Það er tæpur aldarfjórðungur síðan ég gekk hugsi útúr Tónabíói eftir að hafa séð kvikmynd sem ég vissi ekki alveg hvað mér átti að finnast um. Í aðra röndina fannst mér þetta ómerkileg b-mynd með subbulegu ofbeldi. Á hinn bóginn var hún gerð af miklum sannfæringarkrafti og náði að kveikja afar sérkennilegt og heillandi andrúmsloft. Var þetta bölvað rusl eða gargandi snilld?

Myndin hét Blood Simple og var fyrsta mynd þá alls óþekktra bræðra, þeirra Joels og Ethan Coen.

Ég sá hana aftur skömmu síðar og hallaðist þá að því að um meistarastykki væri að ræða.

Síðan hafa þeir bræður verið hátt skrifaðir í minni bók og á stundum verið einhverskonar áminning um að í Hollywood sé vissulega að finna kvikmyndagerðarmenn með listræna sýn.

Óskarsverðlaunin þeim til handa fyrir No Country for Old Men hljóta því að vera hið besta mál.

There Will Be Blood

Ég er annars að rifja þetta upp vegna þess að ég var líka hugsi eftir að hafa horft á There Will Be Blood, nýjustu mynd Paul Thomas Anderson, sem einnig var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hlaut tvenn.

Myndin er opnunarmynd Gagnrýnandans, sem er nýr vettvangur fyrir annarskonar myndir en meginstrauminn frá Hollywood. Það er full ástæða til að fagna þessu framtaki Sambíóanna, enda snýst það um að auka fjölbreytni í myndaúrvali.

En aftur að There Will Be Blood. Þetta er tæplega þriggja tíma epískur prófíll af harðsvíruðum olíumanni, Daniel Plainview, sem býður öllum heiminum byrginn. Hann er túlkaður á mjög athyglisverðan hátt af Daniel Day Lewis og minnir ekki síst á sjálfan Bjart í Sumarhúsum í þvermóðsku sinni og óbilgirni.

Hann er þó því miður ekki eins vel mótaður sem persóna. Meðan Bjartur nær tragískum hæðum með því að gera sér grein fyrir rangri breytni sinni þegar það er orðið of seint, heldur Plainview áfram að róta eins og naut í flagi myndina á enda. Afleiðingin er sú að örlög hans ná ekki að snerta mann inn að kviku.

Myndin hvílir nær algerlega á herðum Daniel Day Lewis  en það er ekkert nýtt að sjá manninn skapa persónur af geysilegu tæknilegu öryggi. Það er vissulega áhugavert að fylgjast með því, raunar mjög heillandi framan af, en svo er allt í einu nóg komið og þá er enn langt í endinn. Þá gerist það að maður fer að iða í sætinu og líta á klukkuna.

There Will Be Blood hefur samt sem áður fengið nær einróma lof og ég get að vissu leyti skilið afhverju. Hún er keyrð áfram af einhverskonar mögnuðum frumkrafti.

Myndir um einstefnumenn eru þó til safaríkari en þessi.

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús, 28.2.08)