Glæstar vonir.
Glæstar vonir.

Í dag tekur Barack Obama við embætti forseta Bandaríkjanna. Á þessum efnilega manni hvíla væntingar af tröllaukinni stærðargráðu. Hann er nokkurnveginn nýkominn af götunni en honum er ekki aðeins ætlað að leiða áttavillta þjóð frá villu síns vegar; vegna aðstæðna hvílir einnig á honum sú krafa að verða eitt af stærstu nöfnunum í sögu embættisins.  Á sama tíma blasa við honum vandamál af áður óþekktri stærðargráðu. Verður hann maðurinn sem hefur Ameríku til vegs og virðingar á ný (og þá meina ég síst af öllu það sem populistinn Reagan sagði: „Let’s make America great again“ – sjáið nú hvert sú snjalla hugmynd hefur leitt þá), eða sá sem fær það hlutverk að stýra endalokum stórveldisins?

Hver vegur frá Hriflu...
Hver vegur frá Hriflu...

S.l. sunnudag tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við embætti formanns Framsóknarflokksins. Á þessum efnilega manni hvíla væntingar af tröllaukinni stærðargráðu. Hann er nokkurnveginn nýkominn af götunni en honum er ekki aðeins ætlað að leiða áttavilltan flokk frá villu síns vegar; vegna þess að hann er nýr, ferskur og kemur vel fyrir, þarf hann skjótlega að sanna fyrir þjóðinni allri að hann ætli ekki í gamla framsóknarfarið, heldur starfa með almannahagsmuni að leiðarljósi. Óhætt er að segja að við honum blasi vandamál af áður óþekktri stærðargráðu. Verður hann maðurinn sem hefur Framsóknarflokkinn til vegs og virðingar (raunverulega) eða sá sem fær það hlutverk að stýra endalokum þessa fyrrum stórveldis?

Það verður afar forvitnilegt að fylgjast með Obama. En það verður líka forvitnilegt að sjá Sigmund láta til sín taka. Þetta er í fyrsta skipti í okkar stjórnmálasögu sem lítt þekktur maður án pólitískrar reynslu verður formaður stjórnmálaflokks og það næstum uppúr þurru. Þetta verður eldskírn; hann mun ekki fá langan tíma til að sanna sig. Slíkir eru tímarnir.

Í gegnum fjölskyldutengsl, fréttamennsku og menntun sína hefur hann væntanlega fengið nasasjón af pólitíkinni. Ég skynja hjá honum ástríðu, metnað og löngun til að gera gagn. En hans bíða einnig pyttir hálfsannleikans, spunans, paranojunnar, baktjaldamakksins, málamiðlananna, vonbrigðanna, hrossakaupanna, populismans, persónulegu árásanna og  hnífsstungnanna.

...er vegurinn heim.
...er vegurinn heim.

Í heimildarmynd minni um Jónas frá Hriflu, Sjö sverð á lofti í senn, sem ég gerði ásamt Elíasi Snæland fyrir Sjónvarpið 1989, minntist Albert Guðmundsson fundar þeirra á Hótel Sögu, skömmu fyrir andlát Jónasar. Hann var eitthvað niðurdreginn og þegar Albert innti hann eftir því, svaraði Jónas:

„Sá einn er sekur sem tapar.“