David Cronenberg er svo sannarlega ekki allra. Það væri til dæmis hægt að segja að myndir hans einkennist af miskunnarlausri krufningu á mannskepnunni – og þá í bókstaflegum skilningi því þær bora sig ekki aðeins inní sálir persónanna heldur einnig líkama þeirra, eins og til dæmis í endurgerð hans á hrollvekjunni The Fly frá 1986.

Já Cronenberg er afskaplega holdlegt myndskáld, gerir gjarnan hrollvekjur um hamskipti og aðskotahluti í líkamanum – og þannig að maður er allur órólegur einhvernveginn og haldinn óræðum kvíða. Ég er til dæmis ekki ennþá búinn að losna almennilega við kalda vatnið sem smaug milli skinns og hörunds þegar ég horfði á Dead Ringers fyrir um tuttugu árum eða svo.

Fyrir tveimur árum gerði hann frábæra mynd, A History of Violence, um mann sem lifir friðsömu lífi ásamt fjölskyldu sinni í litlum bæ þegar fortíðin hefur loksins uppá honum. Hún var á vissan hátt aðgengilegri en fyrri myndir hans, einföld og blátt áfram en um leið þrunginn ógn og spennu.

Viggo Mortensen átti þar geysifínan sprett og hann birtist aftur í nýjustu mynd Cronenberg, Eastern Promises eða Austrænum fyrirheitum, sem nýkomin er í bíó.

Sögusviðið er heimur rússneskrar mafíu í London nútímans. Dagbók ógæfusamrar ungrar stúlku sem látist hefur af barnsförum, leiðir ljósmóður á vit heldur ókræsilegra karaktera sem halda til á rússneskum veitingastað. Þar kynnist ljósmóðirin, sem leikin er af Naomi Watts, bílstjóra glæpagengisins, áðurnefndan Viggo, sem virðist ekki allur þar sem hann er séður.

Eins og fyrri daginn nær Cronenberg að halda áhorfandanum á bríkinni með hægum stíganda ógnar og óvissu, sem svo stundum og yfirleitt nær fyrirvaralaust, brýst út í miskunnarlausu ofbeldi. Í myndinni er til dæmis að finna slagsmálasenu sem þegar er orðin umtöluð og verður ábyggilega lengi í minnum höfð. Eastern Promises er vissulega vel gerður krimmi en ég get þó ekki varist þeirri hugsun að myndin muni ekki teljast með helstu verkum þessa meistara þegar frá líður.

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús 1.11.07)