
Líst ljómandi vel á Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann þarf reyndar að ákveða sig með ESB en þetta er greindur maður með ferskar hugmyndir. Réttur maður á réttum tíma. En kannski ekki endilega á réttum stað. Framsóknarflokkurinn er afar einkennileg skepna, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Skil ekki alveg afhverju maður af hans kaliberi velur þann vettvang til að stíga inná sviðið – nema þá að um pólitíska tækifærismennsku sé að ræða. Held reyndar – og vona – ekki. Þá bíður hans hinsvegar gríðarlegt starf við að moka útúr því fjósinu.
Sigmundur var sérlega fínn fréttaþulur, solid „anchor material“, með trausta áru og yfirbragð auk þess að kunna að grípa augnablikið og svo hefur hann fínan húmor. Á undanförnum árum hefur hann svo talað eins og útúr mínu hjarta um skipulagsmál, þennan málaflokk sem er næstum óendanlega mikilvægur en Íslendingar hafa því miður ekki mikinn áhuga á, eins og sést langar leiðir.
Þetta er flott innkoma hjá honum, en hvernig honum gengur að kveða niður nátttröllin í Framsókn og vinna flokknum eitthvað kjörfylgi, á eftir að koma í ljós.
Ég held að það sé ekki sanngjarnt að tala um „tækifærismennsku“ á svona neikvæðan hátt. Er Sigmundur ekki bara að „grípa augnablikið“ eins og þú rómar hann fyrir. Ef til vill sá hann þarna jaðrveg til að kollvarpa hinu rótgróna kerfi „flokkseigenda“, að „virkja grasrótina“.
Það er orðið löngu tímabært fyrir okku að losna við þá glýju sem nöfn flokkanna hafa fært okkur, eða hvaða vísbending er um a Framsóknarflokkurinn hafi verið eitthvað framsæknari en aðrir eða Sjálfstæðisflokkurinn eitthvað sjálfstæðari. Ég þekki fleiri en einn mann sem vitnar í sjálfstæði einstaklingsins þegar hann réttlætir stuðning sinn við þann flok. Margir eru ósammála „sínum“ flokki en styðja hann samt þegar á hólminn er komið, því þeir eru „í liðinu“. Nöfn stjórnmálaflokka eru álíka lýsandi um eigindi þeirra og Gunnar er fyrir mig eða Arngrímur fyrir þig.
Ég hjó strax eftir því að Sigmundur sagðist ætla að byrja á því bjóða fram krafta sína til að leysa núverandi vanda, að því er mér virtist, án skylyrða. Það fynnst mér benda til að han hafi víða hagsmuni samfélagsins í fyrirrúmi, frekan en þrönga hagsmuni hópa eða einstaklinga. Mér finnst of algengt að minnihlutinn berjist gegn góðum málum meirihlutans, hvort sem er á Alþingi , í bæjar eða borgarstjórn, að því er virðist af ótta við að góður framgangur málsing muni auka vinsældir og fylgi meirihlutans. Fyrir mína parta hefði ég mun meiri trú á þeim sem styðja góð mál, óháð því hvers tillaga það er, enda gætu þeir þá með sanni talið það mál sér til framgangs.
Til að kollvarpa núverandi „flokkseigenda“ kerfi þarf prófkjörsreglur sem eru mjög einfaldar og gegnsæjar. Hugsum okkur tildæmis að nota sömu aðferð og var notur við formanskjörið í Framsóknarflokknum. Hver kjósandi fær aðeins eitt atkvæði til að greiða aðeins einum frambjóðanda. Eini munurinn væri sá að í staðin fyrir eitt sæti (formanns) væu nú í boði jafnmörg sæti og væru á framboðslistanum til Alþingis. Alveg eins og í fyrri umferð formanskjörsins myndu frambjóðendur raðast eftir fjölda atkvæða, nema nú yrði það 1-63 í stað 1-3 (eða 1-5). Engin röðun í sæti með tilheyrandi „plotti“ og ógegnsæi. Sára litlar líkur eru á því að árekstrar vegna jafns fylgis muni vald verulegum erfiðleikum. Röðun í sæti færi því fyrst og fremst eftir vinsældum. Ég er nokkuð viss um að „flokkseigendurnir“ þurfi að standa sig betur en þeir hafa gert hingað til ef þeir geta vænst þess að fá gott sæti á framboðs listanum og því er ljóst að andstaða þeirra við þessar hugmyndir verður mikil. Nú er tími til berjast fyrir breytingum á prófkjörsreglum og væri vel að nota eitthvað af þeirri orku sem nú fer í mótmæli til að þrýsta á um þær breytingar.
Fyrirgefðu Ásgrímur, nafnabrenglið.
