Ég skil ekki alveg hversvegna það þarf að vera Financial Times sem fyrstur fjölmiðla – að mér vitandi – birtir hina fróðlegu frásögn um fund nokkurra stjórnenda vogunarsjóða á 101 Reykjavík í janúar s.l. Hvar voru íslenskir fjölmiðlar? Sér í lagi ef það er rétt sem FT segir, að þessi saga hafi gengið manna á milli í íslenska fjármálaheiminum síðustu mánuði. Er ekki eðlilegt að ætla að þeir blaðamenn íslenskir sem hafa sérhæft sig í fréttum úr fjármálaheiminum hefðu fengið veður af þessari sögu? Hafa þeir kannski vitað um hana en þagað? Eða hafa þeir bara verið útá túni og láta nú FT taka sig í bólinu?

Frétt FT er vel skrifuð og upplýsandi. Ég minnist þess ekki að hafa séð skrif eða umfjöllun á sama standard í íslenskum fjölmiðlum um þessi mál. Ég rekst hinsvegar stundum á umfjallanir íslenskra blaðamanna um eigin stétt og hún er gjarnan á þann veg að hér séu menn að standa sig harla vel. Það finnst mér dálítið ofmat.

Hér er enginn skortur á álitsgjöfum. Nokkrir eru vissulega ágætir. Aðrir blaðra.

Hér er heldur enginn skortur á fréttamönnum sem telja að almenningi gagnist eitthvað að horfa á tvo eða fleiri pólitíkusa eða aðra málsaðila þrátta fram og til baka í skotgrafarstíl.

Hinsvegar skortir vel unnar fréttaskýringar herfilega í íslenska fjölmiðla; efni sem leitast við að skýra baksvið atburða, setja hlutina í samhengi og strúktúrera efnið fyrir neytendum. Það er helst að sjá megi tilburði í þessa átt í Speglinum hjá Útvarpinu. Mogginn reynir stundum, en gallinn við það blað er að maður hefur stöðugt á tilfinningunni að meira sé þar ósagt en sagt og að verið sé að þjóna öðrum hagsmunum en þess lesanda sem vill fá staðreyndir og samhengi þeirra uppá borðið og taka svo sjálfur afstöðu. Mogginn er því gagnslítill sem alvöru fréttaskýringamiðill.

Þar sem ég er tiltölulega fáfróður um fjármálabransann, en finnst hann um leið forvitnilegur á ýmsan máta, langar mig t.d. að vita mun meira um hvernig þessa meintu árás vogunarsjóða á íslenskt fjármálakerfi bar að. Hverskonar ráðstafanir höfðu Seðlabankinn, bankarnir og aðrir hlutaðeigandi aðilar gert til að verjast hugsanlegri árás? Öll viðbrögð nú benda til þess að menn hafi látið grípa sig í bólinu. Afhverju er það? Höfðu menn ekki vítin til að varast, t.d. árás vogunarsjóða á Hong Kong fyrir einhverjum árum eða svipaða uppákomu í Thailandi eða árás George Soros á breska pundið? Er kannski illmögulegt að gera ráðstafanir? Verða menn kannski bara að láta þetta yfir sig ganga?

Annað sem mig langar að vita:

Sigurður Einarsson hjá Kaupþingi segir í Fréttablaðinu í dag að honum sýnist sem fjórir vogunarsjóðir hafi haft „kerfisbundið samband við erlenda fjölmiðla og greiningardeildir banka með neikvæðar spurningar og athugasemdir um íslenskt efnahagslíf og bankana. Við það hafi skuldatryggingarálag tekið að hækka og þeir náð umtalsverðum hagnaði gegnum skortstöður sínar.“  Hann bætir svo við að „þó að margt bendi til þess að þessar tilraunir sjóðanna hafi tekist til styttri tíma, en muni ekki ganga upp til lengdar. Nú fari álagið lækkandi og þar með ágóði skorttökuaðila, auk þess sem greinendur og fjölmiðlamenn séu meira á varðbergi fyrir fréttum af Íslandi en áður.“

Svo kemur pönslænið:

Menn láta ekki plata sig aftur og aftur,“ bætir hann við.

Sigurður virðist semsagt halda því fram að reyndir greinendur og fjölmiðlamenn um víðan völl, hafi látið snjalla menn hjá fjórum breskum vogunarsjóðum teyma sig á asnaeyrunum. Að þessir reyndu aðilar hjá ýmsum virðulegum fjölmiðlum og stofnunum hafi ekki séð við trixunum, líkt og þeir kynnu ekki til verka. Líkt og enginn þeirra hefði spurt hvaðan upplýsingarnar koma, hversvegna þær koma nú og hver hagnist á birtingu þeirra.

Hvernig má það vera? Víst er að erlendir greinendur og fjölmiðlamenn hafa tiltölulega nýlega beint sjónum að Íslandi og því ekki öllum hnútum kunnugir. Nú munu þeir hafa aflað sér betri upplýsinga. En mun það breyta einhverju? Er hættan liðin hjá? Hversu mikið á íslenska fjármálakerfið undir því að „greinendur og fjölmiðlamenn séu meira á varðbergi fyrir fréttum af Íslandi en áður„?

Kannski er réttara að spyrja afhverju Sigurður haldi að menn láti ekki plata sig aftur og aftur, þegar reynslan sýnir annað. Svona leikir hafa verið spilaðir áður. Er einhver sérstök ástæða til að halda að það muni ekki endurtaka sig?