Peter Greenaway kom hingað uppeftir um daginn og lýsti kvikmyndina dauða. Hann er reyndar búinn að tönnlast á þessu í mörg ár en gott og vel, ef kvikmyndirnar eru dauðar hljóta bíóin að vera einhverskonar grafreitur. Og hvernig er þá umhorfs í kirkjugarðinum?

Ja, hinir framliðnu liggja allavega ekki kyrrir í gröfum sínum, svo mikið er víst.

Þessa dagana má sjá kunnuglega sem framandlega anda á sveimi, ærsladrauga og uppvakninga eins og til dæmis þennan, Þrjú tíu til Yuma, endurgerð 50 ára gamals vestra. Vestrinn er einmitt gott dæmi um kvikmyndategund sem neitar að hvíla í friði. Þrjú tíu til Yuma er haganlega gerð mynd, Russel Crowe og Christian Bale vörpulegir og hasarinn þó nokkur. Maður spyr sig hinsvegar afhverju – fyrri myndin var alveg ágæt, var nokkru við hana að bæta – hafa þessir menn ekkert þarfara að gera?

Sú spurning hangir líka yfir Stardust, eða Stjörnuryki. Sagan er samsetningur úr ýmsum ævintýraminnum, eiginlega alltof mörgum. Flest eru þau heillandi út af fyrir sig og því er myndin ágæt framanaf, en vegna ofhlæðis fatast henni flugið þegar líða tekur á.

Það er hinsvegar ekki tilfellið með Ratatouille, nýjasta sprellið frá ærsladraugunum í Pixar. Á þeim bænum kunna menn oftast að setja saman kvikmyndir sem eru bæði kunnuglegar en um leið nýstárlegar, samanber Leikfangasögu og Leitina að Nemo. Þessi mynd um meistarakokk á frönsku veitingahúsi sem glímir við þá óheppilegu fötlun að vera rotta, er hin besta skemmtun.

Í kirkjugarðinum sveima líka um nokkrir andar nýliðinna jóla, það er að segja myndir af nýafstaðinni kvikmyndahátíð. Rúmenska gullpálmamyndin Fjórir mánuðir, þrjár vikur og 2 dagar er nístandi raunsæissaga um mannlega eymd, en ekki síður um mannlega reisn. Rúmenskar myndir eru á mikilli siglingu þessi misserin og sama má segja um þær þýsku, eins og Himinbrún eftir Fatih Akin vitnar um. Þetta er lágstemmd en áhrifamikil mynd um samantvinnuð örlög og minnir stundum á myndir Kieslowskis.

Og að lokum; hvorki meira né minna en fjórar rammíslenskar afturgöngur ganga lausar í kirkjugarðinum þessa dagana; Astrópía sem nú er komin í hóp mest sóttu íslensku myndanna, Veðramót Guðnýjar Halldórsdóttur og heimildamyndirnar Heima með Sigur Rós og Syndir feðranna um Breiðavíkurmálin.

Líklega eru sögur af andláti kvikmyndanna stórlega ýktar en ef svo er þá er allavega margt um að vera í myrkrinu.

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús 25.10.07)