Höfuðstöðvar RÚV i Efstaleiti
Vandi þess og vegsemd að vera RÚV.

Þær fregnir bárust í gær að afgreiðslu RÚV-frumvarpsins, þar sem meðal annars stendur til að takmarka auglýsingar, hefur verið frestað fram í febrúar. Það þarf ekki að koma á óvart enda virðist þetta frumvarp frekar vera einhverskonar ósjálfrátt skjálftaviðbragð við aðstæðum á einkamarkaði, heldur en vel grundað plagg um framtíð RÚV – eins mikilvægt og það er. Þó verður afgreiddur sá hluti frumvarpsins sem snýr að nefskattinum, en hann verður innheimtur frá og með 1. janúar n.k. En ýmsum spurningum um fjármögnun og dagskrárstefnu RÚV ohf. er enn ósvarað. Lögin frá 2006 virðast ekki hafa orðið til þess að efla stofnunina til að sinna erindi sínu. Eftir áralangan hallarekstur virðist afkoman hafa versnað enn frekar í kjölfar hlutafélagsvæðingar. Stofnunin rís varla undir skuldum og býr við króníska undirfjármögnun. Við þetta verður ekki búið.

Að undanförnu hefur ýmsu verið hent á lofti. Takmarkanir á auglýsingum, niðurfelling skulda við ríkissjóð, hugsanleg sala hússins, afnám lífeyrisskuldbindinga stofnunarinnar o.sv.frv. Forsvarsmenn RÚV hafa bæði bent á að frumvarpið feli í sér helmings skerðingu á auglýsingatekjum Sjónvarpsins og að hækkun nefskatts sé ekki næg miðað við verðlagsþróun. Einnig hefur ítrekað komið fram hjá þeim að erfitt sé að gera sér grein fyrir afleiðingum frumvarpsins, því ýmislegt sé óljóst.

Ef forsvarsmenn RÚV ganga um í þokunni gengur almenningur um í enn svartari þoku og með bundið fyrir augun. Nær ómögulegt er fyrir hinn almenna mann að taka þátt í þessari umræðu, nema þá í hinum mjög svo þjóðlega en hvimleiða skotgrafarstíl. Það er erfitt að hafa á þessum álitaefnum vitræna skoðun þegar forsendur liggja ekki fyrir nema að mjög takmörkuðu leyti.

Þessvegna er brýnt að horfa á aðalatriðin. Til hvers er RÚV? Hverskonar dagskrá á það að flytja okkur? Og þar sem peningar eru ávallt af skornum skammti – hvort sem kreppa ríkir eður ei: á að hverskonar efni á að leggja áherslu og hvað er ekki eins mikilvægt?

RÚV er í eðli sínu apparat sem miðar að því að gera eitthvað fyrir alla. Vissulega hefur RÚV eftir bestu getu reynt að framfylgja þessu í gegnum tíðina. Vandamálið er hinsvegar að um langa hríð hefur stofnunin verið undirfjármögnuð meðan stjórnendur hennar hafa reynt að halda í horfinu. Útkoman er krónískur taprekstur. Þetta gengur auðvitað ekki til lengdar og alls ekki í þeirri stöðu sem upp er komin á Íslandi.

Það góða við þrönga stöðu er að þá ætti sýnin á það mikilvægasta að skerpast.

Stjórnvöld þurfa að taka af skarið og fjármagna RÚV ohf. í samræmi við hlutverk sitt. Hvort meiri eða minni auglýsingar komi þar við sögu er tæknilegt atriði. Þó má færa fyrir því rök að ef RÚV losnaði við auglýsingar, eða minnkaði áherslu á þær, gæfist meira svigrúm til þeirrar dagskrársetningar sem tilvistarréttur RÚV byggist á, þ.e. að bjóða uppá vandaða innlenda dagskrárgerð að stærstum hluta. Á móti þarf að sjálfsögðu að bæta RÚV tekjutapið. Það gerist annaðhvort með hækkuðum nefskatti eða beinu framlagi úr ríkissjóði.

Auðvelt er að reikna til fróðleiks hversu hár nefskatturinn þyrfti að vera ef engar aðrar tekjur kæmu til og RÚV fengi eðlilegar hækkanir miðað við verðlagsþróun (20%). 205.000 lögaðilar x 26.000 kr. gæfu alls 5.33 milljarða í tekjur. Til samanburðar stendur til að nefskatturinn verði 17.900 kr. á mann eða alls um 3.7 milljarðar og að auglýsingatekjur fari úr 1.4 milljarði í milljarð. Samtals gerir það 4.7 milljarða. Þarna virðist því vanta um 630 milljónir til að RÚV nái að halda í horfinu.

Gott og vel, það er kreppa. Menn verða að skera niður og RÚV var einmitt að því. Um ca. 700 milljónir. Niðurskurðinn virðist hafa verið flatur á flestar deildir. Þessu má líkja við að klæðast of þröngum fötum í stað þess að ná af sér kílóum.

Skynsamlegra væri að Sjónvarpið markaði sér skýrari dagskrárstefnu, þar sem aukaatriðin væru miskunnarlaust sigtuð frá aðalatriðunum – mikilvægustu vígin varin en hin látin góssa, allavega í bili.

Og hver eru mikilvægustu vígin? Satt að segja er ekkert erfitt að koma auga á þau:

  • Vandað leikið efni sem tæki mið af þeim samfélagslegu álitaefnum sem uppi eru (líkt og Danir hafa verið að gera með góðum árangri).
  • Öflugar fréttir og ítarlegar fréttaskýringar sem byggðu á því trausti sem Fréttastofa RÚV nýtur.
  • Vandaðar heimilda- og fræðslumyndir um samtíð okkar, land, náttúru og sögu.
  • Fjölbreytt barnaefni.
  • Menningarefni hverskonar, þ.m.t. umfjöllun um bókmenntir og listir.

Annað mætti afgangi – sérstaklega í kreppu – enda má finna það annarsstaðar.

Ég hef engar áhyggjur af því að lítið áhorf yrði á Sjónvarpið með slíkri dagskrá. Áhorfskannanir benda til annars. Íslendingum mun finnast vel þess virði að greiða fyrir Sjónvarp sem hefði sannfærandi tilfinningu fyrir erindi sínu við þá.