Undur og ævintýr þessa hausts eru svo mörg að maður veit varla sitt rjúkandi ráð. Það nýjasta er að svo virðist sem bréf íslenskra stjórnvalda til IMF sé týnt og forsætisráðherra er alveg steinhissa, jafnvel meira en þegar hann heyrði frá blaðamönnum að Pólverjar ætluðu að lána okkur pening óumbeðnir. Þá hefur Wall Street Journal eftir finnska forsætisráðuneytinu að Íslendingar hafi enn ekki lagt fram skýr plön um endurreisn og því geti Norðurlandaþjóðirnar ekki ákveðið sig varðandi stuðning. Ekki hefur enn komið fram hvort forsætisráðherra sé líka hissa á þessu.

Hvernig er hægt að halda svona áfram?

Svo gerist það merkilega að pólitíkus axlar ábyrgð og segir af sér, eftir að hafa hlaupið á sig. Þessi aðgerð Bjarna Harðarsonar væri í eðlilegu lýðræðisríki ekki annað en sjálfsögð. Hér er hún hinsvegar svo óvenjuleg að manni langar helst til að knúsa Bjarna og kreista fyrir sína réttu breytni. Hann er semsagt að spila eftir leikreglunum – en er um leið að skapa fordæmi! Vonandi verður þetta ýmsum öðrum til eftirbreytni.

Hitt er svo annað mál að þessi uppákoma er ekki annað en „sideshow of a sideshow“, eins og þreyttur breskur hershöfðingi orðaði það um Arabauppreisnina svokölluðu í Lawrence of Arabia (ca. 4 mín. inn).

Svo leikur mér forvitni á að vita hversvegna blaðamaðurinn Lára Ómarsdóttir er svona oft í fréttum. Hún var í fréttum útaf tillögum sínum um eggjakast (skiljanlegt), hún var í fréttum útaf afsögn sinni (skiljanlegt), hún var í fréttum út af nýrri vinnu sinni hjá Iceland Express (hversvegna?), hún var í fréttum þegar hún  hætti þar eftir smátíma og réð sig á 24 stundir (afhverju?), hún var í fréttum þegar 24 stundir var lagt niður og hún ráðin á Moggann (til hvers?), hún var í fréttum þegar hún missti vinnuna hjá Mogganum vegna uppsagna (hví þá?) og í dag er hún í fréttum – undir fyrirsögninni „Lára Ómarsdóttir til liðs við Bubba Morthens“ – vegna þess að hún er blaðafulltrúi nokkurra poppara útaf tónleikum á laugardag (já auðvitað, ég skil…).

Lára er allra góðra gjalda verð og ekki hef ég neitt við hana að athuga nema síður sé. Mér finnst samt einhvernveginn eins og síendurtekin fréttaframkoma hennar sé einhverskonar tákn um standardinn á íslenskum blaðamönnum, sem alltof oft hampa sínum eigin í sjálfhverfu sinni, meðan þeir klikka hroðalega á vaktinni þar sem eldarnir brenna heitastir.

Sideshow of a sideshow, anyone?