Að höggva sig í fótinn

16.06.2001: Önnur grein af þremur í "ritdeilunni" um verðlaunaljósmyndina Baldur. Sjá einnig "Myndir þýða eitthvað" og "Dæmigerð umræða". Birtist í tmm 2001.)

– um Ragnar Halldórsson, Ara Magg og Leni Riefenstahl

Ragnar Halldórsson kvikmyndagerðarmaður gerir mér upp ótrúlegustu skoðanir í síðasta tölublaði tmm, þegar hann skrifar andsvar við grein minni “Myndir þýða eitthvað” sem birtist í aprílhefti tmm. Þannig telur hann mig vilja hefta sköpunarfrelsi listamanna, sakar mig um sleggjudóma, ruddaskap og ósanngirni gagnvart ljósmyndaranum Ara Magg og þekkingar- og virðingarleysi gagnvart finnskum ballettdönsurum. Eftir all ljóðrænan inngang um töfra listarinnar segir Ragnar: “Niðurstaða Ásgríms virðist vera sú að í fyrsta lagi megi ekki líta út eins og dæmigerður “aríi”. Í öðru lagi að banna skuli ljósmyndir af fólki sem hefur dæmigert norrænt útlit. Og í þriðja lagi að banna skuli að beita fagurfræði í ljósmyndum sem minna á mótíf nasista.”

Ljótt ef satt er.

Samkvæmt þessu virðist ég hafa tekið mér úrskurðarvald um hvað teljist leyfilegt, ekki bara í listum, heldur líka hvað varðar útlit manna.

Slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Það er alltaf svolítið hjákátlegt að sjá menn skeiða fram á ritvöllinn með hvasst stílvopnið mundað, höggva á báða bóga og þyrla upp miklu moldviðri en verða þess svo áskynja þegar rykið sest að riddarinn hugumstóri er ataður eigin bleki og hefur aðeins tekist að höggva sjálfan sig í fótinn. Hversvegna Ragnar kýs að gera mér upp fasískar skoðanir hvað eftir annað í grein sinni er ofar mínum skilningi en kaldhæðnislegt er að það minnir helst á aðferðir Hitlers og Goebbels sem héldu því fram að ef lygin væri nógu stór og nógu oft endurtekin, gleypti fólk við henni. Allt er þetta nefnilega með ólíkindum og útí hött, innantómar upphrópanir sem gera aðeins lítið úr þeim sem ber þær fram. Ekki minnkar tómahljóðið þegar hann segir að “við þurfum að taka hugmyndir 20. aldar, ekki síst þær sem mótuðu hana svo mjög og setja þær á byrjunarreit.” Hvað er það við nasismann sem setja þarf á byrjunarreit? Telur Ragnar að ekki sé fullreynt með þessa hugmyndafræði? Að gera megi betur á nýrri öld?

Að slá sér upp á ódýrum brellum eins og að gefa í skyn að ég vilji “myndabrennur” lýsir frekar fátæklegum skilningi á mikilvægi gagnrýninnar umræðu. Slík umræða þrífst á skoðanaskiptum, vangaveltum og spurningum, ekki á einfeldningslegum slagorðum eða fáfengilegum klisjum. Henni er beint gegn kyrrstöðu og skeytingarleysi. Í þessu sambandi er oft talað um að “í góðsemi vegi menn hvern annan.” Menn takast á vegna þess að þeir skilja að átök um hugmyndir, nálgun, markmið og leiðir eru hreyfiafl framsækins samfélags, skilja að mikilvægara er að spyrja áleitinna spurninga en búa við einföld svör.

Þessi hugsun virðist Ragnari ókunn. Þess í stað eys hann úr skálum vandlætingarinnar og setur fram yfirlætislegar staðhæfingar um hvernig skuli umgangast list. Dæmi: “Listaverk vekja oft spurningar og fela í sér flóknar skírskotanir sem getur verið vandasamt að túlka og skilgreina. Það getur enginn heimtað, hvorki af listamönnum né öðrum, að slíkum spurningum sé svarað”. Takk fyrir það. Hann virðist þó treysta sjálfum sér fyllilega til að inna það vandasama verk af hendi, því hann vílar ekki fyrir sér að birta ítarlega listrýni á myndina í all löngu máli og dregur hvergi af sér í túlkun og ályktunum.

Á öðrum stað segir hann föðurlega: “Áhorfandinn þarf að skoða hug sinn vel og líka listaverkið áður en hann setur sig í dómarasæti og byrjar að búa til langan lista órökstuddra fullyrðinga um það”. Guðlaun. Hverjar eru svo hinar órökstuddu fullyrðingar mínar? Að umrædd ljósmynd vísi í myndmál nasismans? Samanburður vekur vissulega upp slíkar hugrenningar. Fleiri en ég hafa bent á þau tengsl í fjölmiðlum, t.d. listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Ekki þarf heldur að rýna lengi í aðra mynd Ara, sem kjörin var “tískuljósmynd ársins” til að sjá vísanir í sama myndheim. Ljósmyndaranum eru þessi mótíf greinilega hugleikin, alveg sama hversu mikið Ragnari finnst það langsótt. Mér finnst einfaldlega full ástæða til þess að velta því upp hvernig hann setur þau fram. Það þýðir ekki að ég vilji sjá hann bannfærðan.

