ImageSko, þetta Man of Steel dæmi er fyrst og fremst endurupphituð súpa sem að vísu þarf ekki endilega að vera svo vont. Ýmislegt er fallega gert cinematískt en það vantar að láta Súpermann snúa jörðinni afturábak til að bjarga konunni sem hann elskar (sjá einnig Timecop með Jean-Claude Van Damme). Semsagt; mýkt og húmor vantar – þetta rómantíska, óörugga og hálf kjánalega element í myndina sem gerir karakterinn pínu hrífandi. Byrjunarkaflinn er fínn en svo verður þetta bara að slagsmálum milli Súpermanns og Zod. Þar er margt um skapandi eyðilegginguna sem er fínt – en ég hefði viljað meiri rómans. Það örlar aðeins á því í einni senu en svo ekki meir.

Hinsvegar þykir mér lítið til tónlistar Hans Zimmer koma (og á það almennt við), hann er blátt áfram skelfilegt tónskáld, sálarlaus glamrari að mestu (ókei Gladiator temað var sæmilegt en yfirpródúserað eins og flest sem frá manninum kemur).

Það sem málið snýst um er útlegging mýtunnar sjálfrar; til hvers er hann, um hvað snýst hann? Í gömlu Reeve myndinni varar Brando son sinn við að gera of mikið fyrir mennina því þá muni þeir treysta um of á hann og tapa frumkvæði, Costner fer með sambærilega ræðu í nýju myndinni en hún snýst meira um að halda sig til hlés til að vera ekki utanveltu í mannfélaginu. Þó er í gömlu myndinni mun meira lagt uppúr „mannlegum“ eiginleikum Superman, þrá hans eftir samsömun og þess háttar. Þetta gerir hann mun sympatískari og áhugaverðari. Cavill er vissulega viðkunnanlegur en persónan eins og hún er skrifuð er of fjarlæg til að snerta mann nægilega.