Árni Snævarr deilir á Þórhall Gunnarsson dagskrárstjóra fyrir að vilja ekki kaupa þátt hans um Evrópusambandið og segir hann undir hrammi Flokksins. Þórhallur bendir á að þátturinn sé kostaður af Samtökum iðnaðarins sem hafi beitt sér fyrir inngöngu í ESB og að þátturinn sé frontaður af manni sem sé þeirrar skoðunar að Ísland eigi að drífa sig inn. Ég skoðaði þáttinn (hann má sjá hér) og þetta er ágætlega unnin fréttaskýringaþáttur, þó vissulega megi færa rök fyrir því að sjónarmið andstæðinga aðildar hefðu mátt koma betur fram. Auðvelt hefði verið að laga það. Gallinn er þó sá að hann er kostaður af hlutdrægum aðila og það eitt gerir hann vafasaman á dagskrá Sjónvarpsins. Á móti spyr ég sem almennur sjónvarpsáhorfandi; afhverju í veraldarinnar ósköpum eru þættir á borð við þennan, þar sem tekin eru fyrir knýjandi málefni, ekki gerðir reglulega af Sjónvarpinu sjálfu (hvort heldur innanhúss eða utan)? Hvar eru t.d. vandaðir og upplýsandi fréttaskýringaþættir um mál á borð við fjármálakrísuna og Baugsmálið? Fyrir fáeinum árum var á dagskránni vísir að vönduðum fréttaskýringaþætti sem kallaðist Í brennipunkti. Hann var á dagskrá mánaðarlega. Afhverju var ekki haldið áfram að þróa hann frekar? Slíkir þættir eru að sjálfsögðu forgangsmál í almannasjónvarpi umfram skemmtiefni, án þess þó að ég sé að mæla gegn slíkri dagskrá.  

Og svo ég gangi enn lengra. Hvar eru metnaðarfullar þáttaraðir um íslenska sögu, þróun samfélagsgerðarinnar t.d. á öldinni sem leið, arfleifð kalda stríðsins, íslenska umræðuhefð (setur okkur hljóð hvenær sem kemur að kjarna máls?), íslenska ættbálkasamfélagið o.sv.frv. Afhverju falast t.d. Sjónvarpið ekki eftir kröftum hæfra sagnfræðinga á borð við Guðna Jóhannesson til slíkra hluta og spyrðir hann og aðra slíka saman við kvikmyndagerðarmenn sem kunna til verka í sjónvarpi?

Slíkir þættir eiga auðvitað að vera reglulega á dagskránni og gerðir þannig að maður hafi það ekki á tilfinningunni að þeir séu gerðir með velþóknun valdhafa. Er það mögulegt á Íslandi eða aðeins nævur draumur?