ÁSGRÍMUR SVERRISSON
Stutt ferilágrip
Ásgrímur Sverrisson er fæddur 1964. Hann gerði fjölda stuttmynda á unglingsárunum og voru ýmsar þeirra verðlaunaðar á hátíðum heima og erlendis. Ásgrímur stundaði nám í leikstjórn við einn virtasta kvikmyndaskóla Evrópu, National Film and Television School í Bretlandi og útskrifaðist þaðan 1994. Bæði fyrir og eftir námið hefur hann unnið fjölda kvikmyndaverkefna af fjölbreyttum toga; þ.á.m. heimildamyndir, leiknar sjónvarpsmyndir, auglýsingar og tónlistarmyndbönd auk margskonar dagskrárgerðar fyrir sjónvarp. Þá var hann einn af fimm leikstjórum bíómyndarinnar Villiljós sem frumsýnd var 2001.
Ásgrímur var ritstjóri tímaritsins Land & synir frá upphafi (1995) til áramóta 2008, ef undan eru skilin þrjú ár (98-01). 2003 hóf Land & synir göngu sína á vefnum (www.logs.is) og var helsta frétta- og upplýsingaveita um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirann, þar til stjórn ÍKSA ákvað að leggja vefinn niður síðla árs 2010.
Ásgrímur hefur einnig starfað sem kvikmyndagagnrýnandi, bæði fyrir sjónvarp og prentmiðla og hefur auk þess fjallað um kvikmyndir á ýmiskonar vettvangi um margra ára skeið. Þá var hann einn þeirra sem komu Edduverðlaununum á fót 1999 og var framkvæmdastjóri þeirra fyrstu þrjú árin. Hann sat í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir hönd Samtaka kvikmyndaleikstjóra frá 2002-2007. Þá hefur hann reglulega komið að kennslu við Kvikmyndaskóla Íslands.
Ásgrímur var umsjónarmaður þáttanna Taka 2, tuttugu þátta raðar sem sýnd var í Sjónvarpinu 2005-2006, þar sem spjallað var við íslenska kvikmyndaleikstjóra um verk þeirra og sýnd brot úr þeim.
Hann var jafnframt einn umsjónarmanna kvikmynda- og leikhúsþáttarins 07/08 bíó leikhús, sem var á dagskrá Sjónvarpsins veturinn 2007-2008.
2009 stofnaði Ásgrímur vefmiðilinn Iceland Cinema Now, sem fjallar um íslenskar kvikmyndir á ensku.
2010 stóð hann ásamt fjölmörgum öðrum að stofnun Bíó Paradísar – heimilis kvikmyndanna. Hann var dagskrárstjóri bíósins frá upphafi til 1. apríl 2013.
2013 stofnaði hann bransavefinn Klapptré sem flytur fréttir, viðhorf, gagnrýni, greiningu og upplýsingar um íslenskar kvikmyndir og sjónvarp.