Hvað bíður Sjónvarpsins?

(Skrifað 15.03.1996. Birtist upphaflega í tímaritinu Mannlíf um svipað leyti. Þetta var fyrsta greinin sem ég skrifaði um málefni Sjónvarpsins en finna má hér a.m.k. þrjár aðrar greinar um það efni. Í þessari er sleginn ákveðinn tónn sem bergmálar í hinum greinunum, en þær eru mun yngri. Byggði ég bæði á reynslu minni af störfum fyrir Sjónvarpið á seinnihluta níunda áratugarins (undir dagskrárstjórn Hrafns) og kvikmyndanámi mínu í Bretlandi þar sem ég hafði m.a. fylgst með þróun sjónvarpsmála. Er enn um flest svipaðrar skoðunar varðandi Efstaleitið, þó að vissulega séu ein eða tvær fullyrðingar þarna svolítið galgopalegar…)

Ríkisútvarpið – Sjónvarp á að vera framherji íslenskrar menningar. Þar á þjóðin að geta fundið spegil tilveru sinnar á hverjum tíma og þegar best lætur, séð sjálfa sig í nýju ljósi. Menningarhugtakið nær í mínum huga yfir það líf sem lifað er í landinu, samtíð og sögu, drauma og veruleika, vonir og þrár, alla hugsanlega fiska undir öllum hugsanlegum steinum. Þessu fyrrum óskabarni þjóðarinnar hefur ekki tekist í þrjátíu ára sögu sinni að uppfylla framherjahlutverkið. Í besta falli má líkja því við bakvörð sem af og til nær að koma boltanum í mark. Ýmislegt kemur hér til. Sjónvarpið vanrækir skyldur sínar gagnvart áhorfendum, eigendum sínum, með því að vanrækja íslenska dagskrárgerð, sérstaklega leikið efni. Þetta er að gerast á sama tíma og framboð á erlendu sjónvarpsefni eykst með degi hverjum. Um milljarður króna liggur vannýttur í vondu húsi uppí Efstaleiti. Stjórnvöld halda eftir lögbundnum tekjum Sjónvarpsins af sölu myndbands- og viðtækja og fella niður afnotagjöld skjólstæðinga Tryggingastofnunar án þess að bæta Sjónvarpinu það upp. Þar er um hundruðir milljóna króna að ræða. Dagskrárstjóri Innlendrar dagskrárdeildar segir af sér eftir að hafa talað fyrir daufum eyrum um forgangsröðina hjá Sjónvarpinu í þrjú ár. Skipulag Sjónvarpsins er vægast sagt forneskjulegt og innbyrðis rígur milli deilda bætir ekki úr skák. Eru þetta dauðateygjur eða tímabundinn hiksti? Ýmislegt bendir til þess að Sjónvarpið standi frammi fyrir ýmsum grundvallarspurningum um tilveru sína.

Þursinn rumskar
Eftir tuttugu ára einokun þurfti Sjónvarpið að kljást í fyrsta skipti við samkeppni. Tekin var ákvörðun, sem í fyrstu var nokkuð sannfærandi og lýsti stórhug. Sjónvarpið jók útsendingartíma sinn, afnam júlílokun og hóf útsendingar á fimmtudögum. Barnaefni var stóraukið sem og fréttatímar og unglingaefni. Um tíma var meira að segja nokkuð um leikið efni, sem aukinheldur var flest unnið af fólki sem kunni á myndmiðla en ekki leikhúsfólki í atvinnubótavinnu eins og oft tíðkaðist áður. Þáverandi dagskrárstjóri, Hrafn Gunnlaugsson, reif stofnunina uppúr áratuga lognmollu og hafði til þess ákveðinn stuðning þáverandi útvarpsstjóra, Markúsar Arnar Antonssonar. Eftir þessu var tekið á sínum tíma.

