jean-vigo-05
Jean Vigo.

Þetta var haustið 1990. Roger Crittenden aðstoðarskólastjóri National Film and Television School í Bretlandi bauð okkur nýnemana „velkomna í besta kvikmyndaskóla í heimi“ og dreif okkur síðan uppí rútu. Förinni var heitið í Renoir bíóið í Bloomsbury hverfi í London til að sjá kvikmynd eftir franska leikstjórann Jean Vigo.

Ástæðan var sú að fyrr á árinu hafði leikstjórinn Lindsay Anderson skrifað mikla ádrepu í The Times, þar sem hann velti fyrir sér hvað eiginlega væri verið að kenna í þessum National Film and Television School. Hann hafði þá nýverið rekist á nýútskrifaðan nemanda,Michael Caton-Jones (sem síðar gerði Scandal, Rob Roy og fleiri myndir) og byrjað að ræða fjálglega við hann um dásemdir Jean Vigo. Ást Andersons á Vigo var alþekkt, hann byggði meðal annars frægustu mynd sína, If… á Zero de Conduite eftir Vigo.

En andlitið datt af Lindsay þegar í ljós kom að Michael hafði aldrei heyrt á meistarann minnst. Jean who? spurði nýliðinn óforskammaður.

Við vorum semsagt látin horfa á L’Atalante, sem var dásamleg. Á eftir var tekin mynd af árganginum á tröppum bíósins. Fyrir ofan okkur var stórt skilti sem á stóð: „NOW SHOWING: L’Atalante by Jean Vigo.“ Ljósmyndin var síðan snarlega send á The Times og afrit til Anderson!

Og hér er myndin:

vigo-nfts-renoir-1990

Mig minnir reyndar að Caton-Jones hefði síðar sagst hafa verið að djóka í gamla manninum, bara svona til að æsa hann svolítið upp!

En allavega, ég var að fjárfesta í The Complete Jean Vigo, tveggja diska safni frá Artificial Eye með öllum myndum meistarans. Hlakka til að endurnýja kynnin við L’Atalante og kíkja á hinar sem ég hef ekki enn séð (sorry Lindsay).

Vigo er goðsögn í kvikmyndasögunni. Dó aðeins 29 ára (1934) og gerði aðeins fjórar myndir, þar af tvær sem taldar eru til helstu meistaraverka franskra kvikmynda (L’Atalante og Zero de Conduite).

Fín grein hér um Vigo: http://www.sensesofcinema.com/2002/great-directors/vigo/