Albert Maysles at Skjaldborg Film Festival May 9th 2008

Albert Maysles svarar spurningum gesta á Skjaldborg 2008.

Skjaldborg 2008, hátíð íslenskra heimildamynda, fór fram í annað sinn á Patreksfirði nú um hvítasunnuna og tókst frábærlega vel. Hjálpaðist þar allt að; fjölbreytt úrval mynda, heiðursgestur af hæsta kaliberi, gott utanumhald, skemmtileg stemning meðal gesta og afar elskulegar móttökur heimamanna. Svo ekki sé minnst á sjálft kvikmyndahúsið, Skjaldborgarbíó, sem búið er að gera upp af miklum metnaði.

Gimme Shelter

Opnunarmynd hátíðarinnar var Gimme Shelter frá 1970 eftir bræðurna  Albert og David Maysles ásamt Charlotte Zwerin, ein frægasta heimildamynd tuttugustu aldarinnar. Myndin er um tónleikaferð Rolling Stones um Bandaríkin sumarið 1969 sem náði dramatískum hápunkti með tónleikum í Altamont við San Fransisco. Óeirðir brutust út á tónleikunum og leikar fóru svo að einn tónleikagesta var myrtur af meðlimi Hells Angels sem ráðnir höfðu verið sem öryggisverðir. Gimme Shelter er mögnuð frásögn með þéttum stíganda og tragískum lokakafla. Í gegnum myndina birtast Stónsarar við klippiborðið þar sem þeir skoða efnið, hljóðir og hnípnir, áhrifamikið stöff. Þá er og afbragðs kafli í myndinni þar sem piltarnir sitja í stúdíói og hlusta á upptöku af Wild Horses sem þeir höfðu nýlokið við.

Á eftir sýningu myndarinnar átti Albert Maysles, heiðursgestur hátíðarinnar, gott spjall við gesti undir stjórn Björns Ægis Norðfjörð kvikmyndafræðings. Þar fór hann stuttlega yfir feril sinn, sem spannar yfir 60 ár og fræðast má nánar um hér.

Maysles bræður eru, ásamt nokkrum öðrum, forvígismenn Direct Cinema stefnunnar í Bandaríkjunum, sem í Evrópu var kölluð Cinema Vérité. Stefna þessi varð tæknilega möguleg vegna léttari og meðfærilegri tóla sem komu til sögunnar á seinni hluta sjötta áratugs síðustu aldar, en hún gengur í stuttu máli útá það að fylgjast með viðfangsefninu í umhverfi sínu og forðast bein viðtöl, þuli og sviðsetningu. Stefnan er stundum köllið „fluga á vegg kvikmyndagerð“ en Maysles er ósáttur við þá skilgreiningu, fyrir honum snýst þetta um að tengjast viðfangsefninu og bregðast við því með eðlilegum mannlegum samskiptum sem byggjast á trausti. Maysles sagði „flugu á vegg myndir“ fela í sér tengslaleysi þar sem myndavélinni væri aðeins stillt upp án einhverskonar tengingar við viðfangsefnið og því alveg undir hælinn lagt hvort fram kæmi það sem máli skipti.

Maysles lagði einnig áherslu á að hin nýja stafræna tækni væri himnasending fyrir kvikmyndagerðarmenn, þar sem kostnaður væri miklu lægri og tæki öll margfalt meðfærilegri. Hér má sjá upptalningu hans á kostum stafrænu tækninnar, sérstaklega Sony PD170 myndavélarinnar.

Salesman

Þrjár þekktustu myndir Maysles bræðra voru sýndar á hátíðinni, auk Gimme Shelter, Salesman frá 1968 og Grey Gardens frá 1976. Maysles upplýsti að í bígerð væri Hollywood mynd sem byggð væri á Grey Gardens með þeim Jessicu Lange og Drew Barrymore í aðalhlutverkum. Honum skildist að þeir bræður myndu koma eitthvað við sögu í myndinni og velti fyrir sér hver myndi leika sig!

Grey Gardens

Þá var einnig sýnd nýjasta mynd hans, The Gates frá 2007, um baráttu listamannanna Christo og konu hans Jeanne-Claude við að koma upp risa útilistaverki í Central Park í New York. Það tók þau 26 ár og varð loks að veruleika 2005. Maysles fylgdist með þeim allan tímann, en auk þessarar myndar hefur hann gert nokkrar aðrar myndir um þau.

The Gates

Þess má og geta að rætt verður við Maysles í Kastljósi Sjónvarpsins á næstu dögum og einnig verður ítarlegt viðtal við hann í Kviku Sigríðar Pétursdóttur á Rás 1 næsta laugardag.

Alls voru sýndar 35 myndir á hátíðinni, allt frá 3ja mínútna myndum uppí myndir í fullri lengd. Áhorfendaverðlaunin „Einarinn“ féll í skaut Kjötborgar eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur, sem fjallar um samnefnda verslun við Ásvallagötu í Reykjavík, eigendur hennar og viðskiptavini. Kjötborg er gullfalleg og lágstemmd „feelgood“ frásögn um afmarkað samfélag í borginni. Þeir Kristján og Gunnar verslunareigendur kunna að vera með síðustu kaupmönnunum á horninu en tilfinningin er samt sú að þeir hafi alltaf verið þarna – og muni vonandi alltaf vera þarna, því það kemst ágætlega yfir að þessir ágætu menn bjóða ekki aðeins uppá fjölbreytt úrval hverskyns dagvöru heldur einnig trú, von og kærleika.

Ég náði að sjá um það bil helminginn af prógramminu og þar á meðal seinni partinn af Mínus eftir Frosta Jón Runólfsson, sem segir af ævintýrum samnefndrar hljómsveitar heima og erlendis. Myndin er gróf og hrá en kraftmikil og hispurslaus, nær að fanga hæfileikamenn sem virðast oft eiga í mestu vandræðum með að vera með sjálfum sér. Mér skildist á leikstjóranum að hann ætlaði að halda áfram að vinna myndina um sinn og geyma frekari sýningar til lengri tíma. Forvitnilegt verkefni þarna á ferðinni.

Ýmis forvitnileg verkefni var einnig að finna í flokknum „Verk í vinnslu“, þar sem sýnd voru brot úr væntanlegum myndum að viðstöddum höfundum myndanna sem svöruðu spurningum gesta á eftir. Má þar t.d. nefna Götubörn – Katja eftir Guðmund Tjörva Guðmundsson þar sem fylgst er með heimilislausum krökkum í Kiev og Odessa í Rússlandi; Sólskinsdreng eftir Friðrik Þór Friðriksson um heim einhverfra; Norð vestur eftir Einar Þór Gunnlaugsson um þróun byggðar á norðanverðum vestfjörðum eftir snjóflóðin 1995; og Sigríði Níelsdóttur eftir Kristínu Björk og Orra Jónsson um samnefnda 78 ára tónlistarkonu og sköpunarverk hennar.

Hátíðarupplifunin var sterk og fín, vel á annað hundrað gestir komu til Patreksfjarðar og myndaðist afar skemmtileg stemmning meðal þeirra og heimamanna, sem tóku mannskapnum fagnandi með dýrlegum veisluhöldum og léttri lund. Svo er ekki verra að Skjaldborgarbíó er hið fínasta hús með góðan sjarma og öllu sem til þarf. Skjaldborgarhátíðin hefur alla burði til að verða fastur punktur í tilverunni, þarna hittast kvikmyndaunnendur og kvikmyndagerðarmenn í einstöku umhverfi þannig að úr verður ævintýr. Sjáumst á Skjaldborg að ári.