Myndir þýða eitthvað

(Skrifað 8.3.2001 og birtist upphaflega í nýrri útgáfu tmm um sama leyti. Fyrsta grein af þremur, enda varð hún tilefni nokkurrar ritdeilu. Sjá einnig "Að skjóta sig í fótinn" og "Dæmigerð umræða".)
 
-um ljósmynd ársins, Ara Magg og Leni Riefenstahl

Baldur - ljósmynd ársins 2001

Er ég sá eini sem finnst ljósmyndin sem nýlega var kjörin "besta mynd ársins" af blaðaljósmyndurum, orka tvímælis? Þarna er um að ræða auglýsingamynd vegna uppsetningar á tónverkinu Baldri eftir Jón Leifs. Á henni sjást tveir föngulegir ljóshærðir karlmenn niður að brjóstkassa og beinist myndavélin mót þungbúnum himni. Ekkert er við ljósmyndina að athuga, nema síður sé, að undanskildu einu atriði: því sögulega samhengi sem hún vísar í. Fagurfræði hennar kemur beina leið úr skóla Leni Riefenstahl, þeirrar merku kvikmyndagerðarkonu, hvers nafn og verk eru órjúfanlega tengd hinum þýska nasisma og draumnum um þúsund ára ríkið.

Nú er í sjálfu sér ekkert að því að fá lánað; ef þú þarft að stela, steldu frá þeim bestu” segir máltækið og kannski er það tilfellið hér. Ef við gefum okkur að ljósmyndarinn, Ari Magnússon, og/eða aðrir hugmyndasmiðir í kringum hann, þekki söguna og séu meðvitaðir um hvað þeir eru að vitna í, liggur beinast við að ætla að þankagangurinn hafi verið eitthvað á þessa leið: "Baldur – norræn goðafræði – ragnarök – nasisminn – Leni Riefenstahl – Jón Leifs – Þýskaland á nasistatímanum – hálfgerð ragnarök hjá honum líka ha? Flott tenging, ekki spurning, kýlum á þetta". Hér væri þá semsagt um að ræða einhverskonar “Nazi chic”, að vitna í íkónógrafíu þjóðernissósíalista vegna ákveðinnar yfirborðstengingar en ekki síður vegna flottheitanna. Þetta var jú ansi smart hjá þeim á sínum tíma – svona fagurfræðilega séð.

Útkoman er plakat fyrir merkan menningarviðburð, sem dreift var um alla borg síðasta sumar. Ljósmynd sem er eins og klippt út úr Olympíu eða Sigri viljans, þessum tveimur meistaralega gerðu heimildarmyndum sem skópu orðstí Riefenstahl og myndgerðu nasismann.

Þekki ljósmyndarinn hinsvegar ekki söguna er það þyngra en tárum taki og nær að verðlauna myndina sem "klúður ársins" eða eitthvað þessháttar. Hinsvegar tel ég þetta ekki vera tilfellið því ekki þarf annað en að horfa til þeirrar ljósmyndar sem valin var “tískuljósmynd ársins” og er eftir sama mann, til að átta sig á uppruna andagiftarinnar.

Ég veit að nú er pólitísk afstæðishyggja lenska og allt sem máli skiptir dregið stórlega í efa. Það er gott og blessað en hér vil ég staldra við. Mér hættir nefnilega til að taka fullt mark á myndmáli sem tjáningarmáta og hér fæ ég ekki varist þeirri hugsun að ef til vill sé verið að færa mér skilaboð sem mér hugnast lítt – hugmyndir um æðri kynþætti, ofurmennarækt, skipulögð þjóðarmorð, þrælahald, einræði hins sterka og fleira miður geðslegt – en allt einhvernveginn óvart og jafnvel fyrir misskilning.

Eða hvað? Er þetta ekki bara sniðug hugmynd, vel útfærð og framsett? Er ekki of langt gengið að saka höfund myndarinnar um að breiða út fagnaðarerindi nasista? Jú, enda er það fjarri mér. En hvar afstaða hans liggur til þeirrar hugmynda sem verk hans vísar í er mér ekki alveg ljóst. Finnst honum samhengið rökrétt? Er þetta ádeila? Ögrun? Eða finnst honum þetta bara smart?