Einnig segi ég síðar: “Myndir þýða eitthvað, færa okkur vísanir, samhengi, hugrenningatengsl, minningar og svo framvegis. Þessvegna geta myndsmiðir ekki flúið ábyrgð sína, frekar en þeir sem tjá sig í töluðu eða rituðu máli. Þeir geta ekki falið sig á bakvið fagurfræðina sem slíka, því hún er aldrei án einhverskonar merkingar – sérstaklega ekki í þessu tilfelli.”

Stend frómt frá sagt við hvern staf. Listamaðurinn ber fulla ábyrgð á því hvernig hann vinnur úr efnivið sínum og ber útkomuna fram fyrir aðra. Hann er ekki stikkfrí frá samfélaginu, heldur ábyrgur gerða sinna líkt og hver annar. Ef viðtakandi verksins er ósáttur við hvernig það er sett fram hefur hann fullan rétt til að gera athugasemdir. Öll mannanna verk fela í sér einhverskonar afstöðu til tilverunnar. Í kvikmyndanámi mínu var það viðhorf lagt til grundvallar að myndir hafi merkingu og fjölbreytilegt samhengi, að við ættum að leitast við að vera meðvituð um hvaða áhrif framsetning þeirra hefði á áhorfandann. Nú veit ég ekki hvaða fræði Ragnar hefur numið en óneitanlega væri fróðlegt að heyra hvort þau stönguðust á við þessi viðhorf.

Einnig fullyrði ég í greininni að Leni Riefenstahl sé mikill listamaður og hlýt í því sambandi að benda á myndir hennar máli mínu til stuðnings. Ég bendi einnig á að “ekki sé hægt að horfa framhjá því að þær tengjast náið einhverjum mestu glæpamönnum veraldarsögunnar og hugmyndafræði þeirra. Af þeim sökum ber að feta varlega þann stíg sem liggur að smiðju hennar og vera með það alveg á hreinu hversvegna förinni er þangað heitið.” Semsagt, aftur hnykki ég á því að listamaðurinn er ekki pólitískt stikkfrí, þrátt fyrir mikla listræna hæfileika. Þegar ég svo spyr hvort ljósmyndaranum leyfist að valsa um listasöguna og fá hitt og þetta lánað sem honum finnst smart, án tillits til þess samhengis sem slík verk voru gerð í og án tillits til þess sögulega samhengis sem viðfangsefnið er í, er ég að sjálfsögðu ekki að hvetja til skerðingar tjáningarfrelsis heldur vísa í þær spurningar sem hver skapandi manneskja þarf að glíma við innra með sér. Mér finnst einfaldlega ekki sjálfgefið að listamenn leyfi sjálfum sér að bera á borð verk þrungin vísunum í pólitík kynþáttahaturs, mannfyrirlitningar og alræðis, þar sem afstaða þeirra til slíkra hugmynda er ekki ljós, því hér er ekki verið að vinna abstrakt heldur daðra við þekktar hápólitískar ímyndir með sterka skírskotun. Það þýðir ekki að ég sé að kalla eftir reglugerðum.

Þegar svo hið sögulega samhengi viðfangsefnis Ara Magg er haft í huga, bæði hvað varðar efnivið og höfund verksins, er ljósmyndarinn kominn útá hálan ís. Í slíku háttalagi felst engin ögrun eða hugdirfska, aðeins sinnuleysi þess sem ekki gáir hvar hann gengur.

Ragnar hinsvegar svarar þessum spurningum afdráttarlaust játandi. Hann segir einnig að “andlegt frelsi listamannsins og athafnafrelsi hans á að sjálfsögðu að vera eins óskorað og frekast er unnt.” Einmitt. En ekki hvað? Af einhverjum ástæðum minnist Ragnar ekkert á hina hlið peningsins; hvað er frelsi án ábyrgðar? Kannski er það vegna þess hve gagnrýnislausum augum hann horfir á “tískuljósmyndun nútímans”. Í greiningu hans á þeim heimi er ekki að finna örðu efasemda um verklag og efnislega framsetningu, þvert á móti virðist Ragnar telja að þaðan rísi sólin, þaðan blási vindurinn og þar búi guðirnir sem hreyfa mennina eftir dyntum sínum. Og allt sé í sómanum með það.

Ég er annarrar skoðunar. Úrbeining tískubransans verður þó að bíða betri tíma.

Í títtnefndum pistli er ég fyrst og fremst að varpa fram spurningum og vangaveltum um tengsl fagurfræði og merkingar. Að banna skuli listamönnum eitthvað minnist ég hvergi á, enda fjarri mínum þankagangi. Að “stela” frá öðrum – eða verða fyrir áhrifum er hið besta mál og sjálfsagður hluti af listsköpun enda er hvergi mælt gegn því í grein minni. Hinsvegar má að sjálfsögðu setja spurningamerki við hvernig það er gert.

Ari Magg er um ýmislegt athyglisverður ljósmyndari. Til manna sem sýna hæfileika á að gera kröfur. Þeim er enginn greiði gerður með því að lognmolla mærðarinnar ríki um verk þeirra. Þvert á móti þrífast slíkir menn best í dýnamísku umhverfi sem hikar ekki við að ögra þeim. Slíkt er yfirleitt hvetjandi fyrir ungt listafólk. Vera kann að Ari Magg skilji þetta. Hvort Ragnar geri það er hinsvegar meiri spurning. Hann virðist hrifnari af heimi kyrrstöðu, vandlætingar og rangtúlkana. Ég bið honum samt blessunar í hvívetna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s