Fer ekki bara vel á því að svartasta skammdegið skuli jafnframt vera einn besti bíótími ársins? Í myrkvuðum salnum losnar maður við að horfa framan í myrkrið úti, en er þess í stað fluttur eitthvað annað. Nú og næstu vikur er að finna nokkurn fjölda mynda í kvikmyndahúsunum sem annaðhvort hafa sópað að sér verðlaunum eða er stefnt á þær verðlaunahátíðir sem framundan eru.

Franska kvikmyndahátíðin á vegum Alliance Francaise og Græna ljóssins, sem nú stendur sem hæst er nokkurskonar rásmerki þessarar bíótíðar. Þar eru meðal annars til sýnis eftirtaldar myndir:

Persepolis, sem byggð er á kunnum myndasögum hinnar írönsku Marjane Satrapi, er sjálfsævisöguleg frásögn sem lýsir uppvaxtarárum Satrapi á tímum klerkabyltingarinnar og síðar í Evrópu. Þetta er ein umtalaðasta mynd síðasta árs og hefur unnið til fjölda verðlauna.

Tveir dagar í París er fyrsta leikstjórnarverkefni leikkonunnar Julie Delpy. Þetta er súr rómantísk kómedía um franskt/amerískt par sem ákveður að skreppa til Parísar til að freista þess að bjarga sambandinu. Myndin hefur fengið fín viðbrögð.

Lögmaður hryðjuverkanna er heimildamynd eftir hinn þekkta leikstjóra Barbet Schroeder, um lögfræðinginn Jacques Verges sem tekið hefur að sér vörn ýmissa kunnra stríðsglæpamanna, hryðjuverkamanna og einræðisherra. Forvitnileg mynd um umdeildan mann.

Regluleg dagskrá Græna ljóssins er einnig komin í fullan gang og þessa dagana er verið að sýna hið margradda tilbrigði Todd Haynes við ævi Bob Dylan, I’m not There.

Einnig er verið að sýna nýjustu mynd meistarans Ang Lee, Lust, Caution eða Losta, varúð, magnaða og afar erótíska ástarsögu sem meðal annars hlaut Gulljónið í Feneyjum í fyrra.

Framundan er svo nýjasta mynd undrabarnsins ameríska Wes Anderson, The Darjeeling Limited, svo ekki sé minnst á allar hinar óskarsmyndirnar.

Verkfall eður ei, „the show must go on“.

(Pistill fluttur í 07/08 17.1.2008)