marga undirflokka þar sem tekist er á um áherslur og jafnvel einstök verkefni enda afkoman stundum í húfi. Þannig geta hagsmunir rekist á í hita leiksins og mönnum hættir til að sjá ekki skóginn fyrir trjánum.

Þetta á reyndar við um báða aðila.

Í grein í Morgunblaðinu þann 2. mars s.l. segir Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri kvikmyndagerðarmenn sundurleitan hóp með ólík sjónarmið. Er það svo þegar betur er skoðað?

Hann stillir upp fjórum flokkum kvikmyndagerðarmanna sem hafi regluleg samskipti við Sjónvarpið. Í þeim fyrsta er að finna metnaðarfulla framleiðendur kvikmynda sem vilja að Sjónvarpið komi að fjármögnun verkefna sinna. Í öðrum flokknum er að finna nýliða sem falbjóði verk eða hugmyndir og standa sumir sig vel en aðrir síður. Þá nefnir hann til sögu flokk kvikmyndagerðarmanna sem tekst ekki af ýmsum ástæðum að fjármagna verk sín en Sjónvarpið bindi fé í vilyrðum til þessara aðila. Að síðustu eru svo dúxarnir, þeir sem skili jafnan metnaðarfullum og vel unnum verkum. Markús gefur í skyn að heppilegast væri að einbeita sér að síðastnefnda hópnum en þó segir hann mikilvægt “að jafnfræðisreglu og réttsýni í þágu sem flestra sé gætt við útdeilingu þeirra takmörkuðu fjármuna sem úr er að moða.” Undir tilvitnunina skal heils hugar tekið. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn draga tel ég almennt ekki í efa að Markús og aðrir yfirmenn Sjónvarpsins hafi þessi sjónarmið að leiðarljósi í starfi sínu eftir fremsta megni. Umrædd tilvitnun vísar til mikilvægi fjölbreytninnar og þar liggur kjarni málsins. Sé líkingin um skóginn og trén notuð áfram, standa þessir hópar sem Markús fjallar um, sem og einstakir kvikmyndagerðarmenn, fyrir mismunandi tré – sem saman mynda skóg. Skógurinn í heild sinni þarf frjóan svörð eigi hann að þrífast.

Áður en ég kem að því hvernig það gæti orðið vil ég tæpa á nokkrum atriðum í annars ágætri grein útvarpsstjóra.

Samanburður við BBC
Markús segir samanburð við BBC útí hött enda ráðstafi sú stofnun árlega jafngildi fjárlaga íslenska ríkisins í rekstur sinn. Hér gætir misskilnings. Þegar RÚV og BBC eru bornar saman er verið að vísa í hlutverk og skyldur. Báðar eru sjónvarpsstöðvar í almannaþágu og starfa því eftir sambærilegum grundvallarsjónarmiðum, sem felast m.a. í því að leggja rækt við menningu, sögu og tungu á sem fjölbreyttastan máta, vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og gæta óhlutdrægni í hvívetna, m.a. í fréttaflutningi. RÚV bendir t.d. ekki ósjaldan á að það njóti trausts þjóðarinnar í fréttaflutningi – líkt og BBC nýtur um heim allan. Þá er BBC sömuleiðis sérlega traustvekjandi merki á sviði annarrar dagskrár. Afhverju skyldi samanburðurinn ekki ná þangað líka? RÚV var á sínum tíma lögð upp sem sambærileg stofnun og BBC og Danmarks Radio. Samanburðurinn við BBC snýst um að bjóða sambærilegt dagskrárinntak, ekki að jafna dagskrármínútur og enn síður dagskrárfé. Og dagskrárlegt inntak BBC felst fyrst og fremst í innlendu efni.

Starfsfólk Sjónvarps virt að vettugi?
Þá segist Markúsi mislíka ákaflega hve hlutur starfsfólks Sjónvarpsins sé virtur að vettugi í umræðunni. Undir þetta er engan veginn hægt að taka. Flestir starfsmenn Sjónvarpsins tilheyra kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum. Þetta eru félagar okkar í bransanum. Engum blöðum er um það að fletta að innan stofnunarinnar starfa afar hæfir einstaklingar sem vinna um margt prýðisgott íslenskt sjónvarpsefni. Markús segir kvikmyndagerðarmenn einnig hafa talað ógætilega með því að halda því fram að Sjónvarpið eigi ekki að hafa húsnæði, tæki og starfslið til eigin dagskrárgerðar.

