plogur
Áfram Ísland.

Ég vil óska þeim Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu alls hins besta og vona að þau nái sér sem fyrst af veikindum sínum. Um leið óska ég eftir stjórnmálamönnum með sýn; körlum og konum sem skilja nauðsyn þess að íslenskt samfélag þarf að taka nýjan kúrs og það strax í gær.

Og hvaða kúrs er það? Í rauninni liggur svarið innra með okkur öllum. Við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti, en við hljótum að þurfa að sammælast um samfélag sem leitar jafnvægis mótvægisafla, heilbrigðrar togstreitu milli einstaklingsfrelsis og samhjálpar, samfélags þar sem stjórnvöld viðurkenna mikilvægi fjölbreyttra hugmynda og forðast einsleitni.

Heimurinn stefnir í kreppu. Í grunninn er það vegna of mikillar hugmyndalegrar einsleitni; þeirrar hugmyndar að fjármagninu eigi að sleppa lausu án frekari afskipta.  Gallar þeirrar hugmyndar hafa komið áþreifanlega í ljós. Það þýðir þó engan veginn að afneita eigi frjálsum markaði – þvert á móti hljóta raunverulegt viðskiptafrelsi og raunveruleg frjáls samkeppni að vera meðal lykilatriða fúnkerandi samfélags. En það segir okkur – enn einu sinni – að forðast beri ofríki einsleitrar hugmyndafræði, hverju nafni sem hún nefnist.

Okkar vandamál eru jafnvel ýktari vegna þess forna kerfis sérhagsmuna, valdasamþjöppunar og kunningja-hyglunar sem kæft hefur eðlilega og frjálsa samkeppni um bestu hugmyndirnar og besta fólkið. Tilhneigingin til einsleitni, valdaþjöppunar og fákeppni er okkar versti óvinur.

Framkvæmd hinnar íslensku einkavæðingar – eins þörf og hún var – hefur misheppnast herfilega. Ekki mun duga að lappa uppá kerfið, það þarf að núllstilla og byrja uppá nýtt á forsendum almannahagsmuna. Það er mannlegt að ríghalda í afneitunina, troða marvaðann í von um kraftaverk, reyna að bjarga einhverju úr rústunum. En nú er nóg komið. Kosningar einar og sér munu ekki leysa vandann.

Stjórnlagaþing og endurnýjun stjórnarskrár er fyrsti áfanginn að nýja Íslandi; samfélagi sem trúir á samspil mótvægra krafta og hið skapandi ferli tilrauna, mistaka og endurbóta.

Við þurfum opið samfélag með ákveðnu grunn öryggisneti, þar sem skýrar leikreglur hvetja til sköpunar og frumkvæðis; samfélag sem deilir ekki endilega sameiginlegri pólitískri sýn, en skilur mikilvægi flókinna þróunarferla á borð við vísindarannsóknir, samkeppni, listræna tjáningu og tækniuppgötvanir; samfélag sem skilur að útkoman er ekki fyrirfram gefin, en um leið undir okkur komin.

Ég held að fólk með þessi viðhorf sé að finna í öllum flokkum og mjög víða út um allt samfélagið. Það má þekkja það á því að það óttast ekki framtíðina og getur ekki beðið eftir að fá að leggja hönd á plóg.