1988 sýndi Sjónvarpið 75 mínútna langa sjónvarpsmynd eftir þá tiltölulega lítt þekktan leikstjóra, Lars von Trier. Myndin; Medea eftir harmleik Evripídesar, var byggð á handriti meistarans Carl Th. Dreyer sem hann hafði skrifað á sjöunda áratugnum en aldrei lánast að fjármagna. Skemmst er frá því að segja að hún hafði sterk áhrif á mig og er satt að segja sú mynda von Triers sem ég held mest uppá enn í dag. Sagan er sett fram með afar spartönskum hætti, myndmálið er expressionískt í anda eldri mynda Dreyers og áferðin er kapítuli útaf fyrir sig. Von Trier mun hafa myndað hana upphaflega á U-matic, hið gleymda trekvart tommu vídeóformat, en síðan fært hana á filmu með því að filma hana beint af sjónvarpsskjá (segir sagan). Útkoman er afar sérstök, draumkennd og loðin. Þá var og eftirminnilegt að von Trier lætur leikarana hvíslast á mest allan tímann, alveg óháð fjarlægðinni milli þeirra. Fyrstu átta mínúturnar má sjá hér: