Hljómsveitin kynnir sig...
Hljómsveitin kynnir sig...

2007 var þokkalegt bíóár. Slatti af fínum myndum en ekki kannski þannig að jörð skylfi. Ekkert vantaði hinsvegar uppá offramboð á rusli eins og venjulega, en alþjóðleg kvikmyndahátíð myndaði ágætis mótvægi, ásamt sumum mynda Græna ljóssins. Íslenskt bíó var áfram á góðri siglingu frá fyrra ári, auk þess sem Næturvaktin startaði íslenska sjónvarpsmyndavorinu. Allt útlit er jafnframt fyrir að góðir hlutir haldi áfram að gerast á nýju ári.

Hvað erlenda þróun varðar þá er óvissan ríkjandi. Kannski er það bara ég, en Hollywood verður æ þreytulegri staður með hverju árinu, sífellt straumlínulagaðri, fjöldaframleiddari og markaðssettari. Vissulega eru sprettir innan um og þá kannski helst í hinum svokallaða „independent“ geira, sem þó er ekki independent lengur heldur aðeins einhverskonar spariföt myndveranna, en þetta fer að verða orðið gott…

Á sama tíma hangir spurningamerki yfir „arthouse“ myndum. Framboðið er gríðarlegt og í raun langt umfram eftirspurn. Kvikmyndahátíðir blómstra en bíóin verða æ sjaldnar vettvangur þessara mynda og þá frekar hinna stærri þeirra. Hinsvegar eru dreifingarleiðir að opnast á netinu en samkeppni við annað efni á þeim bæ um athygli mun þó aðeins halda áfram að harðna.

En svona lítur listinn minn yfir tíu bestu myndir ársins út:

  1. The Band’s Visit. Fyrsta mynd ísraelska leikstjórans Erin Kolirin og hefur farið sigurför um heimsbyggðina. Ekki að ástæðulausu enda fær hún mann til að trúa því að til sé staður og stund þar sem allt er mögulegt.
  2. Away from Her. Önnur fyrsta mynd leikstjóra, en Sarah Polley er þaulreynd leikkona og hér er ekkert með byrjendabrag. Julie Christie er ennþá brilljant.
  3. Das Leben der Anderen. Þriðja byrjendaverkið en Florian Henkel von Donnersmarck er sömuleiðis með allt á hreinu. Evrópsk sónata um ógæfusaman en góðan mann.
  4. 4 mánuðir 3 vikur 2 dagar. Hin rúmenska gullpálmamynd sýnir áþreifanlega að Rúmenar hafa mest evrópumanna að segja þessa dagana.
  5. Foreldrar. Ragnar Bragason og Vesturportarar afhjúpa ömurleika hverdagslegrar tilveru undanbragðalaust. Tvíleikurinn stenst fyllilega samanburð við það besta sem finna má í evrópskum kvikmyndum þessi misserin.
  6. Venus. Kolsvartur breskur húmor og Peter O’ Toole er ennþá manna svalastur. Afspyrnu fín mynd frá Roger Mitchell.
  7. Black Book. Paul Verhoeven snýr aftur til heimalandsins og býr til sjóðandi sexí melódrama eins og honum einum er lagið.
  8. Babel. Brotinn tími, orsök og afleiðing, sameiginleg örlög. Alejandro Gonzales Innarritu er einn af fáum leikstjórum eftir sem þorir að takast á við metafýsiskar spurningar. Fyrir það er hann skammaður af mörgum, en mér finnst þetta bara ganga vel hjá honum. Þrátt fyrir Brad Pitt.
  9. Ratatouille. Eina púra Hollywoodmyndin á listanum, en Pixar er auðvitað kapítuli útaf fyrir sig. Hin síðari gullöld teiknimynda, sem hófst með Ljónakóngi, er nú að fjara út, en þessi er unaðsleg.
  10. Den brysomme mannen. Vandræðamaður Jens Lien er erki-Skandinavinn í okkur öllum, sem leiðist í velsældinni. Þetta á kannski að vera fantasía en það skelfilega er að samfélagslýsingin er með alltof miklum raunsæisblæ til að gott þyki. Svo er líka hughreystandi að sjá norskan húmor.

Ég hafði líka gaman af hinni testósterónhlöðnu 300, framtíðartryllinum Children of Men, vinadramanu Reign Over Me og þroskasögunni Little Miss Sunshine. Þá var hressandi að horfa á bomburnar Cate Blanchett og Judi Dench takast á í Notes on a Scandal og danska myndin Listin að gráta í kór eftir Peter Schonau Fog átti alveg inni fyrir kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs. Himinbrún Fatih Akin var líka feykifín og Eastern Promises David Cronenberg átti magnaða spretti.

En engin þessara mynda kemst neitt nálægt mestu snilldinni, sem sýnd var í Bæjarbíói á haustdögum. Ég er að tala um L’Eclisse eftir Michelangelo Antonioni, sem er líklega  eitt allra mesta listaverk um það sem gerðist ekki sem gert hefur verið. Antonioni lést þann 31. júlí s.l., sama dag og annar meistari, Ingmar Bergman. Ég skrifaði þetta þá. Kvikmyndin er dauð, lengi lifi kvikmyndirnar.