Þá er hægt að spyrja á móti; dæmir ekki hver fyrir sig? Segir ekki meðal annars í úrskurði dómnefndar að myndin veki “fjölda spurninga um tilveru mannsins og vegferð hans”? Er ekki bara ágætt að myndin veki mann svona til umhugsunar?

En til umhugsunar um hvað? Hvaða spurningar eru það sem vakna um tilveru mannsins og vegferð hans þegar horft er á þessa ljósmynd? Norræn goðafræði geymir vissulega margar slíkar vangaveltur og látum heita að verið sé að vísa þangað í orðum dómnefndar. En hvað með afstöðu ljósmyndarans/listamannsins til viðfangsefnis síns? Leyfist honum að valsa um listasöguna og fá hitt og þetta lánað sem honum finnst smart? Án tillits til þess samhengis sem slík verk voru gerð í? Og án tillits til þess sögulega samhengis sem viðfangsefnið er í?

Allt þetta leiðir hugann að hinni klassísku spurningu um tengsl listsköpunar og pólitíkur, fagurfræði og merkingar. Það vill einmitt svo til að sú spurning hefur ávallt brunnið heitt á fröken Riefenstahl. Hún er enn á lífi konan, orðin 99 ára gömul og hefur ávallt haldið því fram að myndir hennar hefðu verið gerðar á listrænum og fagurfræðilegum forsendum eingöngu, ekki til dýrðar nasismanum. Hún sagðist líka aldrei hafa haft hugmynd um þau ódæði sem nasistar stóðu fyrir og hefur því alltaf þvertekið fyrir að taka nokkra ábyrgð á þeirri vítisvél. Enginn getur dregið í efa listamannshæfileika hennar, sem reyndar eru svo einstakir að hún á helst heima í hópi endurreisnarmálaranna hvað varðar sýn hennar á mannslíkamann. Sjónarmiðum hennar er þó erfitt að kyngja orðalaust, sérstaklega þegar haft er í huga hver fjármagnaði verkin. Er semsagt verjandi að vinna fyrir hvern sem er ef listamaðurinn er trúr sjálfum sér? Getur listamaðurinn gefið hjarta sitt í verk til dýrðar þeirri stefnu sem hann segist ekki þekkja haus né sporð á?

Er þetta ekki kjarni málsins? Myndir þýða eitthvað, færa okkur vísanir, samhengi, hugrenningatengsl, minningar og svo framvegis. Þessvegna geta myndsmiðir ekki flúið ábyrgð sína, frekar en þeir sem tjá sig í töluðu eða rituðu máli. Þeir geta ekki falið sig á bakvið fagurfræðina sem slíka, því hún er aldrei án einhverskonar merkingar – sérstaklega ekki í þessu tilfelli.

Nasistar vísuðu óspart í norræna goðafræði, hugmyndum sínum til stuðnings. Tákn þeirra, hakakrossinn, er sömuleiðis þaðan fengið og stendur fyrir sólina/eilífðina/hringrás lífsins. Eimskipafélagið hafði notað þetta sama tákn (sneri reyndar öfugt) frá 1912. Þeir lögðu það loks niður fyrir um áratug eða svo og báru því við að ekki væri við hæfi að flagga þessu merki samfara auknum umsvifum á alþjóðlegum vettvangi – semsagt, þeir komust að þeirri niðurstöðu að merki þetta hafði “merkingu”.

Þrátt fyrir að ekki sé annað hægt en dást að því listfengi sem birtist í fyrrnefndum myndum Leni Riefenstahl er ekki hægt að horfa framhjá því að þær tengjast náið einhverjum mestu glæpamönnum veraldarsögunnar og hugmyndafræði þeirra. Af þeim sökum ber að feta varlega þann stíg sem liggur að smiðju hennar og vera með það alveg á hreinu hversvegna förinni er þangað heitið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s