Merkilegur maður Ridley Scott. Á þrjátíu ára ferli hefur hann gert tuttugu myndir og þótt sumar þeirra séu annaðhvort óttalegt miðjumoð eða bara tómt klúður er oftast einhver ótrúlegur stíll yfir þeim, andrúmsloft sem maður upplifir ekki annarsstaðar.

Svo hefur hann gert nokkrar sem hljóta að falla í flokk klassískra mynda; Alien, Blade Runner og kannski Thelma and Louise. Mér fannst Gladiator ágæt en skorta þá dýpt sem lagt var upp með. Persónulega held ég frekar uppá Someone to Watch Over Me og Black Rain, sem báðar eru ekki að þykjast vera annað en grunnar og smartar klisjur.

Nýjustu mynd hans, American Gangster, eða Bandarískum bófa, er greinilega stefnt í klassísku deildina.

Denzel Washington og Russell Crowe, báðir afburða leikarar, eru bófinn annarsvegar og löggan hinsvegar. Báðir eru einbeittir í starfi sínu og báðir vilja láta lítið fyrir sér fara. Þeir eiga það einnig sameiginlegt að vinna verk sín samkvæmt ströngum persónulegum siðalögmálum.

Denzel leikur Frank Lucas sem ríkti yfir eiturlyfjasölu New York borgar á öndverðum áttunda áratugnum, með því að bjóða hreinni efni á lægra verði, um leið og hann gætti þess að allir þátttakendur fengju sína sneið af kökunni.

Russel er Richie Roberts, lögreglumaðurinn sem neitar að þiggja mútur við litlar vinsældir félaga sinna. Hann fer að gruna að valdaskipti hafi orðið í glæpaheiminum og leggur upp í leitina að hinum nýja bófaforingja eins og þrjóskur rakki sem hangir á roðinu sama hvað á gengur.

Það vantar ekki að Scott haldi vel og örugglega um þræði. Frásögnin er hröð og léttleikandi og andrúmslofti þessara ára er vel komið til skila. Hinsvegar háir það myndinni nokkuð hversu efniviður og sögusvið er kunnuglegt. Myndin vísar meðal annars til kvikmynda frá þessum tíma eins og French Connection og Serpico, auk þess sem allt hefur þetta verið betur höndlað og eftirminnilegar í Guðföðurmyndunum, Goodfellas eftir Scorsese og síðast en ekki síst, þeirri mögnuðu sjónvarpsseríu Sopranos.

Þá vantar nokkuð uppá að glæpaforinginn Frank Lucas, sé dreginn nægilega skýrum dráttum, þó vissulega sé hann áhugaverð persóna. Betur tekst til með karakter Russell Crowe, sem verður að heyja baráttu sína á mörgum ólíkum vígstöðvum, gegn spilltum löggum, fyrrverandi eiginkonu í hefndarhug og æskufélögum sem fetað hafa glæpabrautina.

Allt um það, American Gangster er metnaðarfull mynd og hafa má af henni ágætis skemmtun. Hún mun þó ekki verða talin í hópi helstu verka um ameríska drauma og martraðir.

(Pistill 07/08 bíó leikhús 22.11.07)