Að stökkva út úr skugganum

(Birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 10.6.1995.)

-hugleiðing um evrópskar kvikmyndir

Stundum þegar erlend fagtímarit um kvikmyndir fjalla um evrópskar kvikmyndir er tekið svo til orða að einhver tiltekin mynd sitji gikkföst í kvikmyndahátíðarleðjunni ("stuck in the festival ghetto"). Þá er átt við að myndin hafi ef til vill hlotið jákvæða dóma gagnrýnenda víða um lönd og fengið sinn skammt af verðlaunum á hinum og þessum hátíðum, en hafi að öðru leyti farið fyrir ofan garð og neðan hjá öllum almenningi. Á meðan Hollywood hefur tekist að selja heiminum goðsögnina um sjálfa sig með öllu sem í því felst, hafa evrópskar kvikmyndir lengi vel átt í varnarstríði. Stór hluti fjölmiðla mælir velgengni í aðsókn og mótar þannig afstöðu almennings. Í krafti öflugrar markaðssetningar og aðgangs að yfirgnæfandi meirihluta kvikmyndahúsa í Evrópu valtar Hollywood yfir evrópskar kvikmyndir sem yfirleitt eru gerðar á öðrum forsendum. Hollywood er alþjóðlegt tákn fyrir skemmtun og afþreyingu meðan evrópskar myndir eru ríkisrekin fyrirbæri, klyfjaðar ákveðnu "framfærsluhugarfari" og hafa ekki endilega skemmtisjónarmiðið í hávegum. Þetta er auðvitað einföldun en staðreyndin er sú að evrópskar kvikmyndir eru frekar aftarlega í huga hins breiða fjölda. Um Hollywood gegnir öðru máli. Gott dæmi er kvikmyndin "Forrest Gump" sem farið hefur sigurför um gervallan heiminn. Myndin fleytir kerlingar á yfirborði bandarískrar sögu síðustu áratuga. Spyrja má hversvegna heimsbyggðin sýnir slíku viðfangsefni þennan áhuga. Svarið felst meðal annars í því að heimsmynd okkar hefur ekki síst mótast af amerískum kvikmyndum, Ameríka er heimurinn í smásjá, en um leið goðsögnin um fyrirheitna landið.

Nú er ekkert í bandarískri menningu sem gefur þarlendum yfirburði yfir aðra í því að segja sögur. Munurinn felst í því að Bandaríkjamenn hafa aldrei tekið kvikmyndir sérlega alvarlega, þ.e. lyft þeim uppá stall. Fyrir þeim er þetta fyrst og fremst bisness. Evrópa er aftur á móti að kikna undan eigin menningarsögu. Í skugga hennar finna menn sig smáa en dreymir jafnframt stóra drauma, því til mikils er að vinna.

Eða hvað?

Í GATT-lotunni sem lauk fyrir rúmu ári tókst Evrópumönnum, með Frakka í broddi fylkingar, að halda kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum utan við afnám hafta og kvóta. Í raun er ekki vanþörf á, bandarískar kvikmyndir hafa yfirburðastöðu á evrópskum markaði. Raunveruleg hætta er á því að Hollywood beinlínis leggi af evrópska kvikmyndagerð innan skamms tíma. Slíkt yrði Hollywood síst til góðs, þar sem evrópskar kvikmyndir hafa alltaf veitt ferskum straumum þangað. En höft eru, hvort sem okkur líkar betur eða verr, aðferðir liðins tíma og aðeins tímaspursmál hvenær varnargarðarnir bresta. Eitthvað verður að taka til bragðs og dettur manni í hug máltækið um manninn sem tókst ekki að sigra óvin sinn, svo hann ákvað að slást í lið með honum.

Hér er ekki verið að mæla því bót að evrópumenn geri kvikmyndir í Hollywoodstíl. Til þess höfum við hvorki forsendur né upplag. Hitt er deginum ljósara að við þurfum að hætta að taka okkur svona alvarlega. Elítísk viðhorf eru sjúkdómseinkenni, krabbamein í evrópskri kvikmyndagerð nútímans eins og Quentin Tarantino komst að orði um daginn. Tarantino sjálfur er gott dæmi um bandarískan kvikmyndagerðarmann undir sterkum evrópskum áhrifum. Yfir myndum hans svífur andi Godards, brautryðjandans sem reif kvikmyndina útúr hugmyndaheimi nítjándu aldar yfir í óreiðu og óvissu þeirrar tuttugustu. En jafnframt er Tarantino alveg ófeiminn að velta sér uppúr hraðsoðinni sullmenningu amerískri, þ.e. þessari sem smátt og smátt er að verða okkar allra, eins og hamingjusamur grís. Tarantino hefur reyndar orðið fyrir þeirri óheppni að vera tekinn í guðatölu en vonandi tekst honum að hrista það af sér, gefa dauðann og djöfulinn í þær kröfur sem gerðar eru til dýrlinga og vera áfram skæruliði og byltingarmaður.