Hugmyndir Hrafns mættu einnig mikilli mótspyrnu. Ásamt því að gefa fjölda ungs fólks sín fyrstu tækifæri, lagði hann áherslu á að fela sjálfstæðum aðilum gerð sjónvarpsefnis. Þetta olli miklum titringi meðal margra fastráðinna starfsmanna, sem töldu að sér vegið. Umræðan um „einkavinavæðingu“ og sóun á fé Sjónvarpsins hófst þá þegar. Vildu menn meina að miklu dýrara væri að vinna efni utanhúss og vegna dularfullrar bókfærslu stofnunarinnar var – og er enn – auðvelt að reikna hlutina þannig. Þegar Innlend dagskrárdeild (IDD) gerir fjárhagsáætlun fyrir ákveðinn þátt, þarf hún ekki að telja fram kostnað við mannskap, tækjaleigu og leikmyndagerð í dagvinnu, heldur reiknast hann af framlagi tæknideildar og leikmyndadeildar. Afleiðingin er sú að yfirsýn yfir raunkostnað við dagskrárgerð er vægast sagt þokukennd. Nú er að vísu löngu búið að sýna frammá að enginn teljanlegur munur er á vinnslukostnaði utanhúss sem innan, en ennþá situr allt við það sama. Vandamálið á sér rætur í þankaganginum innan veggja, tregðulögmáli og deildaríg. Deildir Sjónvarpsins, aðalskrifstofa, fréttadeild, IDD, íþróttadeild, tæknideild, leikmyndadeild og erlend dagskrárdeild, fá allar úthlutað ákveðnu fjármagni. Þær hafa því allar sitt „svæði“ að verja í stað þess að fénu sé veitt til dagskrárdeildanna sem síðan kaupa þjónustu af þjónustudeildunum.

Sjónvarpið er stofnun og tilhneiging margra starfsmanna er að líta svo á að þeir séu í vinnu hjá stofnuninni fyrst og fremst en síður hjá verkefninu sem verið er að vinna. Þetta er að mörgu leyti viðtekið (en langt í frá æskilegt) viðhorf starfsmanna hjá stærri fyrirtækjum. Að baki því býr sú kredda að stofnunin sé fyrst og fremst til vegna sjálfrar sín og starfsmannanna en ekki þeirra sem hún þjónar. Þegar við bætist yfirstjórn sem einkennist af skorti á hvatningu, nema helst þeirri að hjakka í sama farinu, er afleiðingin sú að vangaveltur um kjaramál, aðbúnað og fríðindi skipa hærri sess en metnaður gagnvart verkefnum. Þetta er sagt með allri virðingu gagnvart starfsmönnum Sjónvarpsins, sem flestir eru fremstir meðal jafningja í sínu fagi.

Hrafn, sem er ekki þekktur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, fann nýja útvarpshúsinu einnig flest til foráttu og vildi selja það, enda taldi hann húsið hinn mesta óþarfa fyrir nútíma sjónvarpsstöð. Í sumum skúmaskotum Ríkisútvarpsins jaðraði svona tal við guðlast. Upphaflega var ætlunin að reisa þrisvar sinnum stærra hús og þá átti núverandi bygging að hýsa Rás 1 Útvarpsins eingöngu! Hefði sama framsýni ráðið ríkjum gagnvart dagskránni, væri Sjónvarpið í góðum málum. Frá þessum stórbrotnu hugmyndum var þó horfið en í stað þess ákveðið að hola Sjónvarpinu aftantil í húsið. Þetta er glapræði. Í fyrsta lagi er Útvarpshúsið þannig hannað að það virðist oftast nær mannlaust, yfir því hvílir andrúmsloft grafhýsis. Í öðru lagi fær Sjónvarpið samkvæmt þessum hugmyndum, ekkert andlit. Frá aðalinngangi er góður spölur inní fyrirhugaðan sjónvarpshluta og leiðin liggur gegnum útvarpshlutann og hið vandræðalega Markúsartorg. Tilfinningin verður sú að Útvarpið sé flaggskip stofnunarinnar, sem er í besta falli kjánaleg tímaskekkja. Í þriðja lagi hentar húsið engan veginn nútíma sjónvarpsrekstri, t.d. er upptökustúdíóið afar óhentugt, rými fyrir myndbandavinnslu er miðað við tæki fyrri tíma sem voru margfalt fyrirferðarmeiri, ekkert pláss er fyrir saumastofu eða leikmyndasmíði og mörg híbýlin eru gluggalaus. Ótalin er síðan sá kostnaður sem hlýst af flutningunum, en hann hleypur á hundruðum milljóna. Fjölmargir starfsmenn Sjónvarpsins hafa bent á að miklu hagkvæmara og ódýrara væri að byggja við Sjónvarpshúsið á Laugavegi til að leysa húsnæðismál þess. Sú lausn virðist vænlegri í bili en á sjóndeildarhringnum er að birtast allt annarskonar ástand.

