Þegar ég var að byrja að átta mig á kvikmyndasögunni að einhverju leyti, svona um og uppúr 1980, voru tveir amerískir leikstjórar meðal þeirra sem mér þóttu eftirtektarverðir. Báðir hétu Sidney, annar Lumet og hinn Pollack. Báðir gerðu flottar myndir og voru traustir fagmenn – góðir sögumenn – en slíkir menn eru auðvitað hryggjarsúla kvikmyndanna.

Það er auðvelt að sjá það núna að þarna voru þeir báðir á sínu besta skeiði – eða öllu heldur nýkomnir af því. Áttundi áratugurinn var þeim gjöfull líkt og svo mörgum öðrum. Lumet gerir m.a. Serpico, Network og Dog Day Afternoon á þessum árum, Pollack Jeremiah Johnson, The Way We Were, Three Days of the Condor og The Electric Horseman. Þessar myndir eru meðal allra bestu verka þeirra beggja og í dag virðir maður fyrir sér þetta tímabil sem gullaldarskeið Hollywood hið síðara. Það sem einkennir þennan tíma er einhverskonar snilldarleg blöndun húmanískrar evrópskar sýnar við hnitmiðaða flettu og takt hinnar amerísku hefðar. Meira að segja er auðvelt að sjá þetta í myndinni sem breytti þessu öllu, Jaws eftir Steven Spielberg. Fyrri hluti myndarinnar hefði allt eins getað verið týpískt domestic drama eftir Truffaut! En ég er kominn út fyrir efnið.

Minningargreinar um kallinn eru legíó á netinu þessa dagana og tónninn í þeim sumum á þá leið að Pollack hafi nú ekki beint verið sá allra framsæknasti. Og sjálfur viðurkenndi hann í heimildamynd sinni um arkitektinn Frank Gehry, sem varð hans síðasta leikstjórnarverk, að hann hefði aldrei haft kjark til að gera það í kvikmyndunum sem Gehry gerði í arkítektúrnum.

Gott og vel, má vera og allt það. Pollack má hinsvegar eiga það að framan af gerði hann myndir sem náðu til manns dálítið djúpt, snertu mann þannig að áhrifin vara enn. Má þar nefna ofangreindar myndir og einnig They Shoot Horses Don’t They (1969), Tootsie (1982) og Absence of Malice (1981). Out of Africa, óskarsverðlaunamyndin hans frá 1985, fannst mér hinsvegar ekki ýkja áhugaverð.

Pollack hafði sérstakt lag á að fjalla um einmanaleika og dapurleika og firringu í myndum sínum, sem er dálítið óvenjulegt miðað við stöðu hans og upplegg sem meginstraumsmanns. Þessi þemu voru t.d. áberandi í löngu samstarfi hans við Robert Redford, en þeir gerðu saman sex myndir á átján árum. Mig rámar í viðtal við Pollack þar sem hann talaði um að Redford væri einhverskonar táknmynd Ameríku vegna þess að hann bæri utan á sér harm þess sem hefði fengið flest of auðveldlega uppí hendurnar.

Pollack gerði engin meistarastykki á seinni hluta ferilsins, en kannski engar svakalegar gloríur heldur, nema þá kannski helst endurgerð einnar slökustu myndar Billy Wilders, Sabrina, þar sem Harrison Ford gerði tilraun til létts gamanleiks. Slíkt ætti sá takmarkaði eðalleikari að láta alveg eiga sig.

Honum óx þó mjög ásmegin á sama tíma í framleiðandahlutverkinu og notaði völd sín og áhrif til að ýta úr vör mörgum fínum myndum, t.d. The Fabulous Baker Boys, Searching for Bobby Fischer, Sense and Sensibility, The Talented Mr. Ripley, The Quiet American og nú í fyrra Michael Clayton. Hann átti einnig ágæta spretti sem leikari, bæði í eigin myndum og annarra. Má þar sérstaklega nefna Tootsie, Husbands and Wives eftir Woody Allen og fyrrnefnda Michael Clayton.