Í Evrópu eru ár hvert framleidd kynstrin öll af kvikmyndum. Þannig unga Þjóðverjar og Ítalir út um hundrað myndum hvor þjóðin um sig, Frakkar gera vel á annað hundrað, Bretar reyna að klóra í bakkann með tæplega hálfu hundraði, Norðurlandaþjóðirnar samanlagðar gera eitthvað álíka og Bretar og þannig mætti halda áfram. En af ýmsum ástæðum hafa evrópskar kvikmyndir aðeins um 10% markaðshlutdeild á eigin markaði, mest fyrir hlut Frakka og stöðugt þrengir að. Nú er ég ekki að segja að markaðurinn sé upphaf og endir alls, en þetta getur ekki talist gott mál. Almenningur lætur sig vanta á evrópskar myndir, þrátt fyrir að borga brúsann að stórum hluta. Þegar áhugamenn um meðferð opinbers fjár brúka munn varðandi þessi mál er viðkvæðið jafnan að mynda þurfi mótvægi gegn yfirþyrmandi áhrifum Hollywood. Þetta er í sjálfu sér ágæt röksemd og á fullan rétt á sér. Það er alveg óþarfi að leyfa Hollywood að bjóða uppá hinn lægsta almenna samnefnara í friði. En þessari röksemd má líkja við lyfjagjöf í stað þess að stunda fyrirbyggjandi aðgerðir. Þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem vilja "lækna" alþýðuna er mótefnið í veikara lagi og hefur vart sýnileg áhrif. Við lifum í heimi þar sem skilin milli svokallaðrar hámenningar og lágmenningar eru að hverfa, en of margar þessara mynda eru gerðar til að geðjast fámennum hópi sem hefur upphafnar hugmyndir um inntak menningar.

Evrópsk kvikmyndagerð er eins og leikari sem ráðinn hefur verið í rangt hlutverk. Jaðarkvikmyndagerð í hlutverki meginstraumsins án þess að hafa réttu eiginleikana til að valda því. Verkefnavalsstjóri hjá bresku sjónvarpsstöðinni Channel Four, sem nú framleiðir meirihluta breskra bíómynda, lýsti því þannig fyrir mér að þeir hefðu byrjað að framleiða bíómyndir til að styðja við "öðruvísi" kvikmyndir, jaðarmyndir. Þeir eru aldeilis ekki hættir því en vandamálið er að það er nær enginn sem gerir meginstraumsmyndir í Evrópu. Þar af leiðandi hefur þeim verið þrýst í stöðu sem alls ekki samræmist þeirra stefnu. Meira að segja hefðbundin meginstraumsmynd eins og "Four Weddings and a Funeral" komst ekki á koppinn fyrr en Channel Four hafði dregið upp heftið. Frakkar eru undanskildir en jafnvel meginstraumsmyndir þeirra eru skilgreindar sem jaðarmyndir þegar út fyrir Frakkland er komið. Það er eitthvað bogið við þetta, því ekki er Hollywood að endurgera þessar myndir á sína vísu af einskærum listrænum áhuga. Samkvæmt skilgreiningu eru jaðarmyndir í jaðrinum vegna þess að þær bjóða uppá annarskonar sýn, róttækari viðhorf. En hvað er að gerast þegar menn eins og Kieslowski, Almodovar og Bertolucci eru fulltrúar hins evrópska meginstraums?

Við þurfum á allri flórunni að halda. Við þurfum líka kvikmyndagerðarmenn semvilja ná til hins breiða fjölda. Fólksins sem vill sitt popp og kók refjalaust þegar það fer í bíó. Auðvitað er fjölbreytni lykilatriði sem og eilífur vilji til að kanna nýjar slóðir, en jafnframt er þörf að minnast þess að það er löngu búið að finna upp hjólið og alveg sjálfsagt að nota það.

