Dæmigerð umræða

(Skrifað 14.10.2001: Þriðja greinin í "ritdeilu" um verðlaunaljósmyndina Baldur. Ég nennti reyndar ekki að senda hana inn… Sjá einnig "Myndir þýða eitthvað" og "Að höggva sig í fótinn".)

Á annarri síðu síðustu Lesbókar birtist klausa úr grein Þórunnar Sigurðardóttur í nýjasta hefti tmm þar sem hún leggur orð í belg varðandi umræðu um “Baldur” verðlaunaljósmynd Ara Magg. Ég hóf þessa umræðu á síðum tmm nú í vor en hafði ekki hugsað mér að svara Þórunni, þrátt fyrir ýmis kyndug ummæli hennar enda fannst mér umræðan komin útí hefðbundið íslenskt fjas um aukaatriði og útúrsnúninga. Hafði ég og tilkynnt ritstjóra tmm þá ákvörðun mína. Þegar brot úr grein hennar birtist svo skýringalaust í Lesbók allra landsmanna líkt og einhver endanleg samantekt um málið, finn ég mig knúinn til að gera nokkrar athugasemdir.

Þórunn segir að “ef til vill var sýningin [Baldur] heldur stór í brotinu fyrir okkar smágerða íslenska samfélag og fyrir þá oft fábreyttu umræðu sem hér fer fram um menningarviðburði.” Og stuttu síðar: “…það er dæmigert að það sem lengst lifir í umræðunni sé hvers vegna í ósköpunum menn hafi látið sér detta í hug að sækja fagurfræði kynningarmyndarinnar fyrir Baldur beina leið í skóla Leni Riefenstahl…”
Þetta kallast að snúa hlutunum á haus. Það er alveg laukrétt hjá Þórunni að íslensk menningarumræða getur verið fábreytt á stundum. Ef eitthvað er hinsvegar dæmigert þá er það að telja fólki trú um að þessi hugleiðing mín um hin margræðu tengsl fagurfræði og merkingar sé hluti þeirrar fábreyttu umræðu. Það er líka dæmigert að kvarta yfir því að ekki skuli rætt um hinn merka menningarviðburð heldur kynningarljósmyndina; að hvergi skuli minnst á eplin í umræðunni um appelsínurnar. Þetta er nefnilega sú dæmigerða íslenska taktík að koma með klisjur og útúrsnúninga þegar þörf er á að ræða athyglisverð mál. Þannig sannar Þórunn á sjálfri sér fullyrðinguna um fábreytni íslenskrar menningarumræðu. Í greininni í tmm virðist hún sömuleiðis varla vita í hvorn fótinn hún á að stíga, því a.m.k. þrisvar segir hún þessa umræðu einnig mjög áhugaverða!

Mér hefði þótt spennandi að fá fram frekari umræðu um tengsl fagurfræði og merkingar í sköpun. Í þeim efnum eru ekki til nein einföld svör en hinsvegar vakna margar áhugaverðar spurningar. Í staðinn stökkva menn til varnar ljósmyndaranum, skamma mig fyrir að vera vondur við hann og segja mig væna hann um nasistadekur. Klassísk íslensk umræðuaðferð.

Annað dæmi um fábreytta menningarumræðu er að finna í 1. tbl. tímaritsins Fálkans, þar sem eftirfarandi er haft eftir Ara Magg: “Þetta er umtalaðasta ljósmynd sem ég hef tekið. Um hana hafa verið skrifaðar bæði blaða- og tímaritsgreinar. Sumir hafa gert mér upp skoðanir og sakað mig um nasistaáróður, að upphefja nasismann og nota fagurfræði nasista. Ég er enginn hálfviti. Ég myndi aldrei upphefja nasismann. Ekkert er fjær mér. Mér leið eins og ofsóttum listamönnum leið ef til vill í Þýskalandi á nasistatímanum eða í Sovétríkjunum gömlu. Þetta var eins og hörð ritskoðun.”

Það er eitt að vorkenna sjálfum sér en annað og alvarlegra að gera raunverulegar þjáningar þúsunda manna að merkingarleysu. Ef Ari Magg er ofsóttur listamaður hlýt ég að vera Stalín.

Ljósmyndin sem slík er vel heppnuð, um það þarf ekki að deila. Hinsvegar vakti hún hjá mér óþægindatilfinningu og ég veit að svo var um fleiri. Það er sannfæring mín að fólk eigi að tjá sig um slíkar upplifanir, ekki síst til að víkka umræðu um hugmyndir, aðferðir og nálgun í íslensku menningarlífi.

Ég spyr því: þegar horft er á það samhengi sem umrædd ljósmynd birtist í (kynning á verki byggðu á norrænni goðafræði, eftir Jón Leifs), er hugsanlegt að það hafi einmitt verið þessi fábreytta hugsun sem þjakar íslenskt menningarlíf sem hafi valdið því að hún varð fyrir valinu frekar en einhver önnur?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s