Hér er einnig ákveðinn misskilningur á ferðinni. Þessar hugmyndir og fleiri snúast í raun um markmið og tilgang stofnunarinnar. Verið er að velta upp ýmsum hugmyndum sem m.a. eru byggðar á vísunum í reynslu og starfshætti annarra sjónvarpsstöðva í almannaþágu. Það er bæði sjálfsagt og eðilegt að velta því fyrir sér á hverjum tíma hvernig RÚV þjóni sem best markmiðum sínum sem stofnun í almannaþágu. Að takast á um ýmsar hugmyndir í þá veru getur, ef vel er á haldið, orðið til þess að skerpa sýnina á hlutverk RÚV í samfélaginu.

Sýn á framtíðina
Brýnt er að umræðan snúist ekki fyrst og fremst um smáatriðakrytur og þjark um krónur hér og aura þar, heldur beinist fyrst og fremst að hinum stóru málum. Hvernig getur Sjónvarpið sinnt sem best því megin hlutverki sínu að færa áhorfendum vandaða og fjölbreytta innlenda dagskrá? Í þeim efnum verða stjórnvöld og RÚV, auk kvikmyndagerðarmanna og annarra listamanna að taka höndum saman og lyfta menningarlegu grettistaki.

Á fyrrnefndum fundi FK benti Rúnar Gunnarsson á að taka þyrfti pólitíska ákvörðun um að veita stórauknu fé til gerðar leikins sjónvarpsefnis. Undir þetta skal tekið, enda hníga að þessu fjölmörg menningarleg rök. Einnig er mikilvægt að Sjónvarpinu verði gert kleift að koma að gerð annarskonar efnis með mun hærra þátttökuhlutfalli en verið hefur. Það gengur ekki til lengdar að byggja íslenska kvikmyndagerð á því að framleiðendur dagskrárefnis niðurgreiði verk sín að stórum huta, eins og staðan hefur verið um langa hríð.

Gera þarf samning til nokkurra ára milli framleiðenda og ríkisvalds um uppbyggingu Sjónvarpssjóðs í áföngum, þar sem byggt verður á þeim upplýsingum sem fram koma í ítarlegri skýrslu Aflvaka frá árinu 2002 um stöðu leikins sjónvarpsefnis. Efling slíks sjóðs myndi ekki aðeins valda byltingu í gerð leikins sjónvarpsefnis heldur einnig færa mikla peninga inní landið og skapa fjölmörg ný störf. Að auki vil ég leyfa mér að fullyrða að ekkert sé því til fyrirstöðu að íslenskir kvikmyndagerðarmenn geti gert leikið íslenskt sjónvarpsefni að öflugri útflutningsvöru. Danir og Svíar hafa náð miklum árangri á þessu sviði á undanförnum árum með markvissum stuðningi ríkisins. Þó að það yrði á minni skala höfum við alla burði til að gera slíkt hið sama.

Einnig mætti hugsa sér að RÚV gerði nokkurskonar sáttmála við stjórnvöld, t.d. til tíu ára í senn, líkt og raunin er með BBC. Í slíkum sáttmála yrði meðal annars kveðið á um skyldur stofnunarinnar gagnvart framboði hverskyns innlends sjónvarpsefnis, leiknu sem öðru, auk þess sem gert yrði ráð fyrir ákveðu framlagi ár hvert til bíómynda líkt og flestar evrópskar stöðvar á borð við Sjónvarpið leggja fram. Á móti yrði RÚV tryggðar ákveðnar tekjur á þessu tímabili með eðilegum hækkunum á fyrirfram skilgreindan máta, þannig að stofnunin gæti mætt skyldum sínum með sannfærandi hætti.

Kvikmyndagerðarmenn og Bandalag íslenskra listamanna telja eflingu innlendrar dagskrár og sérílagi leikins sjónvarpsefnis, brýnasta úrlausnarefni íslenskra menningarmála í samtímanum. Ef dæma má af umræðum fyrrnefnds fundar eru stjórnendur Sjónvarpsins sama sinnis. Og eitthvað segir mér að nýr menntamálaráðherra skilji einnig um hvað málið snúist.

Er eftir nokkru að bíða?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s