Vér fiskarnir…

(Skrifað 11.01.1996 sem svar við grein Arnaldar Indriðasonar, en hann hafði svarað gagnrýni okkar í greininni "Sannleikurinn um Kalið hjarta". Það verður að segja Morgunblaðinu til hróss að innan skamms hafði blaðið lagt niður ýmsa af þeim ósiðum sem við gagnrýnum í þessari grein og tekið upp ýmislegt af því sem við leggjum til hér, t.d. reglulega umfjöllun um helstu kvikmyndahátíðir. Þeir sem vilja lesa grein Arnaldar er bent á að smella hér: "Handhafar sannleikans".)

EFTIR ÁSGRÍM SVERRISSON OG GÍSLA SNÆ ERLINGSSON

Arnaldur Indriðason kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins gerði okkur, "félögunum fyndnu" sem hann kýs að kalla svo, mikinn heiður síðastliðinn laugardag með því að svara grein okkar frá 3. janúar hvar við gerðum að umtalsefni dóm hans um kvikmyndina "Un Coeur en Hiver". Rúmum mánuði áður hafði verið fundið að vinnubrögðum hans í opnu bréfi til ritstjóra Morgunblaðsins, en fátt orðið um svör. Eitthvað í okkar skrifum varð hinsvegar til þess að Arnaldur vaknaði af dvala og er það vel.

Hitt þótti okkur verra að Arnaldur virðist halda að við unum honum ekki að hafa sínar skoðanir í friði. Það er misskilningur. Málið snýst um trúverðugleika gagnrýnandans, þær forsendur sem að baki skoðunum hans liggja. Sér til varnar nefnir Arnaldur tvo þekkta bandaríska kvikmyndagagnrýnendur, Vincent Canby og Pauline Kael. Ekki getum við varist þeirri hugsun að honum sé farið líkt og hornsílinu sem svamlaði um og hugsaði með sér: "Hér syndum vér fiskarnir".

Í skrifum Canby og Kael kemur fram djúp þekking, ástríða og persónuleg sýn á kvikmyndir. Skrif þeirra hafa þyngd, það er hægt að vera þeim hjartanlega ósammála eða öfugt en þau hræra uppí lesandanum. Okkur hefur fundist allnokkuð á þetta skorta hjá Arnaldi, sem og raunar fleirum sem fjalla um kvikmyndir hér á landi. Alltof oft er okkur boðið uppá skrif um kvikmyndir sem einkennast af metnaðarleysi, áhugaleysi, sleggjudómum, vanþekkingu á kvikmyndasögu og fjasi um aukaatriði. Allir eru frjálsir að skoðunum sínum en sú krafa er gerð að skoðunum þeirra sem fjalla um kvikmyndir opinberlega fylgi slagkraftur og þekking á miðlinum. Í stuttu máli: fagmennska.

Arnaldur gerði einmitt vel í því að lesa skrif einhverra af þeim ágætu gagnrýnendum sem við nefndum í grein okkar, sem og fleirri góðra manna. Af þeim má ýmislegt læra um vinnubrögð. Afsakanir um tímaskort eru ekki teknar gildar. Umræða um kvikmyndir á Íslandi er á lágu plani og það er vont. Fólk sem unnir kvikmyndum fer á mis við vitræna umfjöllun og ekki síður íslenskir kvikmyndagerðarmenn, sem er bráðnauðsynlegt að eiga bakland í frjórri umræðu og markvissri gagnrýni, bæði um eigin myndir sem og erlendar.

Arnaldur tekur fram í grein sinni að honum hafi verið vel kunnugt um þær góðu viðtökur sem "Un Coeur en Hiver" fékk á sínum tíma. Það er miður að hann hafi ekki séð ástæðu til að geta þess í gagnrýni sinni. Kvikmyndir frá Hollywood eru bakkaðar upp af öflugri og vel smurðri áróðursvél. Í kringum þær er stjörnufans og dýrðarljómi sem gefur þeim ábúðarmikinn svip. Kvikmyndir frá öðrum þjóðum njóta ekki þessháttar bakhjarla. Því er ekki til of mikils mælst að þær fái svolítinn inngang og kynningu hjá þeim sem um þær fjalla, óháð skoðunum gagnrýnandans á hvernig til tókst. Kvikmyndagagnrýni er sérhæfð blaðamennska og snýst því einnig um að miðla upplýsingum.

Kvikmyndagagnrýnandinn ber mikla ábyrgð – fyrst gagnvart lesendum sínum en ekki síður gagnvart viðfangsefni sínu. Arnaldur fær, líkt og Canby, borgað fyrir að segja skoðun sína á kvikmyndum. Hann fær væntanlega líka borgað fyrir að hafa umsjón með "kvikmyndasíðu" Morgunblaðsins á sunnudögum. Þar gefur oft að líta þýddar klausur úr erlendum kvikmyndablöðum án þess að heimilda sé getið. Þetta er auðvitað afleit blaðamennska og fyrir neðan virðingu Morgunblaðsins. Sama má segja um heilsíðukynningar Morgunblaðsins á væntanlegum Hollywood kvikmyndum sem unnar eru uppúr kynningarefni dreifingaraðilanna án þess að það sé tekið fram.

Í því rými sem Morgunblaðið ætlar undir kvikmyndaumfjöllun viljum við sjá kræsilegra efni. Greinar um strauma og stefnur, vel unnin viðtöl við þá sem starfa við kvikmyndir og vandaðar umfjallanir um athyglisverðar myndir. Óskandi væri að Morgunblaðið færi að dæmi helstu dagblaða Evrópu, sem gera stórum kvikmyndahátíðum á borð við Cannes, Berlín og Feneyjum ítarleg skil með daglegri umfjöllun meðan á þeim stendur. Sömuleiðis mætti Morgunblaðið flytja okkur umfjallanir um kvikmyndahátíðir sem standa okkur enn nær, svosem Gautaborg og Haugasund. Íslenskar kvikmyndir eru þátttakendur í hinni evrópsku kvikmyndaflóru og er nauðsynlegt að finna til þess, auk þess að almenningi sé þetta samhengi ljóst. Þar geta fjölmiðlar leikið stórt hlutverk með því að fjalla um kvikmyndir af þekkingu og næmi.

Það er hárrétt hjá Arnaldi að starfi hans fylgi að mynda sér skoðanir og vissulega er gagnrýni aðeins skoðun þess sem setur hana fram. En þegar hann veitist að kvikmynd sem hlotið hefur frábærar undirtektir, með illa grunduðum fullyrðingum, kallast það að skjóta sjálfan sig í fótinn faglega. Ekki bætir úr skák að um leið og hann biðst afsökunar á einni af mörgum fljótfærnislegum fullyrðingum sínum í dómnum, kemur hann með enn aðra um kvikmyndina "Benjamín dúfu" sem kemur málinu ekkert við.

Er ekki kominn tími til að taka kvikmyndina svolítið alvarlega nú þegar hún hefur skriðið á annað árhundraðið?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s