Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið veikur fyrir pólitísku drama úr samtímanum, það er að segja kvikmyndum og sjónvarpsefni sem stökkva til okkar næstum beint af forsíðum blaðanna. Slíkar sögur hafa gjarnan áríðandi yfirbragð, um leið og þær kristalla átök um grundvallarhugmyndir – rétt og rangt – og ekki síst hvernig háleitum hugsjónum farnast í sambúð við kaldan veruleikann.

Fáir gera slíkt efni betur en Bretar og má þar meðal annars nefna hina aldarfjórðungs gömlu gamanþætti, Já ráðherra, þar sem klaufskur og hégómagjarn pólitíkus tefldi refskák við útsmoginn ráðuneytisstjóra og varð oftast undir.

Og skemmst er að minnast Drottningarinnar – The Queen – þar sem Elísabet Englandsdrottning og Tony Blair tókust á um hvernig ætti að bregðast við sviplegu fráfalli Díönu prinsessu.

Í þáttaröðinni Kjarnakona, eða The Amazing Mrs. Pritchard, sem nú er sýnd hér í Sjónvarpinu, fær verslunarstýra í stórmarkaði nóg af bullinu í pólitíkusum, býður sig sjálf fram til þings, vinnur stórsigur með nýjum flokki sínum og verður forsætisráðherra – og það allt í fyrsta þættinum!

Að sumu leyti sver Kjarnakonan sig í ættina við aðra breska sjónvarpsþætti sem fjalla um pólitísk átök, en um leið kveður við svolítið nýjan tón. Þetta er nefnilega saga um almennan borgara sem stígur inná hið pólitíska svið og kemst skjótt til æðstu metorða út á fagurgala um háleitar hugsjónir:

Já, háar hugsjónir gegn hinum harða veruleika, en allt er mögulegt ef vilji, hæfileikar og dugnaður eru fyrir hendi. Þetta er eiginlega amerísk hugmynd, næstum því úr mynd eftir Frank Capra, en kannski að einhverju leyti einnig arfleifð Tony Blair sem í upphafi lagði mikla áherslu á að menn ættu að fá tækifæri í krafti verðleika sinna umfram erfðir og háa stöðu.

Og það leiðir hugann að hinum stórmerkilegu þáttum Vesturálmunni, þessari fantasíu úr hversdagslífinu í Hvíta húsinu, sem nú hefur nýlokið göngu sinni hér í sjónvarpi allra landsmanna. Vesturálman gerðist einmitt á víglínunni milli hugsjóna og veruleika og því einskonar tilraun til að búa til portrett af pólitískri sjálfsmynd þjóðar.

Stundum læt ég mig dreyma um íslenska þætti af þessu taginu. Mér dettur til dæmis í hug þáttur sem myndi byrja á því að kveikt er á glæsilegu tákni ljóss og friðar útí Viðey að viðstöddum helstu fyrirmennum. En um leið er friðurinn úti í Reykjavíkurborg…

Nýr meirihluti � borgarstjórn Reykjav�kur

Portrett af pólitískri sjálfsmynd? Ég veit ekki. Sennilega ætti ég bara að gleyma þessu. Hver þarf leikið sjónvarpsefni þegar raunveruleikinn tekur öllum skáldskap fram?

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús 18.10.07)