Það þarf ekki að koma á óvart að rúmenska myndin 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar eftir Christian Mungiu var valin mynd ársins á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, sem afhent voru í Berlín síðastliðinn laugardag. Myndin hlaut Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor og hefur síðan farið sigurför um heimsbyggðina, með viðkomu hér á landi á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í haust. Myndin verður svo fljótlega sýnd á almennum sýningum á vegum Græna ljóssins.

Ný kynslóð rúmenskra leikstjóra hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og gert það að verkum að nú er talað um rúmensku bylgjuna. Þessum leikstjórum liggur mikið á hjarta, myndirnar einkennast af hörðu félagslegu raunsæi í bland við svartan húmor og viðfangsefnin eru gjarnan einhverskonar ástandslýsing á samfélagi í rúst.

Rúmenar bjuggu við ógnarstjórn einræðisherrans Ceausescu um áratugi en honum var loks velt af stalli 1989. Það tók rúmenska leikstjóra á annan áratug að ná skriði gagnvart arfleifð Ceausescus og í raun þurfti nýja kynslóð til, enda eru flestir þeir leikstjórar sem nú láta mest að sér kveða á fertugsaldrinum og voru því á unglingsaldri þegar hinum illræmda alvaldi var steypt.

4 mánuðir gerist á síðustu dögum Ceausescu tímans og fjallar um tvær ungar stúlkur í miklum vandræðum. Önnur þeirra er ólétt og saman reyna þær að finna leiðir til að láta eyða fóstrinu. Þeim tekst að hafa uppá manni sem virðist tilbúinn að hjálpa þeim gegn greiðslu en þegar á hólminn er komið reynist ekki allt sem sýnist.

Þetta er napurleg og vægðarlaus kvikmynd um mannlega eymd en ekki síður um mannlega reisn. Hún hefur hægan en öruggan stíganda og grípur áhorfandann heljartökum. Þegar myndir sem gerðar eru undir formerkjum hins félagslega raunsæis takast vel er tilfinningin sú að hér sé verið að segja manni svo brýnan sannleika að ekki megi nokkru sinni undan líta. 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar er þannig mynd.

Fyrir unnendum góðra kvikmynda hefur árið 2007 verið gott ár, ekki síst vegna þess að kvikmyndaflóran hefur stækkað og breikkað. Ekki aðeins höfum við eignast öfluga og vandaða kvikmyndahátíð sem framkvæmd er af miklum metnaði, heldur færir dreifingarfyrirtækið Græna ljósið okkur árið um kring vandaðar myndir utan við meginstrauminn, þar á meðal evrópskar. Svo má ekki gleyma endurreistum Fjalaketti, klassíkinni í Bæjarbíói og heimildamyndum Reykjavík Documentary Workshop. Landið er að lyftast…