Sæll Gunnar, í öllum meginatriðum var þetta stuðningsyfirlýsing við Sigmund, eins og skýrt kemur fram. Ég set hinsvegar þennan fyrirvara vegna sögu Framsóknarflokksins. Í grófum dráttum má segja að fyrstu áratugina hafði hann hugsjónir. Þær snerust um að halda sveitamenningunni miðlægri í íslensku samfélagi, að standa gegn opnun og breytingum, en með kyrrstöðu og liðnum tíma. Smám saman varð hann svo að hreinræktuðu hagsmunabandalagi sem fyrst og fremst snerist um að viðhalda sjálfu sér. Þetta er arfleifðin sem Sigmundur tekur við og hann mun þurfa að glíma við. Ég trúi því að hann vilji raunverulega vinna Íslandi gagn. Ég skil bara ekki alveg afhverju hann vill gera það í gegnum Framsóknarflokkinn.
Varðandi hugmyndir þínar um breytt kosningarfyrirkomulag líst mér að mörgu leyti vel á þær, enda ekki fjarri mínum, sjá t.d. hér: https://asgrimur.wordpress.com/2007/01/30/hva%C3%B0-a-a%C3%B0-gera-vi%C3%B0-framti%C3%B0ina/.
Sæll Ásgrímur, ekki trúi ég hann hefði getað það í gegnum Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef að vísu ekki fylgst með Framsóknarflokknum umfram aðra flokka, en ég held að hann, einn flokka, hafi getað veitt Sigmundi brautargengi. Það er enginn annar stjórnmála flokkur, sem hefur gengið í gegnum slíka formanns-krísu. Ef þú hefur eithvað fram að færa, þá er verulega mikill munur á því hvort þú er „kallinn í brúnni“ eða bara aðstoðarmaður. Ég vona bara að Sigmundur endi ekki sem „rödd hrópandans í eyðimörkinni“ líkt og Vilhjálmur heitinn Gylfason forðum. Það hlýtur að koma í ljós. Hlustaðirðu á Krossgötur á laugardaginn? Þar var spiluð í heild sinni ræða Vilmundar þegar hann lýsti yfir vantrausti á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 23. nóvember 1982. Alveg mögnuð ræða. Ég tek undir orð Eiríks Guðmumdssonar í Víðsjá í dag (ég hlusta nánast eingöngu á „Gufuna“), að þessa ræðu þyrfti á spila í gegnum hátalarakerfi á einhverjum næstu mótmælendafunda. Ég held hún eigi ekki síður erindi til okkar í dag en þegar hún var flutt. http://dagskra.ruv.is/ras1/4430555/2009/01/17/
Ég harma það hvað við höfum mikla tilhneigingu til að hugsa í flokkum frekar en málefnum. Mín reynsla af stjórnmálum er sú að það sé of mikil tilhneiging til að umgangast þau eins og trúarbrögð. „Trú er að hafa fyrir satt það sem maður ekki veit“, sagði Nörður P. Njarðvík í „Lóðrétt eða lárétt“, en Njörður hefur tjáð sig að undanförnu á lærðan og yfirvegaðan máta að brýn nauðsyn sé að endursemja stjórnrskrána og endurreisa/endurstofna lýðveldið. Mikið „svakalega“ vildi ég að þær hygmyndir hlytu brautargengi.
Ég hef ekki tekið þátt í póítík og aldrei kosið Framsóknarflokkin, en ef Sigmundur tæiki upp kyndil Njarðar myndi ég ekki hugsa mig um. Að vísu verð ég að taka það fram að ég er yfirleitt galopinn þangað til í kjörklefann er komið.
Þó að kreppan sé slæm þá skapar hún samt óvænt tækifæri til að móta réttlátt (réttlatara) þjóðfélag heldur en hefur nokkurntíman verið á Íslandi. Ég vona bara að við berum gæfu til að nýta það tækifæri, en það er langt frá því sjálfgefið. Það verða örugglega nógu margir til að kasta til okkar „smjörklípunum“. Ég get ekki varist því að fynnast þessi ofuráhersla sem lögð er á ESB í dag vera hálfgerð (eða alger) smjörklípa. Að jálfsögðu þurfum við að taka afstöðu til ESB, en það eru miklu, miklu brýnni mál sem við þurfum að taka á fyrst. Þar ér ég klárlega sammála Sigmundi.
Sæll Gunnar, er sammála þér í flestu. Vilmund Gylfason met ég mikils, hann var langt á undan sínum samtíma – hann er, held ég, einnig á undan okkar samtíma. Hugmynd Njarðar styð ég algjörlega sbr. hér: https://asgrimur.wordpress.com/2009/01/13/anna%C3%B0-ly%C3%B0veldi%C3%B0-ver%C3%B0ur-sjotta-utgafan-af-islandi/. Ef Sigmundur ætlar að reynast einhverskonar íslensk útgáfa af Obama mun ég styðja hann til allra góðra verka, þmt. endurskoðun stjórnarskrár þar sem tryggður er raunverulegur aðskilnaður löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, auk þess að koma á verðleikalýðræði í stað flokksræðis og ættbálkaskipulags sem við höfum búið við frá landnámi. Það er þetta sem við horfumst í augu við. Verkið er tröllvaxið en verður að vinna ef eitthvað á að breytast. Hálfkák er tilgangslaust.