Bjólfskviða er aftur komin í bíó og nú í Hollywood útgáfu, en skemmst er að minnast myndarinnar sem gerð var á hér á landi fyrir fáeinum árum þar sem Bjólfur laut í lægra haldi fyrir sunnlenskum haustlægðum. Hetjan er einnig lögð að velli í nýju myndinni, sem gerð er af Robert Zemeckis og leggjast þar á eitt nýjasta tölvutækni og skrímsli í líki Angelinu Jolie.

Því er þó ekki að neita að myndin er á köflum hin ágætasta rússibanareið. Hún er öll teiknuð í tölvu en notast þó við þekkta leikara á borð við Ray Winstone, Anthony Hopkins, John Malkovich og fyrrnefnda Angelinu Jolie. Þeir koma þannig við sögu að fjöldi skynjara nemur hverja hreyfingu þeirra og síðan taka kvikir tölvuteiknarar við og ljúka verkinu.

Útkomunni svipar til tölvuleikjaumhverfis, enda skilst mér að myndinni sé sérstaklega beint að unnendum slíkra leikja. Þeir ku hafa verið hættir að mæta í bíó og höfðu tekið leikjaboxin fram yfir.  Til að freista þeirra enn frekar er svo bætt í með nokkuð magnaðri þrívíddarupplifun, nokkuð sem enn er ekki komið í tölvuskjáina.

Tölvuteikning með hreyfiskynjun, motion capture uppá ensku, er tækni sem reynir að telja okkur trú um að hún sé ekki til. Markmið hennar er í raun að ná einhverskonar fullkomnun í myndlegu raunsæi, en um leið gefur hún mikinn sveigjanleika, því ekki þarf að taka tillit til takmarkana líkamlegrar getu og þyngdarafls. Og víst er að þessi tækni er langt á veg komin og hentar vel ákveðnum tegundum mynda, sérsaklega ævintýrum og fantasíu.

Um leið hlýtur maður þó að spyrja sig – hversvegna að leggja á  sig alla þessa fyrirhöfn þegar leikararnir gætu skilað sinni vinnu miklu betur eins og þeir koma fyrir af kúnni? Þar liggur auðvitað helsti veikleiki myndarinnar, því þrátt fyrir afburða tækni skortir nokkuð uppá hinn mannlega þátt, tilfinninguna fyrir smáatriðunum sem gefa áhorfandanum beintengingu við það sem öllu skiptir, samkennd með fólkinu á tjaldinu.

En hvað er ég svosem að röfla þetta? Ótal myndir frá Hollywood skortir einmitt þetta og það þó leikararnir sprangi um í eigin persónu án inngripa tölvutækninnar. Þegar upp er staðið er Bjólfskviða ágætis þrjúbíó og kannski bara málið að taka henni einmitt þannig.(Pistill 07/08 bíó leikhús 29.11.07)