Skömmu fyrir afhendingu óskarsins á dögunum var George Clooney spurður hvort hann væri vongóður um að hljóta styttuna eftirsóttu. Clooney svaraði því til að það væri klappað og klárt í sínum huga að Daniel Day-Lewis myndi fá verðlaunin og bætti svo við: “Hann er svo klár að það pirrar okkur alla. Hreint út sagt þá þoli ég ekki manninn”.

Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Daniel Day-Lewis hefur á um það bil aldarfjórðungs ferli sínum skapað sér einstakan sess. Hann er af þeirri tegund leikara sem hverfur inní persónur sínar með afgerandi hætti, gjarnan þannig að hann dvelur algerlega í hlutverkinu hvort sem hann er við upptökur eða ekki. Aðferðin, sem gjarnan er kennd við hugtakið “method acting” er vandmeðfarin, enda oft bæði misskilin og ofmetin, en staðreyndin er sú að hún virkar afar vel í höndum þeirra sem kunna með hana að fara. Daniel Day-Lewis er einn þeirra.

Hann vakti fyrst athygli þegar hann stal senunni í mynd Stephen Frears, My Beautiful Laundrette frá 1985. Þremur árum síðar birtist hann í sínu fyrsta aðalhlutverki, sem hinn kvensami læknir Tómas í Óbærilegum léttleika tilverunnar, eftir skáldsögu Milan Kundera. Þrátt fyrir að myndin væri gerð á ensku lagði hann á sig að læra tékknesku og vék ekki úr karakter allt tökutímabilið.

Ári síðar birtist hann sem hinn fjölfatlaði Christy Brown í My Left Foot, myndinni sem skóp nafn hans og færði honum fyrsta óskarinn. Aftur neitaði hann að víkja úr karakter og dvaldi í hjólastólnum allan tökutímann, starfsliðinu oft til sárrar armæðu.

Í Last of the Mohicans frá 1992 lærði hann að lifa af landsins gæðum líkt og Haukfránn, persóna hans í myndinni, óneitanlega karlmennskan holdi klædd.

Öll þessi einbeitta innlifun hefur tekið sinn toll. Í miðri sýningu á Hamlet í London um 1990 brotnaði hann saman í senunni þar sem danaprinsinn sér framliðinn föður sinn. Day-Lewis staðfesti það síðar að honum hefði þótt sem þarna væri kominn hans eigin faðir, ljóðskáldið Cecil Day-Lewis, en hann lést þegar Daniel var aðeins fimmtán ára.

Á síðari hluta síðasta áratugar hvarf Daniel Day-Lewis sjónum og var jafnvel talið að hann væri hættur kvikmyndaleik. Hann sneri þó aftur fimm árum síðar í mynd Martin Scorsese, Gangs of New York  og hlaut fyrir það tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Hann landaði svo sínum öðrum Óskar á dögunum, líkt og Clooney hafði spáð, fyrir hlutverk sitt í There Will Be Blood. Líkt og svo oft áður mega menn vart vatni halda yfir leik hans en sumum þykir þó raddbeitingin eilítið kunnugleg og hafa dregið fram gamalt meistarastykki í því sambandi.

Hér er fyrst kvikmyndaleikstjórinn John Huston í Chinatown eftir Roman Polanski (athugið að senan með Huston og Nicholson er 5:25 mín. inní þessari klippu, sem er að uppistöðu frábært viðtal við helstu aðstandendur myndarinnar).

Hér er svo stuttur kafli úr There Will Be Blood. Dæmi svo hver fyrir sig.

(Flutt í 07/08 bíó leikhús 6.3.2008)