Nú er á aðventu og þá er þarft og gott að íhuga tilvist sína og tilgang. Þegar best lætur eru kvikmyndirnar sálarspegill og fátt er betra fyrir sálina en að horfa af og til á sjálfa sig í góðum spegli. Hér eru tíu kvikmyndir sem allar spegla sannar sögur úr sálarlífinu. Ég hef leyft mér að kalla þær Aðventumyndir, ekki vegna þess að þær hafi eitthvað með aðventuna að gera heldur vegna þess að þær smellpassa einhvernveginn inní tíðina.

It’s a Wonderful Life er hjartnæm og magísk fantasía um örvæntingarfullan mann sem í gegnum guðlega forsjón fær tækifæri til að sjá hvers virði hann er samfélagi sínu. Hér takast á draumar gegn vonbrigðum, von gegn svartnætti og jafnvel tíminn sjálfur leggur lykkju á leið sína svo söguhetjan megi finna lífsins tilgang. Það sem skilur hana frá flestum fjögurra vasaklúta myndum er að hún fær þig til að vikna yfir gleðistundum persónanna en ekki þeim harmrænu.


babettes-feast-1987-004-babette-alone-medium-shotGestaboð Babettu er dásamlega látlaus, einföld og töfrandi tragi-kómedía um kraftaverk, kærleika og yfirbót. Tvær dyggðugar prestsdætur í Jótlandi nítjándu aldar feta hinn þrönga stíg guðsótta og góðra siða. Þegar þær taka að sér flóttakonu frá París reynir þó fyrst á trú þeirra því hún, Babetta, reynist ekki öll þar sem hún er séð. Svona myndir gera menn ekki án þess að vera í beinu sambandi við guð sinn.


three-colours-redKrzysztof Kieslowski var ekki trúaður í hefðbundnum skilningi, en myndir hans gefa okkur engu að síður möguleikann á tilvist æðri máttarvalda og hugmyndarinnar um samantvinnuð líf. Hvergi koma þessi hugðarefni betur saman en í síðustu mynd hans, Þrír litir: Rauður. Hér birtist djúp lotning fyrir leyndardómum tilverunnar, eins og sést í því hvernig Kieslowski myndar ekki aðeins fólkið sjálft, heldur einnig bjarmann af sálu þeirra.


tokyo-storyTokyo Story er þekktasta mynd japanska leikstjórans Yasuhiro Ozu. Öldruð hjón halda til Tokyo að vitja um uppkomin börn sín. Þetta er hljóðlát og áhrifamikil mynd, ofur mannleg og afskaplega hjartnæm, þar sem mætast æðryleysi foreldranna gagnvart örlögum sínum og ótti barnanna við ellina og dauðann.


Börn náttúrunnar er ein dáðasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu, látlaus en sterk frásögn af gömlu fólki sem hnígur til síns uppruna. Hún tekur á sig goðsagnakenndan blæ, þetta er ferðalag inní eilífðina, varðað skýrum kennileitum sem vísa hinu aldraða pari leiðina heim.


Ein af mínum helstu uppáhaldsmyndum er Local Hero eftir Bill Forsyth. Fulltrúi olíufyrirtækis í Texas er sendur í skoskt sjávarþorp til að kaupa það með húð og hári fyrir olíuhreinsunarstöð. Þorpsbúar beita ýmsum brögðum til að fá gott verð en fyrirstaða birtist í gömlum karli sem á strandlengjuna sjálfa og býr þar í kofa. Ekki bætir svo úr skák að olíumaðurinn fær guðdómlega kraftbirtingu á staðnum sem ruglar hann gersamlega í ríminu. Seiðandi kyrrlát mynd sem sýnir manni að undur veraldar er að finna á ólíklegustu stöðum.


distant_voices_1Terence Davies er einn mesti snillingur breskra kvikmynda. Meistarastykkið Distant Voices, Still Lives er afar persónuleg og átakamikil frásögn af fátækri fjölskyldu í Liverpool um og eftir seinna stríð. Fjölskyldan býr undir harðstjórn föðurins og lifir naumt, en finnur farveg drauma sína í dísætri tónlist dans- og söngvamyndanna sem Hollywood ungaði út á þessum árum. Davies tekst að láta sönginn segja allt um fólk sem þarf að komast af í hörðum heimi.


 

No Merchandising. Editorial Use Only Mandatory Credit: Photo by Everett Collection / Rex Features ( 716635a ) 'Wings of Desire', (aka 'Der Himmel Uber Berlin'), Bruno Ganz 'Wings of Desire' film - 1987

Himinninn yfir Berlín er heillandi saga um kærleika og samlíðan og hollt að sjá reglulega sér til heilsubótar. Engill sem vakir yfir hrelldum og einmana sálum í grágugginni borg, en fær ekkert að gert, verður ástfanginn af loftfimleikastúlku. Hann ákveður að segja skilið við eilíft líf og gerast dauðlegur maður svo hann fái að vera hjá henni. Ljúfsár og ljóðræn frásögn
sem kveikir von um að himnaríki sé þrátt fyrir allt staðsett á jörðinni og að kraftaverk geti gerst í döprum hjörtum.


Í Sælureitnum, eða Smultronstallet eftir Ingmar Bergman, leggur aldraður prófessor í langferð ásamt tengdadóttur sinni. Hún er ólétt en eiginmaðurinn vill ekki eignast börn. Á leiðinni fáum við að vita hversvegna. Prófessorinn hefur eytt hefur ævi sinni við fræðistörf en vanrækt tengslin við börn sín og fólk almennt. Ferðalagið tekur stefnuna inní fortíðina þegar prófessorinn þarf að horfast í augu við lífshlaup sitt og spyrja sig hvar hann fór út af sporinu.


 

a-matter-of-life-and-death-1472589760-726x388Í A Matter of Life and Death rennur veruleikinn saman við fantasíuna í kómískri og hugljúfri ástarsögu. Flugmaður í seinna stríði nær sambandi við unga stúlku meðan flugvél hans hrapar til jarðar. Stúlkan finnur flugmanninn og þau fella hugi saman. Babb kemur í bátinn þegar engill nokkur birtist flugmanninum og tilkynnir honum að gleymst hafi að pikka hann upp, enda stríð í gangi og miklar annir. Flugmaðurinn unir þessu ekki, enda ungur og ástfanginn og fær því framgengt að réttað verði í máli hans á himnum. Upphefst þá hin kostulegasta saga þar sem tilfinningar og kaldar staðreyndir takast á.


Af einhverjum ástæðum er enginn þessara mynda í kvikmyndahúsunum þessa dagana og er það miður, því þar eiga þær heima. Heimabíóið verður því að nægja, en eins og ég var að tala um síðast; samkvæmt nýjustu vísindarannsóknum verða myndirnar betri í góðum félagsskap. Sitjið þögul, horfið og njótið. Þetta eru myndir sem þið viljið ekki missa af. Þær ættu að fást á betri leigum og og jafnvel í þartilgerðum bíóbúðum, en þann heim mun ég sýna ykkur í fyrsta þætti eftir áramót. Þangað til, gleðileg jól.

(Pistill fluttur í 07/08 20.12.2007)