Hugmyndafræði Hollywoodkvikmynda gengur útá að ná til sem flestra. Peningasjónarmiðið er auðvitað stór partur af því dæmi en fleira býr undir. Á fyrri hluta aldarinnar þótti brautryðjendum á borð við D.W. Griffith, Charlie Chaplin, John Ford og Alfred Hitchcock engin skömm að því að myndir þeirra græddu peninga en fyrir þeim vakti fyrst og fremst að segja vel frá. Þeir voru sögumenn. Þannig lýsti Chaplin því yfir eitt sinn að hann hefði farið að gera kvikmyndir vegna peninganna en útkoman hefði alveg óvart orðið fagurfræðilega skítsæmileg. John Ford fussaði og sveiaði þegar frönsku auteuristarnir vildu kalla hann höfund þeirra mynda sem hann leikstýrði, hann leit á sig eingöngu sem handverksmann. Og þegar Truffaut beindi talinu að Psycho í hinni frægu viðtalsbók sinni við Hitchcock hafði hinn síðarnefndi mestan áhuga á þeirri staðreynd að mynd hans hafði tekið inn 15 milljónir dollara en aðeins kostað 800 þúsund dollara og vildi fá Truffaut til að leika sama leik. Þegar skyggnst er undir yfirborð þessara ummæla koma í ljós tiltölulega jarðbundin viðhorf til kvikmyndarinnar sem fyrirbrigðis. Í annan stað má nefna að meðal þeirra sem tóku virkan þátt í að móta frásagnarstíl Hollywood kvikmynda voru evrópskir innflytjendur, Billy Wilder, Fritz Lang, Otto Preminger og fleiri. Þeir tóku með sér hinn evrópska arf og aðlöguðu hann að Hollywood. Uppúr því spratt meðal annars film noir stíllinn í kvikmyndagerð sem breytti ásjónu bandarískrar kvikmyndagerðar í átt til aukinnar sjálfsskoðunar og vangaveltna um rétt og rangt í nýjum heimi eftirstríðsáranna. Þessir frumherjar vildu gera myndir fyrir hinn breiða fjölda og litu svo á að galdurinn við góða kvikmynd fælist í samruna mismunandi markmiða.

Af menningarsögulegum ástæðum þróaðist evrópsk kvikmyndagerð á svolítið öðrum nótum. Vissulega var rekinn þar kvikmyndaiðnaður, sem meðal annars fóstraði ýmsa af meisturunum s.s. Bergman, Lean, Stiller og Renoir ásamt mörgum minni spámönnum. En þar spruttu líka upp menn eins og Murnau, Bunuel, Vigo og Dreyer; og síðar De Sica, Rossellini, Fellini, Visconti og Bresson; þá franska nýbylgjan með Godard, Chabrol og Truffaut; og ítalskir kollegar þeirra á borð við Bertolucci, Antonioni og Pasolini. Þetta er glæsilegur en langt í frá tæmandi listi höfunda, manna sem urðu eiginlega að sjálfstæðum batteríum, helgimyndum í menningarlandslagi Evrópu. Höfundakenningin fræga (auteurism), sem fram kom á sjötta áratugnum en hafði í raun verið praktíseruð alla tíð í Evrópu, gerði ráð fyrir því að leikstjórinn væri höfundur sinnar myndar, þrátt fyrir framlag handritshöfundar, framleiðanda og annarra. Hún hefur svo sannarlega haft gífurleg áhrif á viðhorf til kvikmyndagerðar og hefur nokkurnveginn verið hið viðtekna viðhorf í Evrópu og víðar – andsvar gegn draumaverksmiðjunni Hollywood. Þessi annars ágæta kenning er því miður löngu orðin útvötnuð, nokkurskonar smokkur á frjóa hugsun í kvikmyndagerð. Vinsældir hennar eru skiljanlegar þar sem þetta er afskaplega rómantísk hugmynd, höfundurinn, stjórnandinn, fær að vera Guð og skapa veröld á eigin forsendum. Vissulega hafa margar góðar myndir verið gerðar eftir forskrift hennar en því miður miklu fleiri vondar sem eiga lítið erindi við aðra en nafla viðkomandi. Og það virðist til dæmis alveg hafa gleymst að kenningasmiðirnir, hinir ungu og spræku gagnrýnendur franska kvikmyndatímaritsins Cahiers du Cinema, sem seinna urðu upphafsmenn frönsku nýbylgjunnar, mátuðu þessa hugmynd sína við meginstraumsmyndir Hollywood að stórum hluta. Hetjur þeirra voru Hitchcock, Ford, Hawks, Wyler, Welles og fleiri máttarstólpar Hollywood. Áhugi þeirra og hrifning á bandarískum kvikmyndum var afar mikil og þær höfðu sterk áhrif á myndir þeirra, sem voru andsvar, rökræður, þróun.
Það er efni í nýja grein að fjalla um aðrar þær hindranir sem evrópsk kvikmyndagerð þarf að stökkva yfir til að láta taka betur eftir sér. Bera þar hæst dreifingarvandamál og tungumálamúrar. Vandamálið við evrópskar kvikmyndir er fyrst og fremst það að alltof fáir sjá þær. Í staðinn er smekkur evrópskra áhorfenda mótaður að hætti Hollywood. Stöðugt er hamrað á mikilvægi þess að evrópumenn kannist við sinn eigin veruleika og ímyndun á hvíta tjaldinu en þeir virðast því miður hafa takmarkaðan áhuga á því sem í boði er. Þessu verður að breyta og það verður ekki gert með því að sofa í skugganum og dreyma fallega. Þá er betra að stökkva út úr honum og fá sólsting.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s