Í þeirri fínu mynd Grand Canyon eftir Lawrence Kasdan, leikur Steve Martin kvikmyndaframleiðanda í Hollywood sem hefur sérhæft sig í blóðugum ofbeldismyndum. Um miðja mynd verður hann sjálfur fyrir árás ofbeldismanns og fær í kjölfarið vitrun: nú skuli hann helga líf sitt göfugum málstað og gera myndir sem freista þess að bjarga heiminum.

Aðalpersóna myndarinnar, lögfræðingur sem glímir við miðaldrakrísu og er leikinn af Kevin Kline, kemst þó að því í lokin að umbreyting besta vinar síns hefur ekki enst ýkja lengi og hann hefur snúið sér aftur að glórulausu ofbeldinu. Eftir að hafa spurt hann útí þetta og Steve svarað fyrir sig eiga eftirfarandi orðaskipti sér stað (Steve hefur orðið):

– Mack, you ever seen a movie called Sullivan’s Travels?
– No.
– That´s the problem with you Mack, you haven’t seen enough movies. All of life’s riddles are answered in the movies. It’s a story about a man who loses his way. He’s a filmmaker, like me, and he forgets for a moment just what he was set on earth to do. Fortunately he finds his way back. That can happen, Mack. Check it out.

Myndin sem Steve vísar í, Sullivan’s Travels eftir Preston Sturges, er ein af þessum hálfgleymdu perlum sem Hollywood ungaði út á fjórða og fimmta áratugnum. Myndin fjallar semsagt um vellríkan Hollywoodleikstjóra sem fyllist ógeði á léttmetinu sem hann býr til alla daga og hyggst gera alvarlega mynd um mannlega þjáningu (myndin á að heita O Brother Where Art Thou?, en Coen bræður, sem eru miklir Sturges aðdáendur, gerðu mynd undir þessu heiti fyrir nokkrum árum til að heiðra meistara sinn). Leikstjórinn kemst þó að því eftir mikla raunagöngu að sprell og fíflagangur getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt.

Sannarlega bæði gömul sannindi og líka ný, því nýlega birtu bandarískir vísindamenn niðurstöður rannsókna þar sem fram kemur að gamanmyndir auka blóðflæði áhorfenda svo mikið að líkja má við hressilega leikfimiæfingu eða jafnvel sérstaka læknisfræðilega meðhöndlun.

Að sama skapi benda niðurstöður þessarar rannsóknar, sem finna má hér, að áhrifum þess að horfa á dapurlega mynd má jafna við álagið af því að minnast reiðikasta og rifrildis, eða glíma við flókna stærðfræðiútreikninga.

Önnur nýleg rannsókn, sem finna má hér, styður einnig það sem margan kvikmyndahúsagestinn hefur lengi grunað; að horfa saman á bíómynd hefur mikil áhrif á fólk. Rannsóknin bendir til þess að hin sameiginlega upplifun bíógesta geri það að verkum að þeir samræmi tilfinningaleg viðbrögð sín og þetta hafi áhrif á það hvernig við upplifum myndina. Því meira sem við erum í takt við aðra bíógesti, því betri finnst okkur myndin.

Óneitanlega forvitnileg pæling. Martin Scorsese, kvikmyndaleikstjóri og kvikmyndaunnandi, hefur líkt kvikmyndahúsinu við kirkju. Á báðum stöðum komum við saman til að deila sameiginlegri reynslu. Bókin A Personal Journey with Martin Scorsese through American Movies endar á þessum orðum (í lauslegri þýðingu):

A Personal Journey With Martin Scorsese Through American Movies

„Ég sé enga togstreitu milli kirkjunnar og kvikmyndanna, hins helga og hins veraldlega. Vitanlega er reginmunur á þeim en ég sé líka margt sameiginlegt með kirkju og kvikmyndahúsi. Á báðum stöðum kemur fólk saman til að deila sameiginlegri reynslu.

Ég trúi því að andlega reynslu sé að finna í kvikmyndum, jafnvel þó hún geti ekki komið í stað trúar. Margar kvikmyndir fjalla um andlegt eðli mannsins; allt frá Intolerance D.W. Griffiths, Þrúgum reiðinnar eftir John Ford, Vertigo eftir Hitchcock til 2001 eftir Kubrick, auk margra annarra. Kvikmyndir virðast fullnægja fornri þörf fyrir leit að sameiginlegri
dulvitund. Þær fullnægja andlegri þörf fólks til að deila sameiginlegri minningu.“

(Pistill fluttur í 07/08 13.12.2007)