Jæja það er verðlaunatíð í bíóunum, það er að segja ekki þverfótað fyrir myndum sem annaðhvort eru tilnefndar eða hafa þegar fengið klapp á bakið. Hér eru tvær þeirra, annarsvegar Charlie Wilson’s War og hinsvegar Sweeney Todd. Þær koma úr sitthvorri áttinni en eiga það kannski sameiginlegt að vera báðar úr smiðju manna með afgerandi sýn á tilveruna.

Í Charlie Wilson’s War leikur Tom Hanks frekar gagnslausan þingmann á Bandaríkjaþingi, hvurs helsta markmið er að hafa það náðugt og vera hvers manns hugljúfi. Þetta er á níunda áratugnum og þarna hafa Rússar ráðist inní Afghanistan með tilheyrandi hryllingi. Kvenskörungur í líki Juliu Roberts fær Tom til að beita sér fyrir aukinni aðstoð til afganskra skæruliða og þarna finnur þingmaðurinn köllun sína. Honum til halds og trausts er rustalegur og kjaftfor agent frá CIA, bráðskemmtilega leikin af Philip Seymour Hoffman.

Allt á þetta að vera byggt á sönnum atburðum en handritið er skrifað af Aaron Sorkin, manninum á bakvið Vesturálmuna. Það vantar því ekkert uppá hnyttin samtöl og fjörlega atburðarás, en samt er þetta einhvernveginn tíðindalítil mynd og maður hefur það stöðugt á tilfinningunni að aðalsagan sé að gerast annarsstaðar.

Með Sweeney Todd, sem hlaut Golden Globe verðlaun á dögunum, má kannski segja að Tim Burton sé kominn heim. Burton er maður hinnar gotnesku fegurðar og hryllings – sem eiginlega má kalla breska hefð – ef ekki uppfinningu.

Hér vinnur hann með breskan efnivið, samnefndan söngleik Stephen Sondheim, þar sem sögusviðið er kolsvört og skítug London á tímum iðnbyltingar.

Sagan um Sweeney Todd er gömul bresk þjóðsaga um morðóðan rakara, mannát og botnlausan harm og það fer ekki milli mála að Burton skemmtir sér vel. Sömu sögu má segja um fastagesti hans, þau Johnny Depp og Helenu Bonham-Carter, einnig fara Alan Rickman og Timothy Spall á kostum sem sannkallaðir djöflar í mannsmynd.

Allt er þetta gert af mikilli alúð og natni, blóðið rennur í stríðum straumum undir þróttmiklum söng og útkoman er einhverskonar hryllileg fegurð sem bæði ofbýður og dáleiðir í senn.(Pistill í 07/08 7.2.2008)