Veröld ný og góð
Hvort sem yfirmönnum Ríkisútvarpsins líkar betur eða verr, eru í gangi stórfelldar breytingar í sjónvarpsmálum heimsins. Flutningur sjónvarpsefnis um gervihnetti, ljósleiðara og annað er ekki aðeins að stórauka framboð á myndefni heldur einnig að breyta formi miðilsins. Hugmyndin um samfellda dagskrá sem hefst og lýkur á tilteknum tíma mun brátt heyra sögunni til. Fyrirbærin tölva, sími og sjónvarp munu renna saman í eitt og gegnum þetta nýja fyrirbrigði (lýst er efir orði – tölsímvarp virkar ekki alveg) mun fólk sækja sér það myndefni sem því hugnast. Til dæmis má gera ráð fyrir því að innan skamms tíma muni fólk geta prógrammerað þá dagskrá sem það kýs, þ.e. verið sínir eigin dagskrárstjórar. Í þessari veröld nýju og góðu mun verða hægt um vik að skemmta sér til ólífis. Það er höfuðatriði fyrir Íslendinga að Sjónvarpið bjóði uppá næringarrík og bragðgóð innlend hráefni í þessa framtíðarsúpu. Öllu skiptir að búa sig undir þetta sem fyrst með því að losa stofnunina úr viðjum forneskjunnar, stinga höfðinu upp fyrir skýin en vera með fæturna á jörðinni.

Hugmyndin um afnotagjöld af Ríkissjónvarpi er að ég tel góð og gild í nánustu framtíð. Aðeins þannig er hægt að bjóða þjóðinni uppá alvöru íslenska dagskrá, sér í lagi leikið efni og metnaðarfullar heimildarmyndir.

Þessi bylting (sem mig grunar reyndar að liggi og bíði færis í gámi á hafnarbakkanum í Reykjavík) mun bráðlega gera það að verkum að eina hlutverk Sjónvarpsins verður að bjóða uppá íslenskt efni. Mótun og framkvæmd íslenskrar dagskrárstefnu þarf því að gera að lykilatriði í rekstrinum en ekki húsbyggingar, tækjaeign og viðamikið starfsmannahald. Breyta þarf Sjónvarpinu í „útgáfusjónvarp“ samanber bókaútgáfu. Hið ritstjórnarlega vald, það sem máli skiptir, myndi að sjálfsögðu hvíla hjá stöðinni sem og sjálf útsending efnisins, en vinnsla verkefnanna færi fram utanhúss. Stjórnendurnir hefðu þannig tækifæri til að velja besta fólkið í þau verk sem vinna þarf, fólk sem á allt undir því að standa sig í stykkinu. Þetta myndi að sjálfsögðu virka sem vítamínsprauta inná hinn veikburða markað sjálfstæðra framleiðslufyrirtækja og verða áskorun til íslenskra kvikmyndagerðar- og dagskrárgerðarmanna um aukna fagmennsku og framleiðslugæði. Ekki er heldur að efa að starfsmenn Sjónvarpsins yrðu flestir eftirsóttir starfskraftar á þessum markaði enda búa þeir að reynslu og kunnáttu sem nýtast myndi vel.

Vel heppnuð fyrirmynd
Til að útlista betur þessar hugmyndir langar mig að taka dæmi um „útgfáfusjónvarpsstöð“ (publishing TV) sem nota mætti að einhverju leyti sem fyrirmynd, einfaldlega vegna þess að hún þykir afar vel heppnuð.

