Hjálpi okkur nú allar góðar vættir.
Hjálpi okkur nú allar góðar vættir.

Nú á efstu dögum lýðveldisins er einboðið að fylkja sér um hugmynd Njarðar P. Njarðvík; stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá, endurreisn Alþingis og gefa allt uppá nýtt. Allt fjas um annað er sem fiðluleikur á brennandi þaki Rómar. Hér hefur hvort eð er lítið breyst í þúsund ár og tími til kominn að þræða aðra slóða.

Þetta yrði þá Ísland 6.o.

Ísland 1.0:

Landnámstíminn fram að stofnun Alþingis 930. Villta vestrið fram að siðmenningu. Sort of.

Ísland 2.0:

Frá þingstofnun til gamla sáttmála, 1262 – eða þjóðveldisöld. Með viðkomu í kristnitöku, veldi kirkjugoða og Sturlungu. Þarna varð mýtan um Ísland til. Ótrúleg líkindi með seinni hluta þessa tímabils og lýðveldistímanum. Endaði með ósköpum líkt og stefnir í nú. Var einhver að segja að sagan endurtæki sig?

Ísland 3.0:

Frá gamla sáttmála til siðaskipta – eða öllu heldur aftöku Jóns Arasonar og sona hans, 1550. Það er reyndar stórmerkilegt að bera saman þá Jón og Davíð Oddsson. Stundum finnst mér Davíð vera síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum. Báðir miklir stjórnskörungar og stórbrotnir karakterar með heittrúaða áhangendur og gríðarlega lýðhylli, báðir fengu að halda stöðum sínum vel fram yfir sinn vitjunartíma, báðir alveg á móti hinum nýja sið því báðir skynja að með honum er þeirra tími liðinn… þarf ég að halda áfram?

Ísland 4.0:

Frá siðbót til lýðveldisstofnunar 1944. Þetta er vandræðatími framanaf; hnípin þjóð í vanda – plágur, hamfarir, óstjórn, trúarofstæki, einokunarverslun og annar óþverri. Svosem einnig upplýsing, aukin menntun og Hallgrímur Pétursson, en dugar skammt. Sjálfstæðisbarátta á seinni hlutanum og þá fer aðeins að rofa til; Jónas og Fjölnismenn, Jón Sigurðsson – svo Hannes Hafstein og Einar Ben. Einnig stjórnarskrá, heimastjórn og fullveldi. Bjartur í Sumarhúsum, tákngervingur þjóðarinnar súmmerar þetta upp; mögnuð sjálfsblekking um ímyndað frelsi, kastaði  öllu frá sér sem máli skipti og eyddi ævinni í að sá í akur óvinar síns. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.

Ísland 5.0:

Frá lýðveldisstofnun til allsherjar hruns kerfis og hugmyndafræði 2008. Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka en svo kunnu þeir illa með fé að fara. Helmingaskipti, haftastefna, viðreisn, óðaverðbólga, viðvarandi pilsfaldakapítalismi. SÍS ríki í ríkinu. Alltumlykjandi faðmur Morgunblaðsins sem leit á sig sem límið í samfélaginu og súrefnið í lungum okkar. Not. Ótrúleg gandreið frá fátækt til auðlegðar, en einnig frá jafnaðarhyggju til misskiptingar og sérhyggju. Arfleifð Davíðs Oddssonar er að hafa fært Bjarti í Sumarhúsum frelsið, en bara of seint. Frjálshyggjan sigraði hugmyndastríðið en fær nú sama dóm og kommúnisminn; Nice song, shame about the lyrics.

Ísland 6.0:

Tveir kostir; halda áfram með sömu leikendum líkt og stefnan er núna – eða byrja alveg uppá nýtt. Þetta er sama staðan og með fíkilinn og/eða hinn meðvirka sem búinn er að rústa lífi sínu; á hann að halda áfram eða fara í meðferð og hefja nýtt líf?

Slútta þessu með Landsýn Steins Steinarr:

Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.