Verkfall eða ekki verkfall, Óskarsverðlaunin verða afhent með einhverskonar hætti þann 24. febrúar og þar á bæ halda menn sínu striki og hafa nú opinberað tilnefningar.

En ekki hvað?

No Country for Old Men þeirra Coen bræðra og There Will Be Blood eftir Paul Thomas Anderson fá flestar tilnefningar eða átta hvor, aðrar myndir sem tilnefndar eru sem mynd ársins eru Atonement eftir Joe Wright, Juno eftir Jason Reitman og Michael Clayton eftir Tony Gilroy.

Semsagt; tvær túrbósprengjur frá amerískum listamönnum með stóru L-i, eitt stykki hádramatísk sápuópera í períóduklæðum frá Bretum, ein meinfyndin indíkómedía og einn bílfarmur af réttlætisbaráttu og sáluhjálp. Fastir liðir eins og venjulega og það hlýtur að vera gott á þessum óvissutímum, ekki satt?

Megi besta myndin vinna segi ég, en það er kannski frekar vert að skoða tilnefningarnar til erlendu mynda ársins.

Það kom nokkuð á óvart að framlag Khasakstan, Mongol eftir Sergei Bodrov, skyldi vera meðal tilnefndra, því myndin hefur ekki farið hátt. Þetta er frásögn af Genghis nokkrum Khan á yngri árum, gerð í samvinnu við Rússa, Þjóðverja og Mongóla – auk, já, Íslendinga – eða öllu heldur Íslendings, því að okkar margverðlaunaði klippari Valdís Óskarsdóttir kom að klippingu myndarinnar, en hún hefur áður unnið með leikstjóranum að myndinni Bjarnarkossinn frá 2002.

Annars hefur valið á þessum myndum nokkuð verið gagnrýnt fyrir að vera ekki með á nótunum, enda vantar þarna helstu myndir síðasta árs og má þar nefna hina rúmensku 4 mánuði, 3 vikur og 2 daga sem bæði hlaut Gullpálmann og Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, spænsku myndina The Orphanage eða Munaðarleysingjahælið sem vakið hefur gríðarlega athygli sem og hina írönsku Persepolis, en reyndar fær hún tilnefningu í flokki teiknimynda. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir henni gegn sennilega bestu Hollywoodmynd liðins árs, Ratatouille frá Pixar.

Að öðru. Ástralski leikarinn Heath Ledger lést á dögunum, af slysförum að talið er. Þetta var efnispiltur og vaxandi leikari, sem nýlokið hafði tökum á Batman-myndinni The Dark Knight sem væntanleg er í sumar. Flestar mynda hans voru reyndar ekki mikilla sanda, en hann átti fínan sprett í Monster’s Ball eftir Marc Foster frá 2001.

Ledgers verður þó fyrst og fremst minnst fyrir sérlega góða frammistöðu í Brokeback Mountain eftir Ang Lee frá 2006.

Brot úr myndinni má sjá hér.

(Pistill fluttur í 07/08 31.1.2008)