Mig langar að tala um nokkrar myndir, bandarískar vel að merkja, sem reyna að segja okkur fyrir um hið sanna ástand heimsins – svona eins langt og það nær. Þær snúast um ákveðnar grundvallarspurningar, afstöðu eða afstöðuleysi – eigum við að taka þátt eða bara fljóta með straumnum? Við lifum nefnilega á hinum bestu tímum en um leið á hinum verstu.

Notaðu póstinn ef þú vilt koma skilaboðum á framfæri, segir í gömlu máltæki frá Hollywood, en Robert Redford tekur ekkert mark á því með mynd sinni Lions for Lambs.

Þetta er hápólitískt boðunardrama, eiginlega meira leikrit en kvikmynd. Boðskapurinn er jafn þarfur og hann er kunnuglegur: stjórnmálamenn selja hálfsannleika, fjölmiðlar kaupa hann nauðugir viljugir og hinn almenni maður upplifir sig svo áhrifalausan að besti kosturinn virðist að láta sig sökkva í óminni velsældarinnar. Útkoman er dálítið stirð og gamaldags en erindið er brýnt hjá gömlu kempunni Robert Redford.

George Clooney er önnur stórstjarna sem oft notar mátt sinn til að gera myndir sem fjalla um áleitin siðferðisleg eða pólitísk efni. Í Michael Clayton leikur hann samnefndan mann sem starfar sem allsherjar reddari hjá stóru lögfræðifirma. Stofan er að reyna að bjarga risafyrirtæki frá málsókn vegna gallaðrar vöru og smám saman rennur upp fyrir honum að til þess á að nota öll meðul. Clooney á hér stórleik sem maður sem kominn er í algert öngstræti með líf sitt og það bjargar annars kunnuglegum söguþræðinum frá miðjumoðinu.

Mig langar einnig að vekja sérstaka athygli á kvikmyndinni Reign over Me, sem nýkomin er út á mynddiski. Don Cheadle og Adam Sandler eru gamlir skólafélagar sem hittast aftur eftir margra ára hlé. Sandler missti fjölskyldu sína í árásinni á tvíburaturnana og hefur lokað sig af frá veruleikanum, Cheadle virðist hinsvegar lifa góðu lífi með konu og börnum, en spurningar um tilgang lífsins eru farnar að þrúga hann.

Þetta er sterkt og áhrifamikið drama og Adam Sandler kemur skemmtilega á óvart í hlutverki sem er ólíkt flestu sem hann hefur gert áður.

Og að lokum, Die Hard 4, sem einnig fæst nú á DVD. Ég átti um daginn gott spjall við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra um Die Hard myndirnar. Honum finnst þær skemmtilegar og ég er honum sammála. Það er bara eitthvað við kallinn, Bruce Willis – John McClane, og þessi nýjasta er einnig hin besta skemmtun. Í pakkanum fylgir einnig með fróðlegt viðtal leikstjórans Kevin Smith við Bruce, þar sem þeir fara yfir tuttugu ára sögu myndaflokksins.

(Pistill 07/08 bíó leikhús 15.11.07)