Lukkulegt par.
Lukkulegt par.

Um leið og ný ríkisstjórn tekur við völdum standa leiðtogar hennar, gömlu stríðsjálkarnir Jóhanna og Steingrímur, frammi fyrir einstöku tækifæri til að komast í sögubækurnar. Þau eiga einfaldlega að lýsa því yfir að þau muni aðeins sitja fram að vorkosningum og hætta síðan í pólitík.

Með þessu vinnst þrennt.

Í fyrsta lagi skerpir þetta línurnar. Nýja stjórnin er í „allt eða ekkert“ stöðu. Hún er sett saman til skamms tíma og utan um ákveðin verk. Þau munu byggja á erfiðum ákvörðunum. Pólitíkusar á leið í framboð taka ekki slíkar ákvarðanir. Til þess skortir flesta þeirra kjark. Stjórnin verður hinsvegar að ná miklum árangri á skömmum tíma. Minnst vegna hins pólitíska orðspors;  fyrst og fremst vegna þess að mikið er í húfi fyrir þjóðina að vel takist til. Pólitíkusar sem sækjast ekki eftir endurkjöri munu hafa frjálsar hendur um að gera það sem þarf. Þau munu heldur ekki vera „lame ducks“ vegna þess að stjórnarsáttmálinn verður (vonandi) skýrt skilgreindur og afmarkaður í tíma.

Í öðru lagi myndu þau með þessu gefa alveg nýjan tón í íslenska pólitík; þennan sem ætti í raun að vera útgangspunkturinn, þ.e. hugmyndin um að starfa í þágu almannahagsmuna – ekki flokkshagsmuna og hvað þá persónulegs metnaðar. Með yfirlýsingu um að þau sæktust ekki eftir endurkjöri, gæfu þau afar skýrt til kynna hvar áherslur þeirra liggja.

Í þriðja lagi rýma þau til fyrir nýju fólki – bæði eru hvort eð er komin á tíma og guð veit að alger endurnýjun á hinu pólitíska sviði þarf að eiga sér stað. Fyrst og fremst hvað varðar hugmyndafræði og aðferðafræði en um leið varðandi mannskap.

Þetta æpir á mann þessa dagana þegar ömurleiki pólitískrar umræðu á Íslandi nær nýjum hæðum yfir allan skalann.

Lítil hætta er hinsvegar á að þau muni gera þetta. Líklegra er að að þetta muni bögglast einhvernveginn áfram með harmkvælum, meðan sama þvargið glymur hjá flestum pólitíkusum, áhangendum þeirra í skotgröfunum og álitsgjöfum flestum. Þau verða síðan bæði að undirmálsgreinum í sögunni, ef þá það.

Eða hvað?