Í dag er aðalfundur Ríkisútvarpsins ohf. Verður fróðlegt að sjá hvort útvarpsstjóri, forstjóri fyrirtækisins, verði kallaður á teppið. Varla geta Alþingi (sem skipaði stjórnina), fjármálaráðherra (sem fer með hlutabréfið eina) og menntamálaráðherra sætt sig við ákvörðun hans um að veita ekki þá þjónustu sem RÚV er uppálagt í lögum, með því að hætta að mestu kaupum á innlendu dagskrárefni.

Þó er vandséð að svo verði því stjórn fyrirtækisins virðist hafa samþykkt gjörning Páls. Hversvegna, er á huldu. Skýringar óskast.

Sérstakur skattur rennur til RÚV gegn því að stofnunin uppfylli ákveðin skilyrði sem kveðið er á um í lögum og þjónustusamningi þeim tengdum. Þau eru ekki uppfyllt.

Líkja má þessu við að fá afhentan glæsijeppa á tveimur dekkjum en vera gert að greiða fullt verð. Ákveðið var að eyða svo miklum peningum í afturdekkin að ekkert var eftir fyrir framdekkjum. Glæsijeppinn er ljómandi fallegur en notkunarmöguleikar hans takmarkaðir.

Alvarlegar athugasemdir gerðar við störf útvarpsstjóra

Menntamálaráðherra hefur gefið í skyn að hún sé ekki sátt, í viðtali við Iceland Cinema Now og Land & syni. Þar segist hún hafa efasemdir um aðgerðir útvarpsstjóra og að ljóst sé að ákvörðunin sé ekki í samræmi við þær væntingar og skilyrði sem eru sett fram í þjónustusamningi.

Þetta eru alvarlegar athugasemdir.

Skýrsla gagnrýnir útvarpsstjóra

Fleiri spjót standa á útvarpsstjóra. Í nýútkominni skýrslu starfshóps um RÚV er, auk margra athugasemda um rekstrarfyrirkomulagið, að finna verulegar efasemdir um stjórnun stofnunarinnar.

Gagnrýnt er að æðsti yfirmaður Ríkisútvarpsins lesi fréttir vegna mikilvægs hlutverks hans í hagsmunagæslu fyrir Ríkisútvarpið. Hér er verið að tala um útvarpsstjórann sem fréttaþul.

Gagnrýnt er að yfirmaður dagskrár sé einnig yfirmaður og þátttakandi í einum dagskrárlið, því það hljóti að hafa áhrif á faglega stefnumótun og umræðu um dagskrá miðilsins. Hér er verið að vísa til dagskrárstjóra, sem nýlega sagði af sér. Gagnrýnin beinist að útvarpsstjóra, sem ákvað og ber ábyrgð á þessu fyrirkomulagi.

Þá er lagt til að ráðningartími útvarpsstjóra verði tímabundinn og að starfið verði auglýst. Það sama eigi við um lykilstarfsmenn á sviði dagskrár, dagskrárstjóra hvers sviðs og fréttastjóra.

Það er afar athyglisvert að ástæða þyki til að hnykkja á öllu þessu. Þessar athugasemdir benda til að hópurinn telji nokkuð skorta á fagleg vinnubrögð hjá yfirstjórn RÚV.

Dagskráryfirlýsing útvarpsstjóra

RÚV er ekki aðeins fréttastöð. RÚV er einnig stofnun með skilgreindar menningarlegar skyldur. Það er annað jafn mikilvægt erindi. Aðgerðir útvarpsstjóra benda til að skilningi hans á þessu sé ábótavant.

Yfirlýsing Páls síðastliðinn föstudag var ekki aðeins yfirlýsing um niðurskurð. Þetta var einnig yfirlýsing um dagskráráherslur.

Hann hefur úr fjórum og hálfum milljarði að spila, þar af 2.8 milljörðum (2009) í innlenda dagskrá með öllu. Hvað gerir hann þegar skera þarf niður um aðeins 270 milljónir, en ekki  420 milljónir vegna þess hve vel rekstur RÚV stendur“ eins og hann sjálfur orðaði það? Hann velur að leggja niður nær alla viðameiri og vandaða innlenda dagskrá í sjónvarpi, heimildamyndir, leikið efni og bíómyndir.

Þetta efni fær RÚV fyrir aðeins brot af heildar dagskrárkostnaði sínum (tæplega 4%), eða aðeins 108 milljónir á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum menntamálaráðherra á fjölmennum fundi hjá VG í gærkvöldi. Sama dag kom fram í Fréttablaðinu að RÚV hefði ekki getað sundurliðað upphæðina eftir verkefnum vegna þess hve um mikla vinnu væri að ræða! Katrín upplýsti hinsvegar að hún hefði þennan lista undir höndum. Hún hefur verið beðin um að leggja hann fram.

Efnið fær RÚV fyrir aðeins örlítið brot af heildarkostnaði, sem nemur mörg hundruð milljónum. Þetta innlenda dagskrárefni er hinsvegar stór hluti af tilvistarlegri réttlætingu RÚV. Þjóðin er ekki að fá það RÚV sem lög kveða á um. Þetta er því dagskrárstjórn sem stenst ekki faglegar kröfur, né lagalegar og menningarlegar skyldur RÚV.

Rök útvarpsstjóra standast ekki

Það er afar brýnt að starfi útvarpsstjóra gegni maður sem hafi skilning á heildarhlutverki RÚV og hafi kjark til að gera það sem þarf að gera, í stað þess að nota kvikmyndagerðarmenn sem barefli í pólitík við stjórnvöld, eins og Páll hefur reynt að gera en misheppnast algerlega.

Yfirlætislegt tal útvarpsstjóra um að kvikmyndagerðarmenn ættu frekar að beina reiði sinni að stjórnvöldum vegna niðurskurðarkröfu þeirra stenst ekki. Kvikmyndagerðarmenn gera sér fyllilega grein fyrir því að niðurskurður er óhjákvæmilegur hjá þeim eins og öðrum. Þeir sætta sig hinsvegar ekki við að greinin sé skorin niður við trog af því að útvarpsstjóri kýs að líta framhjá þeim skyldum sem RÚV hefur. Þjóðin sættir sig ekki heldur við að vera svikin um það efni sem hún er að greiða fyrir.

Treysti stjórnendur RÚV sér ekki til að reka almannaútvarp og sjónvarp samkvæmt lagaramma og vilja þjóðarinnar, þá ber Páli Magnússyni og öðrum yfirmönnum RÚV að segja af sér.