Æ nei.
Æ nei.

Evrópuumræðunni er lokið eftir tuttugu ára þjark. Búið er að sækja um aðild, fljótlega taka við aðildarviðræður og að þeim loknum verður samningur lagður fyrir þjóðina. Hann verður samþykktur og Ísland verður hluti af ESB, sennilega 2013.

Dæmigerður íslenskur skotgrafahernaður – stundum misskilinn sem pólitísk umræða – mun halda áfram, flestum til algerra leiðinda. Mikið af fýlubombum á borð við „landráð“, „þjóðníðinga“ og „föðurlandssvikara“ verður kastað. Þetta verður hvimleitt en lítið við því að gera, nema reyna að leiða það sem mest hjá sér, vona að viðkomandi hafi ekki of mikla verki með þessu og biðja þeim blessunar.

Það er auðvelt að vera andstæðingur ESB. Þeir heitustu hafa hagsmuni sína að verja. Sumir aðrir telja sig verja þjóðarhagsmuni. Þeir munu átta sig flestir. Við suma verður þó ekki tjónkað. Það verður að hafa það.

Erfiðara er að vera eindreginn stuðningsmaður ESB. Til þess er fyrirbrigðið of margslungið, sumt gott, annað síðra. Þegar öllu er á botninn hvolft eru kostirnir þó fleiri og mikilvægari en gallarnir.

Andrés Jónsson telur upp tíu ástæður fyrir því afhverju við eigum að vera í ESB. Þær eru allar góðar en sú allra besta er merkt 10b:

„Af því að okkur ber skylda til að leggja eitthvað af mörkum. Að taka þátt. Af því að við höfum eitthvað fram að færa. Við eigum að ganga hnarreist til liðs við þjóðir Evrópu. Við eigum ekki að koma til borðsins með þrönga sérhagsmuni fyrst og fremst, heldur með okkar sjónarhorn á mannúð, mannlíf og sambúð í þessum heimshluta. Okkar sýn á framtíðina – vonir og væntingar. Við eigum að treysta væntanlegum viðsemjendum okkar til að virða og skilja sögu okkar og menningu. Já og einnig sérstaka hagsmuni okkar. En ekki í formi skilyrða, heldur með samstarfsanda að vopni og á jafningjagrundvelli.“