Umrædd stöð kallast Channel Four og er staðsett í Bretlandi. Channel Four er líkt og Sjónvarpið stöð í almannaþágu (public service broadcaster). Hún framleiðir nær ekkert eigið efni – ekki einu sinni fréttir. Channel Four fór í loftið 1982 og hefur tekjur sínar eingöngu af sölu auglýsinga (þetta atriði gengi ekki hér vegna smæðar markaðarins). Stöðinni er uppálagt samkvæmt lögum að bjóða uppá sjónvarpsefni sem fellur að smekk ýmisskonar hópa sem ekki er sinnt af ITV-stöðvunum (commercial TV), standa fyrir framsækinni dagskrárgerð og helga hluta dagskrárinnar skólasjónvarpi. Rekstarform stöðvarinnar hefur vakið athygli víða um heim, meðal annars hafa þýskar, franskar og norrænar sjónvarpsstöðvar tekið það upp. Ennfremur hafa ýmsar ITV-stöðvanna í Bretlandi farið að dæmi Channel Four. BBC hefur jafnframt verið að auka hlut sjálfstæðra framleiðenda í dagskrá sinni og þar á bæ hefur verið komið á fyrirkomulagi sem kallast „Producer’s Choice“ og m.a. felur í sér að innanhúss framleiðendur stöðvarinnar láta þjónustudeildirnar gera tilboð í verk til jafns við utanhúss fyrirtæki.

Dagskrá Channel Four þykir með því besta sem boðið er uppá í sjónvarpi almennt. Stöðin hefur haft forgöngu um nýjungar og ferska hugsun í flestum geirum dagskrárgerðar, heimildamyndum, skemmtiþáttum, menningarefni, fréttatengdu efni og síðast en ekki síst leiknu efni. Sem dæmi má nefna að hún hefur nær einsömul haldið breskri bíómyndagerð á floti í vel á annan áratug. Kvikmyndir sem ekki hefðu orðið til nema fyrir atbeina Channel Four eru meðal annars My Beautiful Laundrette eftir Stephen Frears, Mona Lisa og The Crying Game eftir Nei Jordan, Naked eftir Mike Leigh, Raining Stones og Land and Freedom eftir Ken Loach, Peter’s Friends eftir Kenneth Branagh og Four Weddings and a Funeral eftir Mike Newell. Af sjónvarpsþáttum sem vakið hafa mikla athygli á liðnum árum má nefna GBH, The Camomile Lawn, Tales of the City, The Rector’s Wife og Lipstick on your Collar. Ættu sjónvarpsáhorfendur að kannast við þessa þætti því allir hafa þeir verið sýndir á íslensku sjónvarpsstöðvunum.

Dagskrárgerðin er byggð á útnefningum (commissions). Þrjár dagskrárdeildir, lista- og skemmtideild, fréttadeild og leiklistardeild, útnefna ákveðna aðila til að vinna verkin. Í fjölmörgum tilvikum koma sjálfstæðir framleiðendur með hugmyndir til stöðvarinnar, sem síðan velur úr. Hver deild ræður yfir ákveðnu fjármagni og plássi í dagskránni. Verktakarnir eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá manni með símsvara uppí risafyrirtæki. Að meðaltali eru um 600 fyrirtæki sem vinna dagskrárefni fyrir stöðina á hverju ári. Channel Four hefur því átt einna stærstan þátt í örum vexti og fjölbreytileika sjálfstæðra framleiðenda í Bretlandi – og raunar víðar.

Íslenskt efni í íslensku sjónvarpi
Þjóðin þráir íslenskt efni, sérstaklega leikið. Um það vitna til dæmis móttökurnar á sjónvarpsþáttum Þráins Bertelssonar Sigla himinfley, sem þrátt fyrir neikvæð viðbrögð gagnrýnenda nutu gríðarlegra vinsælda meðal almennings. Óskandi væri að yfirmenn Ríkisútvarpsins, þar með talin stjórnvöld, hlýddu kalli nýrra tíma og færu að raða verkefnunum í rétta forgangsröð. Íslenskt efni í íslensku sjónvarpi hlýtur að vera þar efst á blaði. Að öðrum kosti verður hátíðahaldanna í tilefni þrjátíu ára afmælis Sjónvarpsins brátt minnst sem nokkurskonar kistulagningar. Jarðarförin verður þá væntanlega auglýst stuttu síðar.

One thought on “Hvað bíður Sjónvarpsins?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s