Stikluþættir þessa Sjónvarpsmanns Íslands eru liklega hápunktar hans ferils.
Stikluþættir þessa Sjónvarpsmanns Íslands eru líklega hápunktar hans ferils.

Pabbi lánaði mér nokkra Stikluþætti Ómars Ragnarssonar. Ég fann þá í hillunni hjá honum og langaði að rifja upp. Í minningunni voru þetta yfirleitt skemmtilegir þættir. Ómar í essinu sínu. Sem hljóðmaður í Sjónvarpinu til margra ára var pabbi, Sverrir Kr. Bjarnason, þátttakandi í Stikluævintýri Ómars og ég veit að þetta var honum ógleymanleg og dýrmæt reynsla.

Er semsagt búinn að kíkja á einn; „Undir hömrum, björgum og hengiflugum“, þar sem stiklað er um Önundarfjörð, Dýrafjörð og Arnarfjörð. Þátturinn var sýndur 1984 og þarna hittir Ómar íbúa á Ingjaldssandi, einbúa við Lokinhamra og ýtustjóra sem uppá sína bjó til veg yfir fjöll og firnindi. Svo eitthvað sé nefnt.

Frómt frá sagt var þessi þáttur snilld. Þessi heimur var framandi fyrir borgarbúa á unglingsaldri eins og mig fyrir aldarfjórðungi. Í dag er þetta væntanlega horfinn heimur.

Sjónvarpið sýnir enn þætti af þessu tagi. Þeir heita Út og suður og eru í umsjá Gísla Einarssonar. Það eru fínir þættir og Gísli er sjarmerandi náungi. Þeir eru þó smærri í sniðum en Stiklur Ómars, sem náðu þegar best var að fanga sögu, náttúru og mannlíf með hætti sem var á einhvern hátt bæði alþýðlegur og almennur en einnig afar persónulegur.

Hlakka til að sjá fleiri þætti. Lesendum til fróðleiks má kaupa þá í vefverslun RÚV.