Woody með músu sinni, henni Scarlett.
Woody með músu sinni, henni Scarlett.

Woody Allen var… og fjandakornið er enn… minn gúrú. Jájá, þrátt fyrir að hann hafi eiginlega ekki gert brilliant masterpís mjög lengi. Þeir segja að nýja myndin hans Vicky Christina Barcelona sé skrambi góð. Gallinn er að þeir hafa verið að segja þetta um myndirnar hans svolítið lengi. Nei, Match Point var ekkert spes, Scoop þaðan af síður. Hef ekki nennt enn að sjá Cassandra’s Dream. En við sjáum hvað setur. Ég ætla allavega að kíkja á Vicky. Hér er dagbók Woodys frá tökum, mest tómur fíflagangur eins og hans er stundum háttur.

Hef einu sinni barið meistarann augum. Það var eiginlega Woodískt móment.

Þetta var 1987 og ég var þá við nám í sumarprógrammi NYU. Eitt af mikilvægustu todo itemunum mínum var að skreppa á Michael’s Pub, þar sem Woody spilaði jazz í bigbandi á mánudagskvöldum. Það sem mér þótti botnlaust töff var að hann neitaði alltaf að dúkka upp við óskarsverðlaunaafhendingar vegna þess að þær voru þá á mánudagskvöldum og þá var hann einfaldlega upptekinn!

Eitt mánudagskvöldið skrepp ég ásamt félaga mínum af dorminu. Í fáfræði minni bjóst ég við að þarna yrði fámennt, væru ekki allir búnir að sjá kallinn sem á annað borð nenntu? Ónei, aldeilis ekki.

Þarna var kjaftfullt af túristum sem allir biðu eftir að sjá goðið og attitjúdið hjá staffinu var eftir því. Við stóðum lengi við innganginn og biðum eftir að verða hleypt inn. Loks gengur hljómsveitin í salinn og nokkru síðar kemur Woody. Hann stoppar skammt frá okkur og virðir fyrir sér hópinn augnablik. Úr svip hans mátti lesa leiðablandna furðu: hvað í ósköpunum eruð þið að gera hérna?

Ég skammaðist mín oní tær. Svona á maður ekki að heiðra meistara sinn.

Okkur var síðan hleypt til sætis og þjónarnir tóku pantanir. Þú varðst að kaupa fyrir eitthvað lágmark, sem var miklu hærra en ég ætlaði mér að eyða, fátækur neminn. Viðmótið yfirlætislegt. Allavega, við létum okkur hafa það.

Ekki tók svo betra við þegar hljómsveitin byrjaði að spila. Ekki misskilja mig, ég er jazzmaður. Get meira að segja þolað ofurlítið af Dixieland. En þetta var alveg skelfilega leiðinlegt. Og varð síðan sífellt verra. Woody spilaði reyndar ágætlega á klarinettinn, en eftir svona korter tuttugu mínútur var þetta orðið óbærilegt. Við létum okkur samt hafa það í þennan ca. klukkutíma sem bandið spilaði og fórum sneyptir heim.

Síðar bætti ég sjálfum mér og meistaranum þetta upp með því að fara í pílagrímsferð um tökuslóðir Hannah and Her Sisters, samkvæmt korti sem ég hafði séð í The New York Times.

Ég sá veitingahúsið þar sem systurnar þrjár hittast og kameran fer hring eftir hring í kringum þær.

Ég sá bókabúðina þar sem Michael Caine finnur EE Cummings handa Barböru Hershey.“Nobody, not even the rain, has such small hands.“ Senan er hér.

Ég sá eina af byggingunum sem Sam Waterston sýnir Diane Wiest og Carrie Fisher meðan Concert for Harpsicord in F Minor eftir Bach heyrist á hljóðrásinni. Þessa nýju á milli tveggja eldri húsa. Líka Dakota bygginguna á Upper West Side, þar sem Lennon var skotinn í portinu og Polanski myndaði hluta Rosemary’s Baby.

Ég sá örugglega eitthvað fleira. Give me a break, it’s been more than twenty years!

Hanna og systurnar er konungsdjásnið í safni Woodys. Snilldar bræðingur kómedíu og drama. Vincent Canby sagði að eftir Hönnu yrðu allir amerískir leikstjórar að miða sig við hana. Kannski aðeins of stór yfirlýsing, en eitthvað í henni þó.

Hér eru tökuslóðirnar sé ég!