En hvenær eru jólin?

(Skrifað 28.01.1999 fyrir DV í tilefni "kvikmyndahátíðarinnar" Vetrarvinda í Háskólabíói og Regnboganum.)

Háskólabíó og Regnboginn endurtaka nú leikinn frá því í vor þegar þessi kvikmyndahús söfnuðu saman nokkrum athyglisverðum myndum, þar af tveimur snilldarverkum, sýndu hverja mynd í nokkra daga í senn og kölluðu uppátækið Vorvinda. Báru þar hæst The Sweet Hereafter eftir hinn kanadíska Atom Egoyan (sennilega besta mynd ársins – ef ekki það sem af er áratugnum) og Keimur af kirsuberi eftir Abbas Kioristami frá Íran, sem hlaut Gullpálmann í Cannes í fyrra.

Að þessu sinni blása Vetrarvindar um sali. Boðið er uppá sex myndir á þremur vikum og verður hver mynd sýnd viku í senn. Nafngiftin er ágæt sem og framtakið, því þessar myndir koma eins ferskur andblær inní þá einsleitu kvikmyndaflóru sem haldið er að okkur. Hinsvegar verður að setja spurningamerki við þá stefnu að safna þessum myndum saman undir einn hatt og sýna í örfáa daga. Afleiðingin er sú að til verður nokkurskonar "ghetto" annarskonar kvikmynda en frá Hollywood í stað þess að þær séu eðlilegur hluti af okkar kvikmyndalandslagi. Jú, víst er á þessu hátíðarblær og þetta er ágætis stikkprufa af nýlegum myndum en um leið er deginum ljósara að bíóin eru að dagskrársetja þessar myndir inní tíma þar sem bíóaðsókn er í lágmarki. Undirliggjandi skilaboð kvikmyndahúsanna virðast því vera að þessar myndir fái hvort eð er enga aðsókn og því sé best að koma þeim út á dauðum tíma og fá svolítinn menningarstimpil í leiðinni. Í versta tilfelli gerir svo almenningur samasemmerki milli menningar og leiðinda svo úr verður vítahringur sem erfitt er að brjótast úr.

Aðstandendur Vetrarvinda lofa reglulegu framhaldi á svona sýningum og í raun er erfitt að vera annað en þakklátur fyrir að þessi kvikmyndahús sýni þó alltént einhverja viðleitni. Málið er bara að sýningar á myndum frá sem flestum löndum þurfa að vera í gangi árið um kring. Við förum þjóða oftast í bíó og spurningin er hvort virkilega sé ekki hægt að markaðssetja stöðugt streymi af bíómyndum af þessu tagi. Til er ákveðinn hópur sem vill fjölbreytni og hann er hægt að stækka ef vilji og hugvit er fyrir hendi. Hægt er að sjá fyrir sér einn til tvo sali, eða hreinlega sérstakt kvikmyndahús, sem myndi sérhæfa sig í öðruvísi bíómyndum. Þar væri hugguleg aðkoma, kaffihús, myndbönd og DVD til sölu og fleira. Svona bíó gæti fleytt rjómann af hinni "óháðu" bandarísku kvikmyndagerð, gefið okkur innsýn í þann kraft sem nú einkennir breska kvikmyndagerð, boðið uppá reglulegar sýningar á frönsku bíói (bæði gömlu og nýju), sýnt okkur þverskurð af alþjóðlegum myndum sem fara sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins og komið höndum yfir endurútgáfur klassískra mynda sem alltaf dúkka upp með jöfnu millibili (dæmi um nýlegar endursýningar: Lawrence of Arabia, Spartacus, It's a Wonderful Life, Galdrakarlinn í Oz, The Philadelphia Story). Ennfremur er kominn tími á að endursýna reglulega vel valdar myndir úr íslenskri kvikmyndasögu, til dæmis tuttugu ára og eldri, samanber sýningar á Morðsögu í fyrra í Háskólabíói. Á næstu þremur, fjórum árum munu til dæmis Land og synir, Óðal feðranna og Með allt á hreinu halda uppá tuttugu ára afmælið.

Svona kvikmyndahús þyrfti að stofna til með sterkri sýn og drifkrafti, ekki óskyldum þeim sem Árni Samúelsson sýndi á sínum tíma þegar hann reif íslenska bíómenningu úr huggulegu steinaldarfyrirkomulagi yfir í nútímann, með heimsfrumsýningum á Íslandi og tilheyrandi glamúr. Kjarni áhorfendanna kæmi úr hópi áhugamanna um kvikmyndalistina en ekki er ástæða til að efast um að sá hópur myndi fljótt stækka ef að þessu yrði staðið af myndarbrag. Ég treysti fyllilega fagfólki á sviði kvikmyndahúsarekstrar til að útfæra nánar þessa hugmynd, sem á sér ágætar fyrirmyndir til dæmis í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Þá væri nú gaman. Þá þyrfti ekki lengur að tala um mismunandi árstíðavinda. Þá myndi maður halda uppá jólin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s